Bændablaðið - 23.10.2014, Síða 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. október 2014
Fréttir
Eins og fram kemur hér á
síðunni í viðtalinu við Óla Þór er
sláturhúsið í Seglbúðum á vissan
hátt þungamiðjan í verkefni
Matís, Sjálfbær sauðfjárrækt í
Skaftárhreppi.
Mikilvægur hluti þess verkefnis
er einnig bygging kjötvinnslu á
Borgarfelli í Skaftártungu, en
þar er rekið myndarlegt fjárbú þar
sem um þúsund fjár eru á fóðrum
í vetur.
Með opnun kjötvinnslunnar á
Borgarfelli síðastliðið sumar er
orðið til samstarf sauðfjárbænda
í héraði um framleiðslu, sölu
og dreifingu staðbundinna
sauðfjárafurða.
Að sögn Sigfúsar Sigur-
jóns sonar, fjárbónda á Borgar-
felli, hefur meðgöngutími
þessa verkefnis verið nokkuð
langur. „Árið 2003 gerðum við
samning við Búnaðarsamband
Suðurlands um markmiðatengdar
búrekstraráætlanir, sem kallað
var Sómaverkefnið. Það var
upphafið.“
Matís kom inn í verkefnið á
seinni stigum
„Nú á seinni stigum málsins
hefur Matís komið inn í verkefnið
með okkur varðandi umsókn
vinnsluleyfis og munu þeir
leiðbeina okkur hvað snertir
vöruþróun í framtíðinni. Árið
2005 byggðum við fjárhús fyrir
800 fjár. Árið 2011 byggðum
við 100 fermetra nýbyggingu
með vinnsluaðstöðu, kæla- og
frystigeymslu. Þá var byggt 30
fermetra reykhús árið 2012.
Við förum með hluta af
lömbunum í sláturhúsið í
Seglbúðum, 45 lömb á viku.
Nýtt sláturhús í hreppnum hefur
gríðarlega mikla þýðingu fyrir
kjötvinnsluna okkar, varðandi
vegalengdir og lengingu slátur-
tíma. Við viljum gjarnan fylgja
eftir okkar framleiðslu til
neytenda þannig að við vinnum í
takt við eftirspurn viðskiptavina.
Kjötvinnslan er byggð úr
tveimur 40 feta gámum, sem
standa með þriggja metra millibili
og er þak yfir öllu. Vinnslusalurinn
er í rýminu á milli gáma, frystir í
öðrum gámnum og kælir í hinum
– auk móttöku.“
Verðgildi hvers grips
verður mun meira
„Ávinningurinn af því að geta selt
sína afurð beint úr eigin vinnslu er
augljóslega sá að verðgildi hvers
grips verður mun meira og einnig
skapar þetta fleiri störf heima á
bænum. Þær afurðir sem eru í
boði eru: Lambakjöt ferskt og
reykt, sagað og snyrt eftir óskum
kaupandans, reykt og grafið ærkjöt,
kindahakk og grjúpán (bjúgu).
Okkar viðskiptavinir eru
einstaklingar um land allt og
ferðaþjónustuaðilar á svæðinu,“
segir Sigfús. /smh
Aðhaldskröfur á LbhÍ munu hafa áhrif á starfsemi ráðgjafarþjónustunnar:
Höfum verulegar áhyggjur af niðurskurðinum
– segir Karvel Karvelsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins
Karvel Karvelsson, fram-
kvæmdastjóri Ráðgjafar-
miðstöðvar landbúnaðarins
(RML), segir ríka ástæðu til
að hafa verulegar áhyggjur
af niðurskurðinum hjá Land-
búnaðarháskóla Íslands (LbhÍ).
„Hættan er sú að niðurskurðurinn
hjá LbhÍ veiki starfsemi skólans.
Sérstaklega er skorið niður til
rannsókna sem er ákveðinn
grundvöllur fyrir okkar ráðgjöf,“
segir Karvel.
