Skírnir - 01.01.1985, Page 238
204
GUNNAR B. KVARAN
SKÍRNIR
Málverkið Stalingrad, 200x130 sm, 1962-1963, er ein þessara
einrýmis myndbygginga þar sem aðeins tveimur myndum,
gerðum á ólíkum tímabilum, er raðað á léreftið. Hér mætast því
tvennir tímar, tvö landssvæði og tvær myndgerðir. Ekki getum
við talað hér um algera myndræna einingu því myndunum virðist
aðeins stillt upp hlið við hlið og það eru eingöngu eldglæringar
skriðdrekabyssunnar sem tengja saman þessar tvær senur, ásamt
víðáttumiklu hvítu svæði sem gerir umhverfið óskilgreint og
getur því tilheyrt hvorum myndhlutanum sem er. í heild sinni er
myndin annars skipulögð samkvæmt hefðbundnum jafnvægis- og
hlutfallareglum: ofantekning Krists af krossinum í forgrunni
þekur þriðjung myndflatarins og skriðdrekaárásin nær yfir tvo
þriðju hluta (sem venjulega eru víðáttumikill sjóndeildarhring-
ur). Athyglisvert er að listamaðurinn notar ekki sams konar
myndbyggingu í báðum myndhlutunum, því sá neðri byggist á
lóðréttum og láréttum kröftum en sá efri styðst við hornalínu-
hreyfingu. Tvær tegundir myndbyggingar fara því saman í einu
rými án þess þó að blandast.
Aftur á móti í myndinni L’officiant, 130x98 sm, úr syrpunni
Baroquisme, 1965-1968, er samloðun fjölda ólíkra hluta eða
formeinda í einu afmörkuðu rými mun sterkari. Listamaðurinn
setur hér mynd af svíni fyrir aftan altari í barokkkirkju, sem
virkar algerlega sem hluti af skilgreindu rými. En þrátt fyrir allt
hefur Erró ekki sett dýrið inn í hefðbundna fjarvídd því að hann
málar það án þess að virða á nokkurn hátt eðlileg stærðarhlutföll.
En með því að neita alfarið að beygj a sig undir venj ubundna sj ón-
skynjun og gefa hinum myndeindunum tiltölulega mikið sjálf-
stæði, þá sviptir listamaðurinn hulunni af uppruna heimilda sinna
og beinir athygli áhorfandans að bellibrögðum ljósmyndarinnar.
Sömu athugasemdir mætti einnig gera við myndir eins og Inter-
view eða Monsieur Einstein úr syrpunni Baroquisme, en naumast
um málverk eins og Church dog, Doucement eða Les jumeaux úr
sömu syrpu, sem samsvara mun betur venjubundinni sýn, þó að
atburðirnir sem þau sýna séu harla fjarstæðukenndir. (Við vitum
mæta vel að hlutur í forgrunni er stærri en sami hlutur í mið- og
bakgrunni.)
Made in Kyoto, 260x200 sm, 1974, er einnig laus undan hefð-