Skírnir - 01.01.1985, Page 299
SKÍRNIR UTANGARÐSSKÁLDIÐ JÓHANNES BIRKILAND 231
æsku en ástarrómana á unglingsárum. Hann lærði að leika á
orgel, öll algengari sálmalög, með því að setj ast við orgel á bæj um
þar sem hann kom og slíkt hljóðfæri var til. Og á harmonikku,
sem honum var gefin, nægilega til að geta leikið fyrir dansi.
Skjallið ýtti undir stærilæti hans og óra en það var fjarri því að
vera tilhæfulaust.
Margur maðurinn hefur lotið að minna í sinni bernsku og ekki
kvartað á fullorðinsárum sínum. En vissulega var ógæfulega á
málum haldið. Þar eð Jóhannesi var hlíft við hverskonar á-
rekstrum við umheiminn, eins og framast varð við komið, og að
takast á við einhver þroskavænleg viðfangsefni óx hann upp eins
og viðkvæm jurt í potti í þessari fjallabyggð. Það sem gat orðið
öðrum börnum, sem bjuggu við algengari lífskjör, til hrellingar
eða vakið þeim ótta gerði hann dauðhræddan, draugatrú og
önnur hindurvitni, Vídalínspostilla á kvöldvökum. Og óhjá-
kvæmilegir árekstrar og tilvilj anir komu verr við hann en yfirleitt
börn á hans reki; trúr sálkönnunarmarkmiði sínu lýsir hann kyn-
ferðislegum rustahætti vinnumanna við sig beinlínis, hræðslu við
sjúkdóma, mögnuðum sóðaskap, þar með lúsadrápi og hræk-
ingum baðstofubúa. Og ósjálfstæði hans gagnvart föður sínum
fylgdi honum allar götur um heimahagana og þaðan gegnum lífið
eins og Skotta.
Sjálfur gerði hann sér hugmyndir um lagskipta sambýlishætti
vegna þess eftirlætis sem hann naut umfram aðra, jafnvel hálf-
systkini sín, sonur óðalseigandans, sem vegna meðfæddra eigin-
leika, erfða og gáfna, hæfði ekki að ynni líkamleg störf; hann var
af æðri stétt, aristókrati. Almúganum hæfðu þau kjör sem voru
hans, allt það bardús. Skoðanirnar styrktu einangrun hans gagn-
vart þeim fáu leiksystkinum sem hann átti völ á. Og gagnvart
vinnufólkinu sem auk þess átti erfitt með að sætta sig við að hann
var mun betur haldinn í fæði en það sjálft og lét hann og aðra oft
heyra það. Af öllu saman leiddi sálrænar hömlur og einangrun,
ákaflega magnaðan dómgreindarskort á umhverfi sitt. Þar með þá
draumóra sem hann lofaði að skýra ástæðurnar fyrir í upphafi
ævisögu sinnar; vitnað var til þeirra orða að framan.
Athyglisvert er hvernig ófullnægjandi athafnaþörf Jóhannesar
og svelt þörf hans fyrir tilfinningalegt samneyti braust út í of-