„Varðandi efnagreiningar þá
höfum við sent út heysýni til
greininga og erum í samstarfi við
fyrirtæki sem heitir BLGG um
greiningar,“ segir Karvel. „Þetta
höfum við boðið upp á samhliða því
að senda til skólans. Jarðvegssýni
höfum við sent til skólans en
verðum þá hugsanlega að finna því
annan farveg.
Það hefur verið ákveðinn
misbrestur á þjónustu skólans við
greiningar og þá sérstaklega að halda
tímasetningar. Við vorum nú samt
alltaf að vona að þetta lagaðist en
það varð ekki. Það er hins vegar
ákveðinn missir af þessari þjónustu
verði það niðurstaðan að ekki verði
haldið áfram með efnagreiningar
hér á landi. Bæði tapast með því
þekking, ákveðinn sveigjanleiki í
þjónustu og grundvöllur til þess að
þróa greiningarnar áfram miðað við
íslenskar aðstæður,“ segir Karvel.
Óvíst með framhald orkumála
„Kynbótamatsútreikningarnir hafa
verið framkvæmdir af skólanum.
Það verkefni er hins vegar á ábyrgð
Bændasamtakanna en okkur falið
að halda utan um það og RML
hefur greitt skólanum fyrir þessa
vinnu. Skólinn mun sjá um þessa
útreikninga til áramóta en við
erum að skoða með hvaða hætti
við leysum þá til framtíðar.
Varðandi orkumálin þá vorum við
að vonast eftir samvinnu í þeim efnum
en óvíst er með áframhaldið á því.
Við höfum einnig áhyggjur af
menntuninni sem slíkri, allt okkar
starfsfólk er meira og minna menntað
í LbhÍ og því segir það sig sjálft
að okkar faglega starf byggist
að stóru leyti á þeirri menntun
sem skólinn veitir. Okkur er því
umhugað um að bæði menntun
og rannsóknir innan skólans
séu með þeim hætti að við fáum
frambærilegt framtíðarstarfsfólk
sem og landbúnaðurinn allur.
Við höfum átt ágætt samstarf
við skólann sem var innsiglað í
samstarfssamkomulagi á milli
okkar. Í því felst ákveðin fagleg
samvinna sem ég vonast nú til að
haldi áfram en vissulega höfum við
af því áhyggjur að skólinn nái að
sinna kjarnastarfsemi sinni og að þar
sé nægt faglegt bakland til verka.“
/smh
Bændur í Seglbúðum í Landbroti í frumkvöðlastarfi:
Langur aðdragandi að opnun
fyrsta handverkssláturhússins
– segir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís, sem hefur unnið með bændunum að verkefninu
Mánudaginn 6. október hófst
slátrun í handverkssláturhúsinu
að Seglbúðum. Þann fyrsta dag
var slátrað 45 lömbum og þrátt
fyrir að dagurinn væri nýttur
til þjálfunar og aðlögunar, m.a.
kjötmatsnámskeiðs, tók sú slátrun
innan við fimm tíma.
Aðdragandinn er búinn að vera
nokkuð langur, en um fjögur ár
eru liðin síðan fyrst var farið að
vinna í hugmyndunum um að reisa
sláturhús á bænum. Verkefnið
er á vissan hátt þungamiðjan í
klasaverkefni Matís, Sjálfbær
sauðfjárrækt í Skaftárhreppi.
