Skírnir - 01.01.1985, Page 66
62
GUNNAR HARÐARSON
SKlRNIR
heimspeki sína að mestu til Descartesar og Leibniz, og setti kenn-
ingar þeirra í kerfi, en þykir ekki frumlegur heimspekingur nú á
dögum. Hann ritaði jafnt á þýsku sem á latínu og mun vera sá
maður sem kom heimspekihugtökum á þýsku í fastar skorður.
Bæði Hálfdan og Hannes tóku að kenna rökfræði, verufræði og
siðfræði við skólana á Hólum og í Skálholti og notuðu til þess
kennslubækur sem voru byggðar á heimspeki Wolffs. Til er all-
margt handrita frá kennslu þeirra, sem fór fram á latínu, en auk
þess eitt handrit sem hefur að geyma þýðingu á einu þeirra rita
sem notað hefur verið í kennslunni. Það ber yfirskriftina Inn-
gangurinn til náttúruvísindanna og er efnisyfirlitið á þessa leið:
1) Fáeinar greinir hinnar lstu Heimspeki (ontologia) sem er reyndar saman-
tekning blandaðra hugmyndanna. 2) Útaf heimsbyggingarfræðinu (cosmo-
logia). 3) Útaf þeirri náttúrlegu Guðvísi. 4) Nokkrar greinir áhrærandi sálar-
fræðið (psychologiam). 5) Útmálan nokkra greina útaf siðferðisfræðinu. 6) Fá-
einar vísindagreinir áhrærandi Borgaraskapinn.29
Það er raunar í grennd við skólana sem heimspekileg fræði þríf-
ast best á ofanverðri 18. og öndverðri 19. öld. Frá biskupstíð
Steingríms Jónssonar eru til handrit svipaðs innihalds og kennslu-
bækur þeirra Hálfdanar og Hannesar, en það er hins vegar í
Bessastaðaskóla sem mest rækt er lögð við þessi fræði á fyrri hluta
19. aldar. Bókasafn skólans hafði að geyma fjöldann allan af
bókum um heimspeki, þar á meðal rit eftir Wolff og Leibniz.
Mestu skiptir þó að í Bessastaðaskóla voru hinir fornu höfundar
lesnir að nýju og Sveinbjörn Egilsson er sennilega fyrsti íslend-
ingurinn sem lætur lesa rit Platóns á frummálinu. Sveinbjörn lét
lesa Platón annað hvert ár, frá vetrinum 1828-1829 að telja, og las
auk þess fyrir þýðingar á þeim. Þetta voru Málsvörn Sókratesar,
Krítón, Faídón, Evþýfrón og Menón, auk Alkibíadesar annars
sem er nú talinn ranglega eignaður Platóni. Ennfremur er vert að
minna á að í skólaræðum sínum víkur Sveinbjörn einatt að
menntunarhugsjón sinni um samtvinnun dygðar og þekkingar
sem ætla má að hafi verið heimspekilegur grundvöllur kennslu
hans í Bessastaðaskóla.30 Svipaðri stefnu og Sveinbjörn héldu
eftirmenn hans, einkum Steingrímur Thorsteinsson, og þýddi
hann meðal annars Samdrykkjuna eftir Platón. í Prestaskólan-
um, sem stofnaður var 1847, lásu þeir Jón Jónsson lektor og