Skírnir - 01.01.1985, Side 387
SKÍRNIR
RITDÓMAR
319
Hitt kvæðið tekur viðfangsefnið öllu mýkri tökum:
Að undangengnu ellimóki fer
að opnast hurð sem brakar hægt og veit
að útgangi sem áður stóð á gátt.
Sighvatur hlustar, höndin skelfur enn
en hægar, jafnt og óvissa hans vex;
hann berst við hálfa hugsun enn um stund.
Var þarna hurð, og hvar er glugginn þá
sem hrísla barði gegnum svefn hans fyrr?
Nei hér var áður opið, hvergi breytt.
Loks man hann allt: að köttur hvarf í gjá
í hrauni fyrir norðan, kemur upp
tveim dögum síðar úti á Sikiley.
Nú hættir brakið, hurðin stansar snöggt,
hann horfir gegnum svalir út á völl:
ein róla skökk og hrafl af snjó í hornum.
(Enn af ferðum Sighvats)
Skáldið teflir hér fram hinu óumflýjanlega og þeirri reisn sem fólgin er í við-
námi, óvissu og efasemdum. Vendipunkturinn í kvæðinu, sjálfsuppgötvun-
ina, má vægast sagt túlka á ýmsa vegu, en niðurlagið veldur vilj andi vonbrigð-
um, lýsir ómerkilegum afrakstri alls þess sem á undan er gengið, hvort sem hér
er um að ræða dauðastundina eða uppgjör manns við nútímaumhverfi sem
hann sættir sig ekki lengur við. Þetta er kvæði sem tekur lesandann með sér,
ræður hraða hugsana hans með hægum köflum og snörpum, virkjar ímynd-
unarafl hans; það er haglega ort en óþvingað, blandar saman léttúð og alvöru,
er í rauninni kvæði sem skapar hug lesandans svo að notað sé nýjasta tískumál
erlendra bókmenntafræðinga.
í nýlegri grein bendir Matthías Johannessen á forvitnilega samsvörun milli
kvæðis eftir Keats, La Belle Dame Sans Merci, og kvæðis eftir Kristján
Karlsson, La Belle Dame Qui Bégaie. Vert þykir hér að vekja athygli á því, að
kvæðið Hvít krukka leggur ekki síður út af hugrenningum Keats í öðru frægu
verki, Ode to a Grecian Urn. Þó á hér við hið sama og um kvæðin um döm-
urnar tvær, að varla er unnt að finna beina samsvörun í orðavali, formi eða
myndmáli (í efnisþáttunum) að öðru leyti en í heitinu og efninu. Jafnframt
gildir um bæði kvæðin, að lesandanum er fyrirmyndin í raun og veru óviðkom-
andi - Kristján er að takast á við sígilda hugmyndafræði og fagurfræði sem
orðið hafa skáldum að yrkisefni um aldir. Almennar óhlutbundnar hugrenn-
ingar af þessu tagi hafa átt í vök að verjast í nútímakveðskap, þar sem um-