Skírnir - 01.01.1985, Page 296
228
ÞORSTEINN ANTONSSON
SKÍRNIR
aðra enn meira. Sagan er vel skrifuð. Stíllinn er sérstæður, hreint
og beint annarlegur, ákaflega skýr og sjálfum sér samkvæmur í
hvívetna sem vitnisburður um einkennilegan, afar heildstæðan
hugsunarhátt höfundar. Þetta eru kuldaleg skrif mikils einstak-
lingshyggjumanns (hann lýsir því yfir í öðru riti að hann sé það);
innhverfs manns sem vel á við að beiti einmitt sálarfræði við eigin
túlkun á mannlífinu. Reglufastur en þó tilfinningasamur. í sög-
unni er lítið um staðháttarlýsingar og yfirleitt lítið sagt af því sem
skilningarvitin áhrærir beinlínis; en markmiðið, bersögli um
mannlegt samneyti, gerir að hún er samt ekki deyfðarleg að efni;
það sem skortir af tilfinningum er bætt upp með ástríðu. Þetta eru
ástríðufull skrif. Þrátt fyrir það hefur höfundur verið svo trúr sál-
greiningarmetnaði sínum að takmarkanir slíkra vinnubragða
með tilliti til markmiðs koma berlega í ljós. Jóhannesi Birkiland
hefði komið vel að kunna nokkur skil á tilvistarheimspeki þegar
hann reit; kenningum um ábyrgð og frelsi. En honum tekst aldrei
að skilja milli vilja síns og sjálfsástar, aldrei að yfirstíga hið per-
sónulega. Ekki frekar en sálgreinendum yfirleitt sem trúa á algildi
aðferðar sinnar.
Jóhannes ritaði í ævisögunni:
Að vísu er ekki hægt að ætlast til þess að algerlega ómenntaðir foreldrar
kunni að beita vísindalegum aðferðum við uppeldi barna sinna, ennfremur
hefir skort aðstæður til þeirra hluta. En á stórjörðum í sveit eru ávallt skilyrði
til vinnu. Iðjuleysi- lastanna móðir-er eitt nægilegt til að sýkja sál hrifnæms
barns ogspilla hugarfarinu. Agaleysi er annað stóratriði. í uppvextinum skorti
mig vinnu mjög og tækifæri til þess að fást nægilega við þau verkefni, er fyrir
hendi voru, og allt var látið eftir mér, sem unnt var.
Og í beinu framhaldi af þessum tilvitnuðu orðum:
Ekki er unnt „að taka viljann fyrir verkið“, eins og komizt er að orði, þegar
um uppeldi er að ræða. Aldrei verður kveðinn upp of harður dómur yfir upp-
alendum, einkum ef það eru foreldrar eða annað hvort móðir eða faðir, sem
vanrækja að fullnægja vinnuþörf barna, þegar nægileg skilyrði eru fyrir hendi,
eða brestur dug til þess að veita barni skynsamlegan aga og aðhald, án þess að
frjálsræði þess sé í raun og veru misboðið. Hið sanna frelsi er virðing fyrir
vinnu, sjálfstjórn, djörfung, einbeittur vilji o. s. frv.9