Að sögn Óla Þórs Hilmarssonar
hjá Matís, sem unnið hefur náið
með bændum í Seglbúðum að
þessu verkefni, hefur aðdragandinn
verið langur og strangur. „Þetta
hefur ekki aðeins verið erfitt fyrir
eigendur að koma upp byggingum
og búnaði, heldur hefur aðlögun
sláturhúss í þessum stærðarflokki
– að regluverki því sem þarf að
uppfylla – verið snúin. Sömu lög og
reglur gilda um öll sláturhús hér á
landi óháð stærð og í því sambandi
má nefna að handverkssláturhúsið
hefur fullgilt útflutningsleyfi. Það
er umhugsunarefni hvort ekki þurfi
að vera til reglugerð sem taki tillit til
lítilla handverkshúsa. Krafa neytenda
um heilnæm og örugg matvæli er
ótvíræð en leiðir að því markmiði
geta verið mismunandi. Þær
kröfur sem opinbert eftirlit gerir
um skráningar og vöktun miðast
við fjölmenna vinnustaði þar sem
boðleiðir eru lengri,“ segir Óli Þór.
Í handverkssláturhúsi er hægt að
nostra við skrokkana
Handverkssláturhús er að sögn
Óla Þórs, eins og nafnið gefur til
kynna, sláturhús þar sem lítið er
um sjálfvirkni. „Afköstin eru þar af
leiðandi mun minni, en á móti kemur
að hægt er að nostra meira við hvern
skrokk, snyrta og snurfusa. Í þessu
sláturhúsi verður líka hugsað um aðra
þætti eins og t.d. meyrnun kjöts, en
hver skrokkur fær að hanga í fjóra
sólarhringa áður en að frystingu
kemur. Kælar eru tveir og í þeim fyrri
verður tryggt að á fyrsta sólarhring
sé kæling hæfilega hröð svo að
bragðmyndun verði sem best. Þannig
er lagður grunnur að meyrni kjötsins
sem nær hámarki á fjórða sólarhring.
Í afkastamiklum sauðfjár-
sláturhúsum, eins og við þekkjum
til hér á landi í dag, er að sjálfsögðu
framleitt fyrsta flokks kjöt, þar sem
reynt er að tryggja meyrni og örugg
gæði svo sem gott geymsluþol og
heilnæma vöru með öllum tiltækum
ráðum. En magnið er mikið og
hraðinn mikill þannig að eftirfylgni
hvers skrokks er kannski ekki fyrir
hendi. Afkastamestu húsin slátra
rúmlega 3.000 lömbum á dag. Í
handverkssláturhúsinu á Seglbúðum
er stefnt að 50 til 70 lamba dagslátrun.
Um leið og leyfi til slátrunar
var fengið var einnig fengið leyfi
til frekari matvælavinnslu því
ætlunin er að fullvinna afurðirnar
og dreifa frá býli. Samstarfsaðilar
í verkefninu auk Matís og þeirra
Erlendar Björnssonar og Þórunnar
Júlíusdóttur, ábúenda á Seglbúðum,
eru Sigfús Sigurjónsson og Lilja
Guðgeirsdóttir með kjötvinnsluna
að Borgarfelli í Skaftártungu sem
opnuð var nú í sumar. En Sigfús og
Lilja stefna að því að slátra hluta af
sínu fé í Seglbúðum og fullvinna í
eigin kjötvinnslu. Það má segja að í
Skaftárhreppi sé komin skemmtileg
nýjung í framleiðslu, sölu og
dreifingu staðbundinna matvæla,“
segir Óli Þór. /smh
Karvel L. Karvelsson, framkvæmda-
stjóri Ráðgjafarmiðstöðvar land-
búnaðarins.
REYKJAVÍK
Krókháls 5F
110 Reykjavík
Sími: 414-0000
AKUREYRI
Baldursnes 2
603 Akureyri
Sími: 464-8600
www.VBL.is
REYKJAVÍK Sími: 414-0000 /// AKUREYRI Sími: 464-8600 /// www.VBL.is
Nýkomnar PICHON haughrærur
af ýmsum stærðum og gerðum
Frönsk gæði
Kjötvinnslan á Borgarfelli
Úr vinnslusal sláturhússins í Seglbúðum.
Sigfús Sigurjónsson, fjárbóndi á Borgarfelli í Skaftártungu. Mynd / smh
Skrokkar snyrtir á Borgarfelli.