Bændablaðið - 23.10.2014, Qupperneq 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. október 2014
Fréttir
Ný drög að reglugerð um velferð
alifugla eru harðlega gagnrýnd
Haraldur Þórarinsson, formaður LH, tilkynnti afsögn á átakamiklu landsþingi:
Sagði best að taka
pokann sinn
– í kjölfar ásakana um lögbrot og óheiðarleika
Mikil óvissa ríkir nú um með hvaða
hætti og hvar næsta Landsmót
hestamanna verði haldið eftir
alvarlegar deilur sem upp komu
á landsfundi Landssambands
hestamanna.
Það hefur verið frekar regla en
undantekning að deilur hafi spunnist
í kjölfar staðarvals Landsmóts
sem haldið er annað hvert ár. Saga
Landsmótanna nær aftur til 1950
þegar fyrsta Landsmótið var haldið
á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133
hross, kynbótahross, gæðingar og
kappreiðahross.
Landsmót er í dag einkahlutafélag
og að 2/3 hluta í eigu Landssambands
hestamannafélaga (LH) og að 1/3
hluta Bændasamtaka Íslands. Í skjóli
eignarhalds hefur LH haft úrslitaáhrif
á ákvarðanatöku í gegnum árin.
Sakaður um óheiðarleika
„Þegar sú staða kemur upp að ég
er ásakaður um óheiðarleika og
að brjóta lög í starfi mínu, starfi
sem ómældur tími fer í, allur í
sjálfboðavinnu, er ekki um annað
að ræða en taka pokann sinn,“ segir
Haraldur Þórarinsson, sem sagði af
sér formennsku í Landssambandi
hestamanna á stormasömu landsþingi
LH sem haldið var á Selfossi um
liðna helgi. Það gerði hann í kjölfar
heitrar umræðu um mál er tengjast
Landsmóti og staðarvali þeirra.
Stjórn félagsins gerði slíkt hið
sama. Fráfarandi stjórnarmenn hafa
tekið að sér að starfa sem starfsstjórn
fram til 8. nóvember næstkomandi
þegar landsþingi verður fram haldið.
Lýst hefur verið eftir framboðum til
nýrrar stjórnar LH sem kosin verður
á framhaldsþinginu.
Landsbyggð og þéttbýli att saman
„Ég átti satt best að segja ekki von á
svona miklum látum og þeirri heift sem
ríkti meðal ákveðins hluta þingfulltrúa.
Ég hélt að hestamenn væru tilbúnir
að ræða nálefni Landsmótsins á
málefnalegum grunni en ekki með
upphrópunum og rangfærslum þar
sem höfðað var til tilfinninga og
landsbyggð og þéttbýli att saman í
stað þess að fá fram efnislega umræðu
um landsmótsmálin og hvernig þeim
verði best hagað til framtíðar litið,
með hagsmuni íslenska hestsins að
leiðarljósi,“ segir Haraldur.
Segir hann að málið hafi verið
tekið inn á dagskrá þingsins í þeirri
von að menn ræddu þau af heiðarleika
á málefnalegan hátt og veltu upp
mismunandi sjónarmiðum af hlutleysi.
„Það var hópur reyndra félags-
málamanna á þinginu með stuðningi
ákveðinna sveitarfélaga, sem ekki
hafa staðið með afgerandi hætti
við bakið á svæðunum og gert við
þau rekstrarsamninga, sem tókst að
etja saman landsbyggð og þéttbýli
þar sem alið var á því að allt væri á
förum til Reykjavíkur með tilheyrandi
tilfinningaþunga. Umræðan komst
aldrei upp úr því fari þótt það hafi
verið reynt af nokkrum fulltrúum.“
Breytingar á staðarvali Landsmóts
2016 hleyptu illu blóði í
landsþingsfulltrúa
Það sem hleypti hinu illa blóði í
hestamenn á landsþinginu var að
stjórn LH hafði ákveðið að hefja
samningaviðræður við Gullhyl ehf.,
félag hestamannafélaga í Skagafirði,
um að halda næsta Landsmót, árið
2016, en í byrjun mánaðar var
samþykkt að draga þá ákvörðun
til baka og semja þess í stað við
hestamannafélagið Sprett í Kópavogi
og Garðabæ um að halda mótið. Þá
hafði stjórn ákveðið að ganga til
viðræðna við Fák í Reykjavík um að
halda Landsmót árið 2018.
Skagfirðingum var tilkynnt
um breytingar fáum dögum fyrir
landsþing. Þeir lögðu á þinginu
fram tillögu þess efnis að stjórn LH
myndi draga til baka þá ákvörðun
sína að halda ekki Landsmót á
Vindheimamelum árið 2016. Tillagan
var samþykkt.
