Skírnir - 01.01.1985, Page 318
250 ÞORSTEINN ANTONSSON SKÍRNIR
að ég hefði stöðvast á rásinni norður og niður til botnlausrar óhamingju, stað-
fest ráð mitt þrátt fyrir allt öfugstreymi.36
Hann segir afdráttarlaust að móðir hans hafi enga blíðu auðsýnt
honum í æsku.
Á þessum árum, sem Jóhannes gaf út Framtíðina, hafði fjöl-
skylda ein hann að féþúfu gegn vilyrði um að hann fengi dóttur
þeirra, tvítuga stúlku; hann hafði orðið ástfanginn af henni og
hún sýnt þess merki að hún væri honum ekki fráhverf. Fæði og
húsnæði hjá þessu fólki galt hann við okurverði og húsbóndinn
hafði út úr honum fé hvenær sem hann vildi til að renna stoðum
undir vafasaman fyrirtækisrekstur sinn. „Allan veturinn og vorið
eftir, unz orðið var síðla sumars“, segir hann, „kysstumst við og
föðmuðumst, yngri dóttir hjónanna og ég, stundum margsinnis
daglega, lengi, lengi í senn.“37 Ennfremur:
Stúlka þessi þóttist elska mig, en kvaðst ekki þora að giftast mér gegn vilja for-
eldra sinna. Hún tjáði mér það í óspurðum fréttum, að enginn fengi nokkru
sinni að njóta holdlegs unaðar af sér, nema sá er hún væri þegar búin að ganga
að eiga!38
Jóhannes sníkti út fé, hvar sem hann gat komið því við, til að
standa undir þessum útgjöldum. Hann var auðsveipur þótt hvorki
gengi né ræki með stúlkuna, og yfirgangsemi þeirra hjóna ágerð-
ist svo að þau létu hann jafnvel betla fyrir mat þeim er þau svo
seldu honum af og jafnframt var viðurværi fjölskyldunnar. Hann
sætti margháttar tilfinningalegum misþyrmingum af hálfu þessa
fólks samkvæmt siðareglu þröngsýninnar: öðruvísi maður er
skrítinn, er illur.
Blind ást hélt honum föstum, að því er hann trúði. Hann hafði
alltaf átt við að stríða andvökur og varð nú enn síður svefnsamt en
áður. Húsbóndinn kenndi honum þá að nota svefnlyf, sem hann
hafði ekki í neinum mæli neytt fyrr. Hann tók að neyta þeirra í
óhófi. Dóttur sinni höfðu þau hjón auðvitað aldrei ætlað svo
óburðugt mannsefni og þegar sýnt var að hann hafði fullreynt á
þolrif velgerðarmanna sinna vörpuðu þau honum einfaldlega á
dyr. Giftu stúlkuna litlu síðar.
Birkiland var niðurbrotinn maður eftir þessa meðferð,