Skírnir - 01.01.1985, Page 343
SKÍRNIR
RITDÓMAR
275
skilja Guðberg Bergsson og don Kíkóta. Auk þess er nútímamönnum
stundum ekkert um bókmenntir fyrri alda gefið, og hugsanlegt að þeim þyki
þetta framlag Guðbergs Bergssonar til íslenskrar menningar „donkíkótalegt“
og tilgangslaust. Hugsjónamaður lætur sér standa á sama um slíkan dóm.
Cervantes gerir sér nokkuð tíðrætt um þýðingar og þýðendur í sögunni af
don Kíkóta. Ekki er úr vegi að kanna hugmyndir hans nokkuð áður en farið
er út í að ræða íslensku þýðinguna. í VI. kafla fyrri hlutans kanna presturinn
og rakarinn bókasafn don Kíkóta og prestur segir:
Mikið blessað lán væri ef skipstjórinn hefði aldrei flutt Aríosto til
Spánar og gert hann kastiljanskan, því hann dró drjúgt úr frumgildi
hans. Svo fer flestum sem hyggjast flytja bundið mál á erlenda tungu.
Þýðendum tekst aldrei að ná blæbrigðum frummálsins, þrátt fyrir góða
aðgát og auðsæja hæfileika.
Fremur er hún letjandi fyrir þýðendur þessi fullyrðing, og kannski erfiðara
að hrekja hana en sanna. En þarna er Cervantes umfram allt að ræða þýðingar
á bundnu máli og auk þess hafði „skipstjórinn" kastað mjög höndum til þýð-
ingarinnar. I lok kaflans minnist presturinn aftur á móti á höfund sem „þýddi
snilldarlega sum af ævintýrum Óvidíusar.“ Samt sem áður lætur hann don
Kíkóta segja, þegar hann er staddur í prentsmiðjunni í Barcelona, að þýð-
ingar „séu eins og þegar rangan er skoðuð á flæmsku veggteppi, persónurnar
eru eintómir endar sem má þær út, þótt myndefnið sjáist, og sléttleiki andlits-
ins er horfinn." En svo heldur don Kíkóti áfram og minnist á þýðingu Jóns de
Jaureguí: „góðu heilli er ekki hægt að sjá á henni hvort er þýtt eða frumort."
Þannig á góð þýðing þá að vera, „blæbrigðum frummálsins" þarf að ná og þýð-
ingarbragur má enginn vera.
En hvað á íslenskur þýðandi til bragðs að taka þegar hann þýðir tæplega
fjögurra alda gamalt verk úr spönsku? Verk sem á sér tæpast nokkra hliðstæðu
í íslenskum bókmenntum þótt Heljarslóðarorrusta komi reyndar upp í hug-
ann og ef til vill Gerpla. Guðbergur segir í áðurnefndri grein sinni um þýð-
ingar að hann hafi reynt að leita fanga í Karlamagnúsarsögu en haft lítið upp
úr krafsinu. Sérhver nýjung kemur mönnum einkennilega fyrir sjónir í fyrstu,
jafnt í bókmenntum sem öðru. Það þarf ekki að stafa af gallaðri þýðingu þótt
einhverjum þyki sagan af don Kíkóta koma sér „spánskt fyrir sjónir",
ástæðan getur rétt eins verið að hér er á ferðinni bók sem íslensk menning
hefur verið án allt of lengi. Guðbergur getur ekki byggt á neinni hefð eins og
til dæmis breskir þýðendur.
Svo er hitt, að don Kíkóti og Sansjó virðast ekki alltaf lifa lengst og best í
nákvæmum, „orðréttum“ þýðingum. Þýðing Sheltons þykir til dæmis afar óná-
kvæm og samt er talið að fáir þýðendur hafi náð því að túlka anda sögunnar á
jafn lifandi hátt. Aðrar þýðingar þykja hárnákvæmarog „fræðilegar“, en jafn-
framt líflausar og ólíkar hinum upphaflega Don Kíkóta í anda og stíl. Cer-
vantes þykir ekki alltaf mjög nákvæmur stílisti, hann lagði minna upp úr