Skírnir - 01.01.1985, Page 72
68
GUNNAR HARÐARSON
SKÍRNIR
ekki betur séð en að íslendingar eigi sér ekki bókmenntahefð í
þessum skilningi: engin viðtekin hefð hefur ríkt í íslenskum bók-
menntum fram á okkar daga, þær eru jafn sundurleitar og jafn
mótaðar af fjölbreytilegustu menningarstraumum og bókmenntir
annarra þjóða.
En hvað sem þessu líður, er það samt svo, að sú fullyrðing að
íslendingar eigi sér ekki bókmenntahefð lætur meir en lítið and-
kannalega í eyrum. En ástæðan fyrir því er ekki sú að hér hafi ríkt
arfgeng venja frá fornu fari, heldur hin að þegar sagt er að íslend-
ingar eigi sér bókmenntahefð hygg ég að í daglegu tali sé fyrst og
fremst átt við vitund okkar um að í landinu hafi verið skrifaðar
bókmenntir á ýmsum tímum íslandssögunnar. Það virðist því
ekki sama merking lögð í hugtakið hefð þegar talað er um bók-
menntir og þegar talað er um heimspeki. Og einmitt af þessum
sökum tel ég að allt tal um hefðir sé hér villandi: við eigum arf,
menningararf, og innan hans er að finna bókmenntir, myndlist,
tónlist, byggingarlist, heimspeki, svo nokkuð sé nefnt. Þessi arfur
er langt frá því að vera ein samfella, venjur koma og venjur fara,
ákveðinna sjónarmiða gætir í ákveðinn tíma og þau víkja síðan
fyrir nýjum sjónarmiðum. Eetta gildir jafnt um bókmenntir sem
tónlist, um myndlist sem heimspeki. í þessum skilningi er heim-
spekin hluti af menningararfi okkar. Og ef eitthvað eitt einkennir
þann menningararf fremur en annað, hygg ég að það birtist í við-
leitni forfeðra okkar til að ástunda menntir og menningu hvað
sem legu landsins og menningarlegu sambandi við aðrar þjóðir
leið. Þessa viðleitni má sjá í óþrjótandi seiglu Jóns Þorlákssonar
við að þýða Milton, hún birtist í furðulegri þrautseigju við að
skrifa upp handrit með sögum og kvæðum eða með Definitiones
ontologicæ þegar bækur vantaði, og hún birtist líka í þeirri dæma-
lausu fjarstæðu að fara að kenna rökfræði og verufræði við dóm-
skóla landsins í stað þess að beita sér fyrir því að flytja fólkið úr
landinu til hlýrri staða. Aðstaða þeirra sem þessi fræði stunduðu
var ekki svo ýkja frábrugðin aðstæðum okkar sjálfra nú á dögum,
ef grannt er skoðað. Þeir voru hluti af litlu málsamfélagi eins og
við, en létu það ekki aftra sér frá að leggja stund á alþjóðlega
grein eins og heimspeki og rita um hana, bæði á móðurmálinu og
á lærðum málum. Fordæmi þeirra hlýtur að verða okkur hvatning