Skírnir - 01.01.1985, Qupperneq 377
SKÍRNIR
RITDÓMAR
309
það sé eðlileg afleiðing þess hve lengi menningaráhrif þaðan hafa yfirgnæft
önnur á íslandi, þaðan mun flest um feita drætti í því sem birst hefur á ís-
lensku. Annars fer einna mest fyrir sögum úr norrænum málum: sex úr
norsku, fimm úr dönsku, fimm úr sænsku, ein úr færeysku. Sjö eru úr þýsku,
fimm úr frönsku, fjórar úr rússnesku, tvær úr pólsku, tvær úr tékknesku, tvær
úr ítölsku. Loks eru fjórar frá Rómönsku Ameríku; tvær eftir argentínsk skáld,
ein frá Úrúgvay og ein mexíkönsk. Pað er víst ekki fyrr en á síðustu árum sem
þýtt er beint úr fjarlægum málum, framanaf hefur mest verið þýtt úr dönsku
eða ensku, eftir rússnesk skáld og þvíumlíkt. Líklega hefði verið hægt að hafa
sögurnar af enn margbreytilegri uppruna, ágætar smásögur hafa birst kín-
verskar, Fjallaþorpið eftir Lú Hsúin, og í Tímariti Máls og menningar hafa
birst smásögur eftir Tyrkja, Magrebína og írana, en að vísu aðeins á allra
síðustu árum, er því ekki hægt að ætlast til að þær séu teknar upp í safnrit á
borð við íslenskar smásögur að svo stöddu. Annars væri æskilegt, þó að land-
fræðilegur uppruni skipti ekki öllu máli, að koma slíku safni betur út fyrir
ramma landlægra fordóma Vesturlandabúa.
Hvað sem þessu líður, þá eru sögurnar svo fjölbreyttar, að örðugt er upp að
telja allar þær margbreytilegu aðstæður og persónur sem þær lýsa. Ýmist er
lesandinn staddur meðal skæruliða í Suður-Ameríku, einyrkja í Bandaríkjun-
um, þorpsbúa í Frakklandi - og í stórborgarvændinu þar, meðal glæpalýðs á
Spáni, tötraöreiga í stórborg, yfirstéttarfólks í venjulegu umhverfi sínu - og
andspænis ómennskri náttúrunni (Johannes V. Jensen), og margt mætti enn
telja. Hér er sýnd undirokun og uppreisn gegn henni (t. d. Tsjekhov og Faulk-
ner), ofurvald ástríðnanna kemur víða fram, og myrk, dularfull öfl mannssál-
arinnar (t. d. Tieck, Heyse, Conrad, Blixen, Somerset Maugham). Dulrænn
óhugnaður af kristilegum toga birtist m. a. hjá Borges og Shirley Jackson.
Skondið er hvernig dularfull saga Julio Cortazar endurspeglar dularfulla sögu
Edgar Allan Poe: uppkomin systkini einangruð í stóru, gömlu húsi, sem er
táknrænt fyrir líf þeirra. Á margan veg er fjallað um líf einstæðinga; Truman
Capote sýnir vonlausa ást hommans sem svikinn er í tryggðum, Thomas Mann
sýnir brenglað sálarlíf skotspænis smáborgar, en Sherwood Anderson hljóða
örvæntingu þess sem finnst hann vera að missa af lífinu. Lagerkvist sýnir hins-
vegar hvernig bæklaður betlari sættir sig við hlutskipti sitt. Hér er hefðbundin
raunsæissaga Jonas Lie um lífsbaráttu utangarðsmanns í norskri sveit á 19.
öld, en Zola fjallar um það, hvernig einstaklingur samsamast þjóðarheildinni
áörlagastund. Steinbeck sýnir hvernig barn uppgötvar heiminn, Maupassant,
Kielland og Lagerlöf hvernig örlagaríkt val í ástarmálum setur sögupersónu í
fullorðinstölu. Toller og Brecht sýna hvernig sviplitlar rosknar konur bjuggu
yfir óvæntum möguleikum í lífsháttum.
Frásagnarháttur er mjög margbreytilegur, og stíll, svo sem að líkum lætur,
með svo marga höfunda og þýðendur frá mismundandi tímum. Ritstjóri gat
vitaskuld ekki borið saman frumtexta og þýðingar, og ritdómari því síður, en
Hannes Hafstein vakti sérstaka aðdáun mína fyrir stílinn á „Karen“ Kiel-
lands. Ritstjóri talaði um það í formála íslensku sagnanna (I—III) að í þeim