Skírnir - 01.01.1985, Page 156
152
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNIR
um, en hafa þó á því heimildir af hálfu réttra eigenda að því er
þeir telja. Handan við átökin á þingunum sjáum við landeigend-
urna: Pál Hallsson prest, Einar Þorvaldsson ómyndugan erfingja
Þorvalds Vatnsfirðings og Snorra prest Narfason.
Hér komum við að meginskilum í stöðu málsaðilja. Þeir
Órækja og Sturla hafa heimildir á goðorðum, en heimildir hinna
varða eignarheimildir á landi. Að vísu hefur Einar Þorvaldsson
einnig verið erfingi Vatnsfirðingagoðorðs, sem Órækja hefur
fengið heimildir á og að því er virðist reynt að tryggja þá goðorðs-
heimild með því að taka af lífi Illuga Þorvaldsson, laungetinn
hálfbróður Einars, til undirbúnings málaferlunum, eins og Sturla
Þórðarson virðist láta liggja að í íslendinga sögu sinni.29
Það þarf ekki að fara í grafgötur um að vald landeigenda á 13.
öld á íslandi var mikið, engu síður en á síðari öldum. En til þess
að það væri tryggt þurftu landeigendur að eiga náið og gott sam-
starf við þá sem dómum og þingum stýrðu, þ. e. þá sem fóru með
goðorð. Þegar rýnt er í Grágásarlög, þau lög sem Sturla Þórðar-
son og samtíðarmenn hans bjuggu við á þeim tíma sem hér um
ræðir, má greina ákveðnar veraldlegar lagastofnanir, sem fela í
sér vald í íslenska samfélaginu.
Ég skal nú reyna að sundurgreina þessar stofnanir, sem þó hafa
alls ekki verið eins aðgreindar fyrir 13. aldar mönnum og okkur
nútíðarmönnum. Styðst ég að nokkru við rannsóknir erlendra
sagnfræðinga við þessa sundurgreiningu, en eins og kunnugt er
hefur frönsk og þýsk miðaldasaga það sér til ágætis þegar um er að
ræða samanburð við íslenska miðaldasögu, að konungsvald var
um langa hríð óburðugt í þeim löndum á miðöldum. Þar sést því
vel til margs konar valdsmennsku, sem ekki er öllu leyti steypt í
eitt mót undir ægishjálmi konunga, valdsmennsku, sem hafa má
til samanburðar við líkt og ólíkt í íslenskri miðaldasögu.
Hið íslenska goðorð virðist einkum fela í sér réttindi og skyldur
milli manna, milli persóna, enda er gjarna notað um það orðið
mannaforráð í heimildunum. í goðorði eru fólgin mannaforráð.
Goðorð virðist að miklu leyti samsvara því sem nefnt hefur verið
á Frakklandi seigneurie banale.30 Algjör yfirráð yfir réttarfari og
dómum fengu goðum í hendur að því er virðist vald til nær ótak-
markaðra kvaða og álaga. Þetta vald sjáum við í frásögnum Sturl-