Bændablaðið - 23.10.2014, Síða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. október 2014
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is
Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Það er alltaf gaman að því þegar
talnasérfræðingar átta sig á
samhengi hlutanna í rekstri eins
þjóðfélags þegar rýnt er í gegnum
allar lýðskrumsfullyrðingarnar.
Öflug hagsmunasamtök í verslun
og þjónustu hafa misserum saman
hamrað á nauðsyn þess að þeirra
skjólstæðingar fái fullkomið frelsi
til að flytja inn vörur og það helst án
nokkurra tolla eða aðflutningsgjalda.
Á það jafnt við um iðnaðarvörur
sem og landbúnaðar- og
sjávarútvegsvörur. Hamrað er á
því að verið sé að berjast fyrir
hagsmunum neytenda til að fá að
kaupa ódýrari vöru, en ekkert minnst
á undirliggjandi gróðamöguleika
verslunarfyrirtækjanna sjálfra. Undir
þetta hefur forysta Alþýðusambands
Íslands tekið og alltaf er skákað í
skjóli almannahagsmuna.
Sömu menn virðast alfarið vera
á móti styrkjakerfi í landbúnaði en
finnst á sama tíma ekkert athugavert
við að íslenskir neytendur geti fengið
keyptar tollfrjálsar landbúnaðarvörur
frá útlöndum sem niðurgreiddar eru
af erlendum almenningi.
Forðast er eins og heitan eld að
ræða hvað gerist ef við t.d. hættum
að framleiða landbúnaðarvörur og
áhrif þess til aukingar viðskiptahalla.
Ekki er heldur sagt hvar eigi að
fá gjaldeyri til að mæta kaupum
á vörum frá útlöndum sem við
gætum svo auðveldlega framleitt
sjálf í okkar landi. Svo ekki sé talað
um hvar allir þeir tugir þúsunda
einstaklinga, sem hafa lifibrauð sitt
af landbúnaði og tengdum greinum,
eigi að fá vinnu ef hið fullkomna
tollalausa innflutningsfrelsi á að
ráða för.
Það vakti því athygli er Ólafur
Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ,
kom fram í kvöldfréttum Sjónvarps
á þriðjudag og kynnti niðurstöður
hagspár ASÍ til ársins 2016. Þar kom
berlega fram, að þótt spáð sé auknum
hagvexti, skýrist hann samt ekki af
aukinni framleiðslu og útflutningi,
heldur af auknum fjárfestingum
og einkaneyslu í kjölfar lækkunar
skulda og niðurfellingar vörugjalda.
Almenningur kaupi meira sem
þýðir að meira útstreymi verður af
erlendum gjaldeyri. Ólafur sagði
orðrétt:
„Við getum ekki byggt við
þessar aðstæður hagvöxt á aukningu
þjóðarútgjalda til langs tíma.“
Með öðrum orðum, Íslendingar
þurfa að framleiða hér alvöru
verðmæti, bæði til að spara gjaldeyri
og afla hans. Við verðum einhvers
staðar að fá tekjurnar fyrir öllu
innflutta góðgætinu. Reynslan af
hruninu ætti að kenna okkur að sú
verðmætasköpun verður ekki til með
falskri verðmætamyndun í ofvöxnu
verslunar- og bankakerfi. /HKr.
Verðmætasköpun
LOKAORÐIN
Matvælaframleiðsla skiptir allar þjóðir máli
Haustið er uppskerutími í landbúnaðinum.
Sumarið var víðast hvar gott, en sums
staðar óþarflega blautt sem kom niður á
fóðurgæðum. Grænmetisuppskeran var góð
og nú er sláturtíð að ljúka. Lömb eru að
jafnaði talsvert vænni en í fyrra og sláturgerð
er að mestu afstaðin.
Nú undir lok sláturtíðarinnar er enn deilt um
mikilvæg atriði í landbúnaðarstefnunni. Að flestu
leyti er þar um vel þekkt atriði að ræða sem alltaf
koma upp með reglulegu millibili.
Málefni mjólkuriðnaðarins hafa verið
áberandi. Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að
Mjólkursamsalan hafi misnotað markaðsráðandi
stöðu sína og þeim úrskurði hefur verið áfrýjað.
Þá liggur fyrir að hækkun heildsöluverðs
mjólkurafurða hefur verið ríflega 20% minni
en almenns verðlags síðasta áratuginn.
Skipulag mjólkuriðnaðarins er auðvitað ekki
hafið yfir gagnrýni – en tilgangur þess er og
hefur alltaf verið að reka mjólkurframleiðsluna
með sem hagkvæmustum hætti. Í því skyni hefur
Mjólkursamsalan skipulagt starfsemina sem eina
heild. Á hana eru lagðar ákveðnar skyldur, hún
ræður ekki kaup- eða söluverði sinna helstu
afurða, en hefur í staðinn haft heimildir fyrir
nánara samráði en almennt er leyft.