Þarf að hefja umræðuna upp úr
staðarvalsfarinu
Haraldur segir að Skagfirðingum
hafi verið gerð grein fyrir ástæðum
þess að viðræðum við Gullhyl vegna
Landsmóts 2016 á Vindheimamelum
var slitið.
„Ég hef fullan skilning á því hversu
mikilvægt er fyrir viðkomandi svæði
að fá Landsmót, en að mínu mati
þurfum við að hefja umræðuna upp
úr þessu staðarvalsfari með tilheyrandi
tilfinningaþrunga.
Málið snýst fyrst og fremst um
íslenska hestinn, hvernig við til
framtíðar eflum hestamennsku í
landinu, aukum nýliðun og skoðum
með hvaða hætti við stöndum sem
best að Landsmótum með hagsmuni
íslenska hestsins í fyrirrúmi.
Umræða af því tagi sem fram fór
á landsþingi, þar sem sjónum var
einkum beint að staðarvali heldur
landsmótsmálum í gíslingu, það
verður engin framþróun og það er
sorglegt,“ segir Haraldur.
Ekki tilbúinn að taka áhættuna
Hann bendir á að frá því stofnað var
einkahlutafélag um rekstur Landsmóta
hafi slík mót verið haldin 7 sinnum.
Eitt hafi farið fram í Reykjavík, árið
2012, hin á landsbyggðinni, þrjú á
Vindheimamelum í Skagafirði og
jafnmörg á Gaddstaðaflötum við
Hellu. Lagt hafi verið upp með
að næsta mót yrði fyrir norðan, en
við nánari skoðun með hliðsjón af
rekstraráhættu og aðstöðuleysi hafi
ákvörðun verið breytt.
Slæmt veður, rok og rigning hafi
einkennt þrjú síðustu mót
„Við vorum ekki tilbúin að taka slíka
áhættu aftur, vissulega getur líka verið
leiðindaveður á höfuðborgarsvæðinu
en þar eru betri aðstæður til að bregðast
við,“ segir hann. Bendir hann m.a. á að
aðstæður sem Sprettur hafi yfir að ráða
séu mjög góðar og að hluta til hægt að
færa mótshald inn. Einnig mætti bjóða
upp á landbúnaðarsýningu eða aðrar
kynningar og uppákomur í Kórnum
sem Sprettur hefur yfir að ráða.
Aðstaða á Vindheimamelum ekki
fullnægjandi
„Það stóð ekki annað til en að hefja
samningaviðræður við Skagfirðinga
um mótshaldið 2016, við veltum
málum gaumgæfilega fyrir okkur
m.a. með tilliti til þeirra krafna sem
gerðar eru til landsmótssvæðanna.
Aðstaðan á Vindheimamelum er ekki
fullnægjandi. Mótin hafa stækkað og
eiga mikla möguleika ef þeim er búin
rétt umgjörð.
Ljóst er að heimamenn hefðu
þurft að leggja í mikinn kostnað
til að gera svæðið sambærilegt við
önnur sem eru í boði, spyrja verður
hvort réttlætanlegt sé að gera slíkar
kröfur til þeirra t.d. bara miðað við
nýtingu á slíkri fjárfestingu, okkar
niðurstaða var sú að svo væri ekki,“
segir Haraldur.
Fleiri ástæður liggi að baki
viðræðuslitum og þær hafi verið
tíundaðar í bréfi til heimamanna.
Bar brátt að
Skagfirðingar lögðu sem fyrr segir
fram tillögu á landsþingi um að
ákvörðun stjórnar yrði dregin til baka.
Samkvæmt lögum sambandsins eiga
tillögur sem fyrir þingið eru lagðar að
koma fram 8 vikum fyrir þing og eða
samþykktar með tveimur þriðju hluta
þingfulltrúa.
Haraldur segir að mistök hafi verið
gerð á þinginu varðandi innkomu
tillögunnar, en ekki hafi verið talið
hvort nægilegur fjöldi stæði á bak við
hana. Tillagan hafi því ef til vill komið
ólöglega inn til umfjöllunar.
„Í tillögunni er undir rós verið að
lýsa vantrausti á okkur stjórnarmenn,
við erum vænd um óheiðarleg
vinnubrögð og lögbrot. Ég viðurkenni
að þessi mál bar nokkuð brátt að af
okkar hálfu og fyrirvarinn var stuttur,
við tilkynntum um okkar niðurstöðu
nokkrum dögum fyrir landsþing. Það
hefði mátt standa með öðrum hætti að
málum, m.a. með því að tilkynna um
breytta tilhögun næsta Landsmóts eftir
landsþing, en okkur fannst heiðarlegra
að koma hreint fram og láta vita strax.
