Bændablaðið - 23.10.2014, Side 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. október 2014
Mikið hefur verið fjallað um
málefni LbhÍ á undanförnum
mánuðum. Þar hefur ekki alltaf
verið farið með rétt mál og því
viljum við koma eftirfarandi
staðreyndum á framfæri.
1. LbhÍ er mennta- og nýsköpun-
armiðstöð land búnaðar ins
á Íslandi með höfuðstöðvar
á Hvanneyri. Skólinn
varð til 2005 við samruna
Landbúnaðarháskólans á
Hvann eyri (LBH), Rannsókna-
stofnunar landbúnaðarins (Rala)
og Garðyrkjuskóla ríkisins á
Reykjum. Auk hefðbundins
háskólastarfs sinnir hann
starfsmenntanámi í búfræði og
garðyrkju.
2. Skólinn fékk viðurkenningu
menntamálaráðuneytisins á
fræðasviðum sínum á árunum
2007–8 og ári seinna heimild til
þess að bjóða upp á doktorsnám,
einn háskóla fyrir utan Háskóla
Íslands og Háskólann í
Reykjavík. Þessi áfangi hefði
ekki náðst án sameiningar
LBH og Rala 2005, enda
voru akademískir starfsmenn
á Hvanneyri á þeim tíma fáir,
og liðsauki sérfræðinga Rala
forsenda frekari uppbyggingar
skólastarfsins.
3. Frá stofnun LbhÍ hafa 369
nemendur útskrifast af
starfsmenntabrautum, 349
nemendur hafa fengið BS
gráðu, 64 meistaranemar hafa
lokið námi og eftir fáeinar
vikur munum við útskrifa fjórða
doktorsnemann. Starfsmenn
sinna jafnframt rannsóknum
er tengjast vernd og nýtingu
landsins gæða og vinna
verðmætt nýsköpunarstarf fyrir
atvinnuveginn.
4. Nemendur LbhÍ eru margir
úr dreifbýli landsins og um
75% útskrifaðra nemenda
skólans hafa farið til starfa
á landsbyggðinni. Skólinn
gegnir þannig mikilvægu
hlutverki í viðhaldi byggðar og
byggðaþróun dreifbýlisins.
5. Frá upphafi vega hefur
skólinn þurft að kljást við
mikinn fjárhagsvanda. Engar
fjárveitingar voru veittar til að
standa straum af kostnaði við
sameininguna í upphafi, né
heldur lögðu stjórnvöld neinar
línur um hvernig að henni
skyldi staðið. Alþingi hefur
heldur ekki verið til viðræðu
um að veita skólanum leyfi til
að selja lönd eða fasteignir í
því skyni að endurskipuleggja
starfsemi sína eða fjárhag. Í
lok árs 2013 var eiginfjárstaða
skólans neikvæð um 411 mkr. og
skuld við ríkissjóð um 750 mkr.
Samhliða þessari skuldasöfnun
hefur starfsemin dregist saman.
Við sameiningu voru fastir
starfsmenn um 130 en eru nú
í þessum skrifuðu orðum rétt
rúmlega 80.
6. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2015
er skólanum gert að draga enn
saman seglin um 26 mkr. Auk
þess er honum gert að standa
skil á endurgreiðslu skulda
á næstu tveimur árum að
upphæð 35 mkr. hvort ár. Hvað
verður þá er óljóst. Til þess að
bregðast við þessu verða 10
störf við skólann lögð niður
frá og með næstu áramótum.
Í þessum yfirstandandi
samdráttaraðgerðum hefur verið
reynt að verja kjarnastarfsemi
kennslu og rannsókna en öll
stoðþjónusta hefur verið skorin
inn að beini.
7. Síðastliðið haust lýsti
menntamálaráðherra því yfir
að hann teldi skynsamlegast að
sameina starfsemina Háskóla
Íslands og verja þannig framtíð
fræðasviða skólans. Unnið var
út frá þeirri hugmynd að til yrði
ný deild innan verkfræði- og
náttúruvísindasviðs HÍ sem hefði
aðalstöðvar sínar á Hvanneyri
og þar yrði háskólakennslan
með sama sniði og verið hefur
sem og starfsmenntanámið.