Rök fremur en blinda trú á markaðslausnir
Komi fram sannfærandi rök fyrir því að hægt sé
að tryggja hag framleiðenda og neytenda betur
með einhverjum öðrum hætti þá verður að taka
það til alvarlegrar skoðunar, en það verður að
vera stutt einhverjum sterkari rökum en blindri
trú á lausnir markaðarins. Spurningin er og
verður: Skilar fyrirkomulagið árangri eða ekki?
Á þeim forsendum hafa bændur stutt kerfið og
það verður að liggja til grundvallar breytingum.
MS hefði hins vegar þurft að taka betur á
málinu því að það er einfaldlega skynsamlegra
að hvetja til fjölbreyttara framboðs mjólkurvara.
Það er bæði neytendum og framleiðendum til
hagsbóta. Bændur vænta þess að fyrirtækið muni
draga þann lærdóm af þessu máli.
Tollar eru til að jafna samkeppnisstöðu
Umræða um tollvernd hefur haldið áfram.
Tollverndin er önnur megistoðin starfsumhverfis
íslensks landbúnaðar. Tollar eru lagðir á
til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar
búvöruframleiðslu, það er á þær innfluttu búvörur
sem eru sambærilegar innlendri framleiðslu.
Fjölmargar landbúnaðarvörur sem ekki eru
framleiddar hérlendis eru fluttar inn án tolla.
Þar má til dæmis nefna hveiti, kornvörur, pasta,
hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávextir og sumar
tegundir grænmetis.
Innlend nautakjötsframleiðsla hefur ekki annað
eftirspurn að undanförnu og heimilaður hefur verið
ótakmarkaður innflutningur á lágmarkstollum.
Spurt hefur verið af hverju tollvernd sé beitt
yfirleitt við þær aðstæður. En þá verður að taka
tillit til eðlis landbúnaðarframleiðslu. Tollvernd
er nákvæmlega það sem í nafninu felst – vernd
fyrir innlenda framleiðslu. Ef allir tollar eru
felldir niður í ljósi skorts, þá er um leið verið
að festa skortinn í sessi. Samkeppnisstaðan er
einfaldlega ekki jöfn. Það verður alltaf hægt að
framleiða ódýrari vöru erlendis. Ef við viljum
hins vegar meira af þeirri innlendu – sem við
vitum hvernig er framleidd og hvaðan hún kemur,
þá þurfa leikreglurnar að vera þannig að menn
séu tilbúnir að leggja tíma og peninga í það
tveggja ára ferli sem nautakjötsframleiðsla er.
Sömu rök um allan heim fyrir verndun
á eigin matvælaframleiðslu
Um allan heim tíðkast að ríki verndi og styðji
innlenda matvælaframleiðslu. Rökin að baki
eru einkum þau að talið er mikilvægt að tryggja
framleiðslu matvælanna í viðkomandi löndum.
Menn vilja ekki standa frammi fyrir því að hafa
fórnað matvælaframleiðslunni fyrir skammtíma
gróða, né treysta á innfluttar matvörur eingöngu.
Til þess að ná þessum markmiðum nota ríki
meðal annars tollvernd.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur birt álit þess efnis
að hérlendar takmarkanir á innflutningi hrás kjöts
séu brot á EES-samningnum. Slíkt eru auðvitað
vonbrigði, en treysta verður á að stjórnvöld taki
til fullra varna þegar og ef málið kemur til kasta
EFTA-dómstólsins.
Í fyrra héldu Bændasamtökin fjölsóttan fund
um málið þar sem tveir þekktir vísindamenn héldu
erindi, þeir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á
Keldum, og Karl G. Kristinsson, prófessor og
yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Vilhjálmur benti m.a. á að það séu 600–700
smitefni þekkt sem smita hesta, svín, nautgripi,
sauðfé og geitur. Landfræðileg einangrun Íslands
hefur verndað okkar sérstöku búfjárstofna í
gegnum tíðina sem eru afar móttækilegir fyrir
smiti. Það væru dæmi um að sjúkdómar hefðu
borist til landsins og valdið miklum skaða.
Nýjasta dæmið væri hrossapestin. Sjúkdómastaða
íslenskra búfjárstofna væri í mörgu tilliti einstök
og auðlegð sem bæri að verja með öllum tiltækum
ráðum. Hann benti á að einn þáttur í því að verja
þá stöðu er að sem minnst sé flutt inn af hráum
ómeðhöndluðum dýraafurðum sem mögulega
gætu borið með sér smit.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklafræði-
deild Landspítalans, sagði sýkingaráhættu bæði
tengda innlendum og innfluttum afurðum en
innflutt matvæli valda nú þegar hópsýkingum
á Íslandi. Nefndi hann dæmi um sýkingar
sem hefðu borist með erlendu salati. Hann
sagði líkurnar aukast við aukinn innflutning
á fersku kjöti og tiltók sérstaklega ýmsar
sýklalyfjaónæmar bakteríur sem væri ein mesta
ógnin nú um stundir. Þá benti Karl á mikla
sýklalyfjanotkun í erlendri búfjárrækt sem hefði
afar neikvæð áhrif.
Ráðherra hefur talað skýrt í málinu og tekur
þar með undir málflutning síðustu ríkisstjórnar.
