Skírnir - 01.01.1985, Síða 113
SKÍRNIR
SVERÐIÐ OG HIN MYRKU ÖFL
109
arans. Upphafin, tær fegurð morgunhiminsins speglast í
óhreinum rigningarpollum. „Kannski var þetta sá morgunn, sem
kvæðið segir að gullnar töflur geymi í grasi.“
Völuspá er goðsögn um endurfæðingu: Heimur í siðferðilegri
og félagslegri upplausn, hrjáður af grimmd og ofbeldi, hlýtur að
farast í ragnarökum. Fenrisúlfur, ófreskjan mikla, mun gleypa
sólina og sjálfan Óðin, en Viðar sonur Óðins drepur úlfinn og lifir
ragnarök af. Snarkandi eldhafið, sem eldjötunninn Surtur hefur
tendrað, mun eyða jörðinni, en um leið verður „Kaþarsis",
hreinsun sem fæðir af sér nýja jörð. Hinn eyðandi eldur, sem
einnig er gæddur hreinsunarmætti, hefur mikilvægan snertipunkt
við þriðja fæðingarskeiðið í líkani Grofs. Hann tengist niðurlægj-
andi aðstæðum, óhreinindum, siðferðilegri rotnun, eins og
Hilmar fær að reyna í sambandi við sjálfsmorð stjúpans, í
drykkjuveislu Markúsar og í kaffistofunni hjá Kornelíusi. Hvert
atvikið rekur annað: togarakáetan, ritstjóraskrifstofan, borð-
salur hótelsins, hjónasæng frú Lilju; og örvænting Hilmars magn-
ast því fastar sem hann flækist í netinu, og heimsslitasýnum tekur
að skjóta upp í vitund hans. Á þjóðveginum til Keflavíkur stígur
hann bensínið í botn til að losna við klígjuna sem heltók hann
þegar hann vaknaði í svefnherbergi Markúsar og frú Lilju. Og
aumingja hjólreiðarmaðurinn, sem hann var næstum búinn að
aka á, hneigir sig í duftið, eins og fyrir syni sólarinnar. Er hann
ekki líka guð, þegar hann kyndir undir hneykslunarhita áhorf-
enda, sem flykkst hafa að eftir ákeyrsluna á hestinn.
Meðan Hilmar er að þvarga við kommúnistann Snorra, sem
hann reynir án árangurs að fá til liðs við sig í baráttunni gegn Mar-
kúsi, sér hann allt í einu stjörnuhrap. Hann er í engum vafa um að
þetta er „tákn af himni“, vísbendingin um að nú eigi að hefjast
handa. Ákvörðunin um sprenginguna er líka annað og meira en
kaldur ásetningur. Sólarupprásin og eldrautt loftið eru „tákn frá
himnum“. Olíugeymar Markúsar og birgðaskemmur bandaríska
hersins skulu tætast í loft upp í brakandi surtarloga. Honum skilst
nú að hann er á vegum máttugra dularafla. Eftir nýja orðasennu
við móður sína kemst hann að þessari niðurstöðu: „Sprengingin
skal sameina okkur á ný.“
Þegar dagur „endurlausnarinnar“ rennur upp verður hann