Skírnir - 01.01.1954, Qupperneq 224
220
Ritfregnir
Skírnir
sem sniðið var við hæfi alþýðu manna, og vist langa stund hið stærsta
þess konar bókasafn. Þess er vert að geta, að í Flatey var byggt hið fyrsta
bókasafnshús á landinu, að mestu á kostnað eins manns, Brynjólfs Bene
diktsens. Framfarastofnunin hafði og önnur hlutverk með höndum en
stofnun og rekstur hókasafnsins. Hún veitti til dæmis innansveitarmönn-
um, er fram úr þóttu skara „í nytsamlegri þekkingu, siðgæði og dugnaði",
verðlaun. Einn þeirra, er verðlaun hlutu, Magnús Magnússon í Bjarn-
eyjum, fékk þau fyrir vandaða kennslu og uppeldi barns, sem var á
sveitarframfæri, og er þetta næsta eftirtektarvert, er til þess er htið,
hversu búið var að jafnaði að sveitarbörnum hér á landi á þeim tímum.
Framfarastofnunin tók Gísla Konráðsson að sér á gamals aldri og sá hon-
um fyrir framfærslu til æviloka, svo að hann gat lifað áhyggjulaus og
gefið sig óskiptan að fræðistörfum sínum.
Eftir að Sunnanpósturinn hætti göngu sinni 1838, var svo um nokkuð
árabil, að ekkert tímarit kom út hér á landi. Til þess að bæta nokkuð úr
þeim skorti, var stofnað hið bréflega félag í Flatey, víst einkum fyrir
forgöngu síra Ölafs. Aðalatriðið í lögum þessa félags var það, að félags-
menn skuldbundu sig til að senda félaginu árlega að minnsta kosti eina
ritgerð um eitthvert þarflegt efni, eigi skemmri en á hálfa örk. Ritgerð-
irnar skyldu svo ganga milli félagsmanna til lestrar. Félagsmenn urðu
33, og eru enn til margar ritgerðir þeirra um margvisleg efni, og er þar
brotið upp á ýmsum nýmælum, sem ekki komust til framkvæmda fyrr
en löngu seinna, svo sem stofnun kvennaskóla og stýrimannaskóla, sjúkra-
samlögum o. fl., en sýnir, að höfundarnir voru langt á undan sinum tíma.
Ritgerðir bréflega félagsins náðu til fárra manna, og félagsmenn hafa
eflaust fundið, að æskilegt væri, að ýmsar þeirra kæmu almenningi fyrir
sjónir. Síra Ólafur var um eitt skeið að hugsa um að koma á fót prent-
smiðju á Vesturlandi og hugðist að leggja fram fé til þess. Seinna hreyfði
Brynjólfur Benediktsen þessu máli, en aldrei komst það til framkvæmdar.
En 1847 hóf félagið útgáfu á ársritinu Gesti Vestfirðingi. Gestur varð að
vísu ekki langlífur. Aðeins fimm árgangar komu út af honum, og var
það illa farið, því Gestur var svo vandað timarit, að hann hefði gjarnan
mátt eiga sér lengri aldur.
Lúðvík Kristjánsson segir sögu þessarar menningarviðleitni Vestlend-
inga í riti sínu. Er furðulegt, hve ítarlega hann hefir getað rakið hana,
enda augljóst, að hann hefir unnið vandlega að þessu verki og viða leitað
heimilda og orðið næsta fundvís í þeirri leit sinni. Bókin er lipurt og
skilmerkilega rituð og hin skemmtilegasta aflestrar, og lesendur hennar
hljóta að hugsa gott til þess að fá síðara bindi ritsins í hendur. Þar mun
höf. meðal annars segja frá viðhorfi Vestlendinga til Jóns Sigurðssonar,
viðhorfi alþýðu Vesturlands til alþingis og þjóðfundarins, svo verður þar
og sagt frá hinum merkilegu landsmálafundum Vestlendinga á Kolla-
húðum og í Þórsnesi.
Ölafur Lárusson.