ESA hefur metið viðskiptalegu rökin þyngra en
rök stjórnvalda og bænda hafa alltaf verið að
málið sé fyrst og fremst heilbrigðismál. Gæði og
öryggi matvæla á Íslandi eru í mjög góðu standi
og það þarf að tryggja áfram. Tíðni matarsýkinga
er jafnframt ein sú lægsta sem fyrirfinnst.
Hér er því um verulega hagsmuni að ræða. Þar
má ekki bara líta til einfaldra viðskiptahagsmuna.
Matvælaframleiðsla skiptir allar þjóðir máli –
líka okkur Íslendinga. /SSS
Aðalfundur Eigenda- og rækt-
enda félags landnámshænsna 2014
verður haldinn hinn 25. október kl.
14 í kaffistofu Bændasamtakanna
3. hæð í Bændahöllinni við
Hagatorg. Auk venjulegra aðal-
fundarstarfa verður m.a. fjallað
um vottun og skráningu ræktenda.
Á aðalfundi ERL fyrir árið 2012 og
haldinn var í mars 2013 var lögð fram
niðurstaða nefndar sem skipuð var
til að vinna að lýsingu á einkennum
íslensku landnámshænunnar. Þessi
útlitslýsing var samin út frá myndum
og lýsingum af gamla stofninum sem
dr. Stefán Aðalsteinsson safnaði
saman fyrir um 40 árum síðan.
Nefndin var skipuð Júlíusi Má
Baldurssyni, þáverandi formanni
ERL, Jóhönnu G. Harðardóttur,
fyrrverandi formanni, og dr.
Ólafi R. Dýrmundssyni, einum af
stofnfélögum ERL.
Niðurstaða nefndarinnar var
lýsing á einkennum íslensku
landnámshænunnar í 15 liðum
ásamt fjögurra liða skilgreiningu á
atferliseinkennum. Auðveldar þetta
ræktendum til muna alla þeirra vinnu
sem nú getur miðast við samþykktar
skilgreiningar.
Vottun og skráning ræktenda
Strax eftir að útlitseinkennin höfðu
verið samþykkt var farið að ræða
um hvernig hægt væri að tryggja
að ræktendur færu eftir reglunum
og var það síðan á aðalfundi 2013
að lögð var fram tillaga um að ERL
kæmi upp skrá yfir ræktendur með
landnámshænsn af hreinum stofni,
ræktuð samkvæmt viðurkenndum
útlitseinkennum. Fundur þessi var
óvenju fjölmennur og var tillagan
samþykkt óbreytt með öllum
greiddum atkvæðum og hefur
núverandi stjórn unnið ötullega að
því að koma þessu í framkvæmd.
Ein skoðunarferð hefur verið
farin um Suðurlandið og tvær um
Suðvestur- og Vesturland. Skoðað
verður á Norðurlandi á næstu dögum
og unnið er að því að skoðað verði
á Vestfjörðum og Austurlandi
fljótlega. Þess ber að geta að öll þessi
vinna er unnin í sjálfboðavinnu af
trúnaðarmönnum og aðilum í stjórn
ERL.
Borið hefur á því að verið sé að
selja fugla sem ekki falla
að viðurkenndri lýsingu
l a n d n á m s h æ n s n a ,
annaðhvort með fiðraða
leggi eða vangaskegg.
Bæði eru þetta
ríkjandi eiginleikar
sem sennilega hafa
blandast inn í stofninn
á seinni árum. Þessir
eiginleikar voru ekki í
upprunalega stofninum,
það sýna bæði myndir
og umsagnir fólks
sem umgekkst þá
fugla. Stjórn félagsins
telur að blöndunin í
stofninum sé orðin
alltof útbreidd og því
þurfi allir ræktendur að
vera vakandi yfir þeim
ungum sem fæðast. Mikilvægt sé að
skoða þá vel og láta þá fara sem eru
með fiður á leggjum eða vangaskegg.
Litur á eyrum hvítur eða ljósgulur
kemur svolítið seinna, síðan er hægt
að velja þá fugla sem best standast
viðmið útlitslýsingarinnar sem menn
vilja rækta undan, út frá því sem
stendur eftir. Aðeins þannig telja
menn sig geta unnið saman að því
að hreinsa þessa óæskilegu erlendu
blöndun út. Slíkt getur þó tekið
nokkur ár, því að þetta
getur leynst og komið
fram eftir 1, 2 eða 3 ár,
þótt ræktandi haldi að
allt sé í lagi hjá sér. Því
getur þetta komið upp alls
staðar.
ERL vill koma á
framfæri þakklæti til
þeirra sem sótt hafa
um vottun og vilja taka
þátt í þessu vandasama
starfi. Verndun gamalla
búfjárstofna skiptir miklu
máli að mati stjórnar
félagsins. Stefnt er að
umfjöllun um aðalfundinn
og málefni ræktenda
landnámshænsna í næsta
Bændablaði sem kemur út
6. nóvember.
Aðalfundur Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna 2014:
Ræktunarstarfið er nú unnið samkvæmt skilgreiningu á útliti og atferli