Jafnframt yrði stefnt að því að
efla starfsemina á Hvanneyri
með öllum tiltækum ráðum,
m.a. með uppbyggingu nýrrar
jarðræktarmiðstöðvar á
staðnum.
8. Hugmyndir ráðherrans
mættu mikilli andstöðu
sveitarstjórnarfólks og
annarra heimamanna í
Borgarbyggð, þingmanna í
Norðvesturkjördæmi og forystu
Bændasamtaka Íslands. Hann
afréð því að láta málið niður
falla á útmánuðum 2014.
Ráðherra hefur hins vegar
lýst því yfir nýlega á þingi að
hann sé enn sömu skoðunar,
enda er það í samræmi við
opinbera stefnumörkun
Vísinda- og tækniráðs 2014–
2016 sem grundvölluð er á
ítarlegri greiningu á stöðu og
framtíð íslenska háskóla- og
nýsköpunarkerfisins.
9. Tæplega fjórir fimmtu allra
akademískra starfsmanna
skólans skrifuðu undir
yfirlýsingu til rektors og
menntamálaráðherra síðastliðið
vor um að halda til streitu
áformum um að sameina LbhÍ
og HÍ. Rök þeirra voru þau að
ef ekki yrði af áformum ráðherra
yrði starf skólans í mikilli
hættu og gilti það jafnt um
starfsmenntanámið á Hvanneyri
og Reykjum, og háskólanámið
og rannsóknir.
10. Vert er að minna á að til
LbhÍ eru gerðar sömu kröfur
og til annarra háskóla um
gæði rannsókna og kennslu í
samræmi við lög um háskóla
nr. 63/2006. Í úttektarskýrslum
erlendra sérfræðinga á vegum
gæðaráðs íslenskra háskóla
hefur komið fram að skólinn
hefur skýra faglega sérstöðu
meðal íslenskra háskóla, með
sérlega góða aðstöðu til að reka
það nám sem hann hefur með
höndum og veitir nemendum
persónulega og góða þjónustu,
enda hefur skólinn fengið fulla
viðurkenningu á fræðasviðum
sínum og staðist úttektir. Á hinn
bóginn hefur verið endurtekið
bent á þá staðreynd að skólinn
hefur verið vanfjármagnaður frá
stofnun. Hafi það komið niður á
gæðum starfsins og möguleikum
hans til að bregðast við
ábendingum um nauðsynlegar
úrbætur. Frá 2008 hafa komið
fram í úttektarskýrslum
ábendingar um að stofnunin
sé undir stærðarmörkum til að
geta staðið undir öllum þeim
fjölbreyttu kröfum sem gera ber
til sjálfstæðs háskóla.
Hver er þá staðan núna
og hvað er til ráða?
Málefni LbhÍ eru í ógöngum vegna
pattstöðu íslenskra stjórnmála.
Menntamálaráðherra, margir
starfsmenn og stjórnendur LbhÍ,
og rektor og háskólaráð HÍ vilja
sameina LbhÍ og HÍ. Það er bæði í
samræmi við vandlega ígrundaða
stefnumörkun Vísinda- og
tækniráðs og ábendingar sem hafa
komið fram í gæðamatsskýrslum
um LbhÍ. Stjórnendur LbhÍ töldu
og telja enn að brýnt sé að vinna
að framtíðarþróun skólans á
þessum grunni í góðu samstarfi
við stjórnvöld, en ekki í andstöðu
og afneitun.
Andstæðingar sameiningar
benda á að loforð ráðherra um
uppbyggingu á Hvanneyri við
sameiningu LbhÍ og HÍ hafi
verið sýnd veiði en ekki gefin.
Sannfærandi áætlanir um að
fjármögnun væri fyrir hendi hefðu
ekki verið reiddar fram, jafnframt
því að engar tryggingar hefðu verið
fyrir því að starfsemi skólans á
Hvanneyri og Reykjum yrði tryggð
inn í framtíðina innan vébanda stóra
þjóðarháskólans, þ.e. HÍ.
