Bændablaðið - 23.10.2014, Síða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. október 2014
Mjólkursamsalan, langstærsta
afurðafyrirtæki bænda á
Íslandi, kærði í vikunni til
áfrýjunarnefndar samkeppnismála
ákvörðun Samkeppniseftirlitsins
frá því í september að fyrirtækið
hafi beitt smærri keppinauta
samkeppnishamlandi mismunun.
Með samkeppnishamlandi
mismunun er í þessu tilfelli átt við
að MS hafi selt samkeppnisaðilum
hrámjólk á hærra verði en til
fyrirtækja sem eru eigna- og
rekstrartengd MS. Það er að segja
að félagið hafi beitt mismunandi
verðlagningu í sambærilegum
viðskiptum. Samkeppniseftirlitið
taldi brotið alvarlegt þar sem það
tengist mikilvægum neysluvörum
og að það hefði valdið almenningi
skaða og telur hæfilega sekt vera
370 milljónir króna.
Samkvæmt samkeppnislögum
skal úrskurður áfrýjunarnefndar
liggja fyrir innan sex vikna frá
áfrýjun.
Ólík viðskipti lögð að jöfnu
Einar Sigurðsson, forstjóri MS,
segir að með ákvörðun sinni sé
Samkeppniseftirlitið að túlka 71.
grein búvörulaga þrengra og á annan
hátt en gert hafi verið til þessa.
„Við teljum að ákvörðun
Samkeppniseftirlitsins byggi á
grundvallar misskilningi á eðli
viðskiptanna sem áttu sér stað.
Þarna er verið að leggja að jöfnu
gjörólík viðskipti. Annars vegar er
um að ræða skilmálalausa sölu á
mjólk til þeirra sem hafa frjálsar
hendur við vinnslu hennar og hins
vegar er um að ræða miðlun á
mjólk innan framleiðslusamstarfs
MS og Kaupfélags Skagfirðinga og
dótturfélags þess, sem hafa fallist
á að framleiða vörur sem gefa
minna af sér. Þetta er gert til þess
að hægt sé að skipuleggja saman
alla framleiðslu í þessu samstarfi
og ná niður kostnaði. Hér er sem
sagt ekki um að ræða sambærileg
viðskipti. Þetta er kjarninn í hinum
efnislega ágreiningi í málinu.
Auk þess gerir Mjólkursamsalan
athugasemdir við að það skorti
verulega á viðhlítandi rannsókn á
efni málsins. Því er meðal annars
haldið fram að með verðlagningu
sinni hafi MS haft slæm áhrif á
rekstur tiltekins fyrirtækis en engin
tilraun gerð til að skoða rekstur
þess og því engin leið að leggja
mat á hvort eða hversu mikinn
skaða verðið frá okkur hefur haft
á rekstur þess.“
Einar segir þetta meðal
annars skipta máli vegna þess að
sektarfjárhæðin miðist við þann
skaða sem viðkomandi fyrirtæki
á að hafa orðið fyrir.
„Að mínu mati þarf í fyrsta
lagi að skilgreina markaðinn sem
um er að ræða, til að ganga úr
skugga um hvort brot hafi verið
framið, og við teljum að þeirri
vinnu sé mjög ábótavant hjá
Samkeppniseftirlitinu. Í öðru lagi,
er ekki reynt að leggja mat á hvaða
áhrif meintur munur í verðlagningu
hefur á reksturinn. Í úrskurðinum
er því haldið fram, án þess að
viðhlítandi rannsókn hafi farið
fram, að verðlagning frá okkur
hafi valdið viðkomandi fyrirtæki
skaða.“
Gagnaöflun Samkeppnis-
stofnunar í málinu er því mjög
ábótavant að mati Einars.
„Það er ekki gerð tilraun
til að afla gagna hjá stórum
aðilum sem komu að þessum
viðskiptum og rekstri. Þarna eru
mikilvægustu aðilarnir Kaupfélag
Skagfirðinga, sem er þó margoft
nefnt til sögunnar í málatilbúnaði
Samkeppniseftirlitsins, og fyrir-
tækið Vífilfell hf., sem átti hér
um bil helmingshlut í fyrirtækinu
Mjólku undir lokin 2008.
Upplýsingar í málinu eru fyrst
og fremst gögn sem kallað hefur
verið eftir frá MS og viðtöl og
blaðaviðtöl við þann aðila sem
kærði MS í þessu máli. Það er
einfaldlega ekki nóg til að fá rétta
mynd af atvikum málsins.“
Verðlagsnefnd búvara ákvarðar
mjólkurverð
„Mjólkursamsalan starfar í afar
sérstöku lagaumhverfi. Við segjum
stundum hér að lögin tryggi að
hagnaður félagsins verði aldrei meiri
en svo að það rétt nái að endurnýja
tæki og búnað. Bændurnir, sem
eiga félagið, fá sitt fyrst og fremst í
gegnum öfluga vöruþróun félagsins
sem leiðir til meiri sölu á mjólk og í
gegnum mjólkurverðið,“ segir Einar.
Samkvæmt lögum ákvarðar
verðlagsnefnd búvara hvaða verð
bændur fá fyrir mjólkurlítrann og á
hvaða verði MS selur helstu afurðir
til smásala. Verðlagsnefnd hefur
haldið þróun afurðaverðs langt
innan við þróun neysluvísitölu og
launavísitölu. Einar segir rekstur
MS verða að ganga innan þess
ramma.