Við vorum sökuð um að koma
óheiðarlega fram og að fremja lögbrot,
sem stenst ekki en þegar maður finnur
fyrir þessu vanþakklæti á sín störf fyrir
sambandið er best að yfirgefa sviðið
og njóta lífsins á annan hátt,“ segir
Haraldur. /MÞÞ
Vinna við reglugerðir um
velferð búfjár og gæludýra
hefur verið í gangi í atvinnu-
og nýsköpunarráðuneytinu frá
síðastliðnu vori. Í annað sinn eru
komin fram drög að reglugerð
um aðbúnað alifugla. Velbú,
samtök um velferð dýra, og
Dýraverndarsamband Íslands
(DÍS) gagnrýna einnig nýju drögin
harkalega í umsögnum sínum.
Er sérstaklega fundið að því í
athugasemdum Velbús að ekki sé
byggt á þeim andblæ sem birtist í
nýjum lögum um velferð dýra, sem
tóku gildi í byrjun þessa árs. Þá er
sérstaklega tiltekið í umsögnunum
að samkvæmt nýjum drögum verði
goggstýfing heimil á varpfuglum og
er það nýtt frá núgildandi reglum – og
því mótmæla Velbú og DÍS harðlega.
Einnig eru gerðar athugasemdir um
að heimildum um hámarks þéttleika
við alifuglahald sé ekki breytt frá fyrri
drögum, en í nýjum drögum er gert
ráð fyrir heimild til aukins þéttleika
í eldi alifugla. DÍS tiltekur einnig,
þrátt fyrir ýmsar aðfinnslur, að eitt
og annað í nýjum drögum sé til bóta.
Meðal annars sé til bóta að tillit hafi
verið tekið til fyrri athugasemda um
hámark hljóðmengunar, um styttingu
tíma til að setja upp klóslípibúnað,
um að endur og gæsir njóti örugglega
lausagöngu og hafi aðgang að vatni
til böðunar og loks að mæling á
ammoníaki skuli vera í sömu hæð og
fuglarnir sjálfir.
Fyrir skemmstu var útgefin
reglugerð um velferð hrossa og
gerir Matvælastofnun grein fyrir
henni hér í blaðinu á blaðsíðu 46.
Aðrar reglugerðir eru í vinnslu, en
samkvæmt upplýsingum úr atvinnu-
og nýsköpunarráðuneytinu eru
reglugerðir um velferð nautgripa
og velferð sauðfjár og geitfjár hvað
lengst komnar. /smh
Laugardaginn 25. október,
fyrsta vetrardag, verður kjöt-
súpudagurinn á Skóla vörðustíg
haldinn hátíðlegur, tólfta árið í
röð.
Dagskrá hefst klukkan 14 með því
að föngum í Hegningarhúsinu verður
færð rjúkandi góð kjötsúpa. Strax í
kjölfarið gefst almenningi kostur á
að gæða sér á rjúkandi heitri súpu á
nokkrum stöðum í götunni.
Að loknu súpusmakki, kl. 16.15,
verður hrútaþukl á KEX Hostel við
Skúlagötu. Hrútaþukl er keppni þar
sem menn spreyta sig á að dæma hrúta
og meta hvernig þeir henta til kynbóta.
Þjóðþekktir einstaklingar munu taka
þátt og mun hæfasti þuklarinn hljóta
vegleg verðlaun.
Böðvar E. Guðjónsson,
framkvæmdastjóri KEXLAND,
segir að mikil tilhlökkun ríki í sínum
herbúðum fyrir laugardeginum.
„KEX hefur verið í góðu samstarfi
við Landssamtök sauðfjárbænda
og hófst það með rúningskeppni
sem haldin var á KEX í vor og
kallast Gullnu klippurnar. Okkur í
KEXLANDI þykir vænt um íslensku
sauðkindina og viljum veg hennar sem
mestan. Því kviknaði sú hugmynd
að fá íslensku sauðkindina í 101
Reykjavík til að kynna borgarbörnum
ágæti hennar, þ.e., ef þú kemst ekki
í sveitina þá færum við sveitina
til ykkar. Hrútaþuklið er eðlilegt
framhald Gullnu klippanna og einnig
fannst okkur við hæfi að bjóða vetur
konung velkominn með þessum
viðburði. Hvað er meira íslenskt en
hrútaþukl á KEX og ekki skemmir
fyrir að við
m u n u m
bjóða gestum
og gangandi
u p p á
rammíslenska
k j ö t s ú p u
meðan á
viðburðinum
stendur.“
Þekktir einstaklingar koma að
dæma hrútana og einnig munu vanir
dómarar taka þátt í þuklinu. Enn
fremur mun kynnir lýsa því sem fram
fer þannig að þetta er viðburður sem
ekki einungis gleður heldur fræðir á
sama tíma. Meðal dómara má nefna
Guðmund Jörundsson fatahönnuð,
Bjarna Snæðing og hjónin geðþekku,
Magna og Hugrúnu í KronKron.
/ehg
Bjóða vetur konung velkominn
með hrútaþukli í 101 Reykjavík
Böðvar E. Guðjónsson.
Haraldur Þórarinsson.