Til að losa um þessa pattstöðu
þarf mildari skoðanaskipti en
hingað til í þeim tilgangi að finna
málamiðlanir. Umræða sem er högg
í högg skilar okkur ekki áleiðis.
Sameining stofnana er ekki einfalt
mál og slíkum ferlum er auðvelt að
klúðra ef ekki er vandlega ígrundað
hvernig tryggja skuli framtíð
verkefna og mannauðs sem best.
Í því verkefni sem bíður okkar er
nauðsynlegt að hafa í farteskinu
bæði faglega og pólitíska sýn
sem viðurkennir þá staðreynd að
lítill landsbyggðarháskóli þurfi að
komast í skjól stærri umgjarðar til
þess að tryggja honum nægilega
öfluga innviði og stoðkerfi svo að
hann geti rækt hlutverk sitt í kennslu
og nýsköpun. Starfsemin þarf að
standast alþjóðlegar gæðakröfur
en það er ekki síður mikilvægt að
skólinn geti um leið þjónað fagsviði
sínu fyrir íslenskt samfélag og
dreifbýlið alveg sérstaklega.
Lítill landsbyggðarháskóli
eins og LbhÍ hefur mikilvægu
hlutverki að gegna fyrir atvinnulíf
í dreifbýli um land allt auk þess
sem starfsstöðvar í dreifbýli
auka fjölbreytni í atvinnulífi á
hverju svæði. Nýleg rannsókn
á örlögum útskrifaðra nemenda
frá LbhÍ sýnir þetta glögglega
því að yfir 75% útskrifaðra nema
frá háskólabrautum eru við störf
á landsbyggðinni og enn hærra
hlutfall úr starfsmenntabrautum.
Skólinn hefur, rétt eins og aðrir
dreifbýlisháskólar landsins, lagt
sig fram við að gera nemendum
kleift að stunda fjarnám í meira
mæli en stóru skólarnir í Reykjavík.
Þeir hafa því sinnt ákveðnu
frumkvöðlahlutverki og gert fólki
víða um land mögulegt að stunda
nám sem það hefði annars ekki haft
möguleika á.
Við pólitíska stefnumörkun
fyrir háskólakerfið á Íslandi þarf
að taka tillit til sérstöðu litlu
dreifbýlisskólanna. Það þarf að
viðurkenna að þeir eru dæmdir til
að vera „óhagkvæmari“ einingar
samanborið við stóran skóla í
borg. Það er hluti af því verði sem
þarf að gjalda fyrir að halda við
grunnstoðum landsbyggðarinnar.
Góð ráð eru oft dýr og krefjast
þess að stjórnvöld hafi pólitískt
þor og skýra framtíðarsýn.
Stóru háskólarnir fyrir sunnan,
sérstaklega HÍ, hafa sýnt áhuga
og ábyrga afstöðu til verkefna
litlu skólanna og það er eðlilegt
að horft sé til samstarfs við þá um
að skólarnir myndi allir saman þá
heild sem íslenskt samfélag þarf á
að halda. Við skorum á stjórnvöld
að þau finni leið sem tryggir öflugt
þekkingarstarf í dreifbýlinu án þess
að slegið sé af gæðakröfum. Það
mætti gera með því að skilgreina
sérstakan lið á fjárlögum fyrir
viðkomandi stofnun sem tryggir
að hægt sé að reka samkeppnishæft
gæðanám og rannsóknir utan
höfuðborgarsvæðisins. Finna þarf
skipulag sem er þannig úr garði
gert að sveitarstjórnarmenn og aðrir
hagsmunagæslumenn í dreifbýlinu
sjái og sannfærist um að það sé
verið að vinna fyrir dreifbýlið en
ekki gegn því.
Í stefnumótun fyrir íslenska
háskólakerfið þurfum við að
stilla saman kraftana en ekki
reka óvægna árekstrapólitík milli
þeirra smáu og stóru eða á milli
dreifbýlis og höfuðborgarsvæðis.
Við erum öll sömu þjóðar og eigum
sameiginlegra hagsmuna að gæta.
Björn Þorsteinsson, rektor
Áslaug Helgadóttir,
aðstoðarrektor
Staðreyndir um Landbúnaðarháskóla
Íslands og hvað er til ráða?