„Í dag er það þannig að MS sér
um kaup, söfnun og vinnslu á allri
mjólk á landinu að undanskildu
því svæði þar sem Kaupfélag
Skagfirðinga veitir þessa þjónustu.
MS sér svo um alla sölu og dreifingu
á framleiðslu beggja fyrirtækjanna.
Þessi samvinna MS og KS er
byggð á þessari frægu lagagrein
númer 71. í búvörulögum, sem
veitir fyrirtækjum í mjólkuriðnaði
heimild til að vinna saman til
að hagræða í rekstrinum þrátt
fyrir ákvæði samkeppnislaga.
Þannig eru bændur, sem eiga
þessa starfsemi, að lækka
milliliðakostnaðinn milli sín og
neytenda. Það hefur tekist með því
að fækka mjólkurvinnslustöðvum,
stækka þær og sérhæfa hvert bú í
tilteknum afurðum. Mjólkurbúið
á Selfossi sér um pökkun á nær
allri drykkjarmjólk og framleiðslu
á öllum sýrðum vörum. Nær allur
ostur er framleiddur á Akureyri og
Sauðárkróki. Á þessum þremur
stöðum er unnið úr um 90% af
allri mjólk á landinu. Fyrirtækin
í þessu samstarfi, MS og KS, eru
skuldbundin til að taka til vinnslu
alla mjólk bænda á landinu hvort
sem þau hafa þörf fyrir hana eða
ekki. Við erum því stöðugt að
flytja hráefni og afurðir á milli
landshluta og miðla þeim hluta
hráefnis sem við ekki höfum þörf
fyrir til útlanda.“
Kaupfélag Skagfirðinga á 10%
hlut í MS á móti 90% hlut Auðhumlu.
Í framleiðslusamstarfinu
er Kaupfélag Skagfirðinga
skuldbundið, samkvæmt samningi
við MS, að framleiða ákveðnar
vörur, ost og smjör.
Þessar vörur gefa minna af sér
en sýrðar vörur sem voru fluttar til
framleiðslu á einum stað hjá MS.
Við höfum svo jafnað reikninginn
með því að miðla til KS takmörkuðu
magni af mjólk á því verði sem
við greiðum bændum. Með þessu
samstarfi höfum við getað fækkað
vinnslustöðvum, einfaldað og
stækkað framleiðslulínurnar og
lækkað kostnaðinn.
Mjólkurbú utan þessa
framleiðslusamstarfs hafa engar
slíkar skuldbindingar. Þau hafa
engar skuldbindingar um að kaupa
alla mjólk af bændum, en geta sótt
mjólk eftir þörfum til MS. Þeim er
frjálst að framleiða hvaða vöru sem
er og hafa engar skuldbindingar
um að dreifa henni á sama verði
um allt land eins og fyrirtækin í
framleiðslusamstarfi MS. Það er
grundvöllur þess verðs sem þessir
aðilar hafa greitt og er ákvarðað af
verðlagsnefnd búvöru.
Deilan snýst því um hvort þessi
viðskipti séu sambærileg eða ekki
og að okkar mati eru þau það alls
ekki.
Úrskurður Samkeppnis-
eftirlitsins hefur skapað
tímabundna óvissu um þetta form á
framlegðarjöfnun. Á meðan greiðir
KS og önnur tengd fyrirtæki sama
verð fyrir mjólkina í dag og aðrir
og við gerum hagræðingarábatann
upp með öðrum hætti,“ segir Einar.
Einokun eða verðstýrður
stórrekstur
„Búvörulögin setja mjög sérstaka
umgjörð um mjólkurvinnsluna. Öll
fyrirtæki í greininni mega vinna
saman með þeim hætti sem MS og
KS hafa gert og koma fram saman
út á markaði. Þetta er ekki hægt í
öðrum greinum.“
Er ekki hætta á að þetta skapi
einokunarstöðu og er þetta
fyrirkomulag ekki í andstöðu
við ríkjandi skoðanir um frjálsa
samkeppni?
„Nei. Alþingismennirnir sem
settu lögin voru nú skynsamari
en svo. Hegðun fyrirtækja í
einokunarstöðu kemur fyrst
og fremst fram í verðlagningu
þeirra. Þingmenn tóku á sínum
tíma ákvörðun um að leyfa
samþjöppun í mjólkuriðnaði bæði
með sameiningu fyrirtækja og
samvinnu. Á móti tóku þeir valdið
til verðlagningar af fyrirtækjunum
og settu á þau ýmsar skyldur,
sem bæði koma fram í lögum og
í samþykktum félaganna. Svona
fyrirkomulag á vel við í ákveðnum
atvinnugreinum, sérstaklega þeim
þar sem flutningaþáttur er stór hluti
starfseminnar. Þetta fyrirkomulag
hefur til dæmis verið notað í rekstri
járnbrauta, almenningssamgangna,
á raforkumarkaði og svo
framvegis. Hér hefur það hentað
í mjólkuriðnaði vegna þess
að flutningaþátturinn er svo
gríðarmikill og vegna þess að
allar stærri greinar framleiðslunnar,
ostaframleiðsla og mjólkurpökkun
sérstaklega, fara fram með dýrum
tækjabúnaði sem er erfitt að fá
á viðunandi nýtingu nema með
ákveðinni samþjöppun. Betri
nýting lækkar vöruverð.
Það má segja að rekstur
Mjólkursamsölunnar sé algerlega
skilyrtur af ákvörðunum
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir Samkeppniseftirlitið leggja ólík viðskipti að jöfnu:
MS starfar í afar
sérstöku lagaumhverfi
Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Mynd / VH