Skírnir - 01.01.1985, Page 50
46
GUNNAR HARÐARSON
SKÍRNIR
I
Þegar heimspekiiðkun íslendinga fyrr á öldum skal tekin til
skoðunar, er ekki úr vegi að gera sér strax nokkra grein fyrir hvers
konar heimildum um hana er til að dreifa. Segja má að þær séu
einkum af þrennu tagi. Þar skulu fyrst nefnd varðveitt rit um
heimspeki, hvort heldur prentuð eða uppskrifuð, erlend eða
innlend, en síðan skrár um bókaeign einstaklinga eða stofnana,
og að lokum óbeinar heimildir, sem svo mætti kalla, - ummæli,
sendibréf, kvæði, ritgerðir og fleira þar sem fram kemur að við-
komandi þekkir til heimspekinga eða heimspeki. Sem dæmi um
hið síðastnefnda má nefna grein Jónasar Hallgrímssonar í Fjölni
um eðli og uppruna jarðarinnar, en þar rekur hann helstu atriðin
úr Tímaiosi Platóns.1 Dæmi af þessu tagi benda til þess að heim-
spekin hafi verið snarari þáttur í veganesti íslenskra mennta-
manna á fyrri tíð en við gerum okkur almennt í hugarlund. Skrár
um bókaeign eru raunar í ætt við þennan heimildaflokk, en þó
með þeim fyrirvara að bókaeign er engin trygging fyrir bókalestri.
Bókaskrár veita einkum hugmynd um hvað menn áttu kost á að
lesa og kynna sér og hvað líklega var lesið, en auk þess bera þær
vitni áhuga manna og hugðarefnum á sviði heimspekinnar. Það
verður að hafa hugfast að bækur voru ekki nándar nærri eins auð-
fengnar áður fyrr og þær eru nú og vafasamt er að þær hafi flogið
af sj álfsdáðum hingað norður til íslands, j afnvel á galdraöld. Sem
dæmi um vitnisburð bókaskráa má nefna að rita eftir Boethius og
Tómas frá Akvínó er getið í skrá um bækur Hólastóls í elsta hluta
Sigurðarregisturs frá 1525.2 Af líku tagi verður að telja erlendar
bækur sem varðveist hafa í eigu íslendinga, prentaðar eða
skrifaðar upp. En sú tegund heimilda sem mestu skiptir og er
raunar mest traustvekjandi, er að sjálfsögðu varðveitt innlend
heimspekirit. Til þeirramá telja íslenskar eða norrænar þýðingar
á erlendum ritum og frumsamin innlend rit, hvort heldur á ís-
lensku eða á erlendum málum, latínu eða dönsku. Dæmi um slík
rit eru þýðing Magnúsar prúða á rökfræði Fuchsbergers frá 1588,
skýringar Brynjólfs biskups Sveinssonar á latínu við rökfræði
Ramusar frá 1640 og Spegill þolinmœðinnar eftir Pál í Selárdal frá
1687. Öll þessi rit eru varðveitt í handritum í Landsbókasafni eða
í Árnasafni í Kaupmannahöfn.