Skírnir - 01.01.1985, Page 13
SKÍRNIR
EINAR ÓLAFUR SVEINSSON
9
Þótt bindi Einars Ólafs um fornsögurnar væru aldrei mótuð til
útgáfu af hans hálfu, þá er sú bót í máli að hann hafði ritað geysi-
mikið um það efni á ýmsum stöðum og er sumt af því þegar talið.
Um fornaldarsögur Norðurlanda ritaði hann besta yfirlit sem til
er, en því miður í þröngum stakki (í Kulturhistorisk leksikon for
nordisk middelalder). Ritgerð hans um íslenskar riddarasögur, í
inngangi Viktors sögu og Blávus, er brautryðjandaverk þar sem
sögum þessum er í fyrsta sinn skipað í samhengi. íslendingasögur
voru ávallt kærasta hugðarefni hans, þótt áhuginn væri altækur.
Ýmsan afrakstur áralangra rannsókna dró hann saman í bókinni
Ritunartími íslendingasagna (1965, áður komin á ensku í styttri
gerð: Dating the Icelandic Sagas, 1958). Einnig birti hann á
frönsku litla bók um íslendingasögurnar: Les sagas islandaises
(1961). Þar er að finna í stuttu máli furðulega góða lýsingu á eðli
og einkennum sagnanna, og mættu þeir sem um sögurnar fjalla á
síðustu tímum gjarna líta í þetta rit.
Um bókmenntir síðari alda, innlendar og erlendar, hefur hann
ritað á víð og dreif. Ekki voru honum síst hugleikin verk Jónasar
Hallgrímssonar, það sýna mörg erindi og ritgerðir frá ýmsum
tímum, og er það virðingar vert, því að líkt er sem bókmennta-
rýnendur okkar hiki við að taka til máls um þetta ástsælasta skáld
þjóðarinnar.
Einar Ólafur var ritstjóri Skírnis 1944-53 og birti þar ritsmíðar
um margvísleg efni, einkum á ritstjórnartíð sinni en einnig bæði
fyrr og síðar. Mun hann, ásamt með Guðmundi Finnbogasyni
landsbókaverði, eiga mest efni í þessu elsta tímariti Norðurlanda.
Hann skrifaði fjölda ritdóma og fjallaði um ýmis menningar-
efni forn og ný. Hann minntist samferðamanna jafnt sem liðinna
meistara. Úrval ritgerða hans birtist í tveimur sjálfstæðum
bókum: Við uppspretturnar (1956) og Ferð og förunautar (1963).
Hann bjó til prentunar ýmis rit sem hér er ekki kostur að telja í al-
þýðlegum útgáfum, og fylgdi þeim úr hlaði með hugvekjandi inn-
gangsorðum. Sérstaklega vil ég nefna tvö slík sem honum voru
kær, enda vinsæl með alþjóð manna: Fagrar heyrði eg raddirnar
(1942) og Leit eg suður til landa (1944). Fyrri bókin er safn þjóð-
kvæða og vísna, en hin síðari úrval úr ýmsum lausamálsritum
fornum sem áður voru lítt kunn almenningi.