Skírnir - 01.01.1985, Page 320
252 ÞORSTEINN ANTONSSON SKÍRNIR
öllu óskiljanlegur og hafði hvert sveitarfélagið af öðru sent hann
af höndum sér eftir að maður hafði gengið undir manns hönd við
að finna honum stað á kortlögðum landssvæðum daglegs lífs
þeirra. Tvisvar hafði lögreglan sótt hann á heimili hans vegna þess
að húsráðandi þoldi ekki ölvaða menn undir sínu þaki. Jóhannesi
var misboðið.
Smásaga frá þessum árum, Eitt ævintýri afmörgum, raunsæis-
skáldskapur þrátt fyrir nafnið, greinir frá vændiskonu sem kaupir
sér vernd lögreglunnar reykvísku með því að ljóstra upp um þjóf.
Lögregluþjónarnir, sem að handtöku þjófsins standa, stela sjálfir
þýfinu. í bæklingnum Villigötur lýsir hann ítarlega tilefnislausri
beitingu ofbeldis lögregluþjóna við handtöku; drykkjuskap ung-
linga. Lýsingin á borgarlífinu er önnur en hinna kunnari sagna frá
kreppuárunum. í annarri sögu frá þessum tíma, Dauöanum á
fyrstu hæð, lýsir hann því er borgaryfirvöld svipta heimili
fátækrastyrk, úrræðaleysi góðviljaðs læknis frammi fyrir veik-
indum drengs á þessu heimili sem deyr eftir þennan samdrátt á
framlagi til fátækra almennt. Ástæða er til að ætla að sagan sé
byggð á persónulegri reynslu og tilfinningasemi ber byggingu
hennar ofurliði. Aðeins ein smásaga enn eftir Jóhannes er kunn:
Valrós, frá 1929 og af allt öðru tagi. Sú saga er dæmisaga, hug-
blærinn ævintýrisins, byggingin fínleg. Falleg saga, tregablandin:
Allgóð. 16 ára sveitastúlka, Valrós, og víðförullferðamaður, sem
gistir á heimili hennar, fella saman hugi eftir að hafa ræðst við
næturlangt og hann upplýst hana um tilgang lífsins; kynjamynd
fyrir utan gluggann að morgni boðar feigð hans án þess að hún
skilji það eða hann ráði fyrir henni með öðru en að skuggi mann-
verunnar á krossgötunum boði Sorgina, ferst þar af slysförum.
Tvísætt lífsskyn. Eins og einnig í þessu erindi úr kvæðinu Kvöld-
hugleiðing eftir Jóhannes Birkiland:
Þegar vitund þreytt af harmi
þráir aðra sterkt og heitt,
ást og tryggð frá björtum barmi,
blíðu sem að getur veitt,
er um tilgang alls sem lifir
einungis að ræða hér. -
Þessu drottnar ekkert yfir.
39
Allt er hending - það sem er.