Skírnir - 01.01.1954, Page 83
Skírnir
Þormóður Torfason
79
móður svaraði með alls konar vífilengjum og talaði um hættu
að senda þau aftur. En 1704 heimsótti Friðrik fjórði hann á
Stangarlandi og tók þá handritin með sér þaðan. Handritunum
úr háskólasafninu var ekki skilað aftur fyrr en skömmu fyrir
dauða hans. Sjálfur átti Þormóður allmikið af handritum,
mest afrit af eldri handritum, en safn hans allt keypti Árni
að honum látnum. Þar á meðal voru bréfabækur hans í fjór-
um bindum, og eru þær nú í Árnasafni.1)
Þormóður fór nú heim til Stangarlands og tók að vinna að
Noregssögu sinni, og áður langt um leið, sendi hann kafla af
henni til vina sinna í Danmörku. En hann þurfti oft að fara
til Hafnar, sumpart til að fá laun sín borguð, því að stundum
voru vanskil á því, og stundum víst til að létta sér upp úr
einverunni á Stangarlandi. Á einni af þessum ferðum sínum
1688 kynntist hann Árna Magnússyni, sem var nálega þrjátíu
árum yngri. Varð sú viðkynning til þess, að þeir um einn
áratug skrifuðust á um söguleg og önnur efni. Á Noregsferð
sinni 1689 dvaldi Árni nokkrar vikur á Stangarlandi, og um
veturinn 1712—13 dvaldi hann þar einnig nokkurn tíma
og gerði þá skrá yfir bókasafn Þormóðs og brenndi mikið af
þýðingum hans, eins og fyrr er getið.
Laun Þormóðs sem sagnaritara þóttu mjög góð eftir þeirra
tíma mælikvarða, og bjuggust menn því við, að hann léti eitt-
hvað frá sér fara á prenti, og það mun vera ástæðan til þess,
að tvö rit hans komu út á tíunda tug seytjándu aldar, en þau
hafði hann víst upphaflega ætlazt til, að væru partar af
Noregs sögu lians, þar sem þau fjölluðu um tvö norsk skatt-
lönd. En um þessi og önnur rit Þormóðs skal síðar rætt. 1
byrjun átjándu aldar komu út nokkur rit. frá hans hendi, og
þá var byrjað að prenta Noregssögu hans. Hann var í Kaup-
mannahöfn veturinn 1705—06, en þá varð hann skyndilega
sjúkur, missti minnið, hefur víst fengið heilablóðfall. Um
tíma dvaldi hann á prestsetri fyrir utan bæinn, og mun hann
hafa fengið nokkurn bata. Hinn 15. maí 1708 skrifar Chr.
1) Árni gerði skrá yfir bækur Þormóðs 1712, meðan iiann dvaldi á
Stangarlandi, og er sú skrá prentuð í Arne Magnussons i AM 435 A—B,
4to, indeholdte hándskriftfortegnelser. Kbh. 1909.