Skírnir - 01.01.1985, Side 403
SKÍRNIR
RITDÓMAR
335
einnig búfjárfækkun eftir héruðum og kemst að þeirri niðurstöðu, að hún hafi
verið mest á Norðurlandi og Vesturlandi auk Skaftafellssýslu. Hér hefði verið
til bóta að skipta Skaftafellssýslu eða slá varnagla um ástandið austan Breiða-
merkursands (eða Öræfajökuls), enda verða umskiptin við sýslumörk Austur-
Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu annars með ólíkindum. Fellirinn í
Vestur-Skaftafellssýslu hefur væntanlega verið mun meiri en ráða má af tölum
Sveinbjörns. Hann tekur fram, að verstu mengunina frá Skaftáreldum muni
hafa lagt í norðvestur frá eldstöðvunum. Austur-Skaftafellssýsla ætti því að
hafa losnað við hana, a. m. k. meginhluti hennar.
Tvær ritgerðir fjalla almennt um áhrif Skaftárelda og Móðuharðinda í
tveimur byggðarlögum, eldsveitunum sjálfum og Suður-Múlasýslu. Hið fyrra
er fullkomlega eðlilegt, enda hafa fyrrnefndir viðburðir hvergi haft meiri
áhrif. Suður-Múlasýsla virðist á hinn bóginn alls ekki vera dæmigerð um áhrif
þeirra. Sú spurning vaknar, hvort ritstjórnin hafi talið þá sýslu hafa sloppið
best við hremmingarnar, en á móti því mælir, að kúm og sauðfé virðist hafa
fækkað þar meira en í Gullbringusýslu og á Vestfjörðum. Fleira mætti tína til.
Skemmtilegra hefði verið að fjalla einvörðungu um dæmigerð byggðarlög eða
öll. Þetta er ekki sagt til hnjóðs ritgerð Kristjönu Kristinsdóttur, hún stendur
vel fyrir sínu.
Þeir Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Sigfús Haukur Andrésson, Gísli Gunnars-
son og Sveinbjörn Rafnsson eiga fjórar síðustu ritgerðirnar. Þær fjalla um tals-
vert önnur viðfangsefni en hinar fyrri. Ritgerð Gísla Gunnlaugssonar nefnist
Viðbrögð stjórnvalda í Kaupmannahöfn við Skaftáreldum, ritgerð Sigfúsar
Andréssonar Aðstoð einokunarverslunarinnar við íslendinga í Móðuharð-
indunum, ritgerð Sveinbjörns Rafnssonar Um eldritin 1783-1788 og ritgerð
Gísla Gunnarssonar Voru Móðuharðindin af manna völdum? Þeir Gísli
Gunnlaugsson og Sigfús Haukur Andrésson eru sammála um, að aðstoð er-
lendis frá hafi í senn komið of seint og verið ómarkviss, dreifing á korni og
beinir fjárstyrkir hafi komið að mestum notum og að styrkur konungsverslun-
arinnar hafi verið umtalsverður. Báðir sýna þeir fram á, að samgönguerfið-
leikar innanlands hafi torveldað aðstoð. Sigfús Andrésson færir rök að því, að
fyrirmæli til kaupmanna um takmörkun vörulána vorið 1783 hafi reynst að-
stoðarstarfi fjötur um fót, en vaxandi skuldasöfnun landsmanna var orsök
fyrirmælanna. Allt er þetta sennilegt. Sigfús vekur einnig athygli á því, að við-
brögð embættismanna á íslandi við upphaf eldsumbrotanna hafi einkennst af
seinlæti og það slíku, að viðbrögð ráðamanna í Kaupmannahöfn megi teljast
bæði snögg og röggsamleg í samanburði við þau. Skammt var liðið frá síðasta
stórgosi (Hekla 1766-1768). Má því vera, að embættismennirnir hafi talið að
allt mundi bjargast af líkt og þá, enda getur Sigfús Andrésson þess, að Thodal
stiftamtmaður hafi borið af sér seinlætið með því að vitna til ósamhljóða sagna
af gosinu í fyrstu. Hvert stórgosið rak annað á 18. öld. Menn kunna að hafa
verið hættir að kippa sér upp við fréttir af eldgosum.
Á síðari árum hefur verið ritað nokkuð um frásagnir um fyrirhugaða flutn-
inga íslendinga á Jótlandsheiðar. Gísli Á. Gunnlaugsson víkur að þessu í rit-