Skírnir - 01.01.1985, Síða 404
336
LÝÐUR BJÖRNSSON
SKÍRNIR
gerð sinni. Hann telur líklegt, að einhverjar slíkar hugmyndir hafi „verið
ræddar óformlega meðal danskra embættismanna (og íslenskra?) og hafnað
sem óframkvæmanlegum og óæskilegum kosti“. Þetta er líklegasta skýringin,
enda ósennilegt, að þeir Hannes Finnsson, Magnús Stephensen og Skúli
Magnússon hafi farið með einbert fleipur, en þeir víkja allir að flutningum af
þessu tagi.
Sveinbjörn Rafnsson gerir grein fyrir hinum fyrstu prentuðu ritum um gosið
og getur þeirra heimilda, sem höfundar þeirra notuðu.
Gísli Gunnarsson vekur athygli á því, að ýmsir áhrifamenn hafi notað
Móðuharðindin sem ástæðu til að gagnrýna stjórnarhætti íslands og hafi talið
þau vera af manna völdum. Hér voru upplýsingarmenn fremstir í flokki, t. d.
Skúli landfógeti Magnússon og C. U. D. Eggers, ritari Landsnefndar síðari.
Þetta er rétt, en á hinn bóginn skal á það bent, að Eggers var yngri maður en
Skúli og mun hafa aðhyllst ákveðnar hugmyndir innan upplýsingarinnar, t. d.
frjálshyggju Adams Smiths. Skúli verður helst talinn hafa fylgt hugmyndum,
sem helst mætti kalla stjórnardeildastefnu (kammeralisma) á íslensku, en
slíkir menn sameinuðu eldri og yngri hugmyndir. Gagnrýni þeirra kynni því
að hafa átt sér mismunandi forsendur. Gísli Gunnarsson kveður hafís og jarð-
elda hafa verið hina beinu orsök mannfellisins 1784—1785 og tekur fram, að
torvelt sé að greina, hvort hafi verið áhrifameira. Gísli bendir ennfremur á, að
mikið mannfall hafi komið á 18. öld, er fólksfjöldahámarki var náð, en hinar
beinu orsakir hafi verið mismunandi, „bólusótt 1707-1708; hafís 1756-1757;
hafís og j arðeldar 1784-1785“. Nokkur vafi virðist leika á um réttmæti þess að
rekja mannfellinn í Stóru bólu til þess, að mannfjöldi var þá við hámark, sem
virðist hafa verið um 50.000 manns. Miklum harðindakafla var nýslotað árið
1707 og afkomumöguleikar hefðu þá átt að fara batnandi. Sambandið er
a. m. k. alls ekki jafngreinilegt 1707 og það var í tvö síðari skiptin.
Vafalítið hefði verið unnt að koma í vegfyrir a. m. k. verulegan hluta mann-
fellisins í Móðuharðindum, ef stjórnarfar, atvinnuvegir og viðhorf lands-
manna hefðu verið með öðrum hætti. Slíku verður á hinn bóginn ekki breytt
á skömmum tíma, enda kemur fram í ritgerð Gísla Gunnarssonar, að Skúli
fógeti vildi láta Móðuharðindin vera víti til varnaðar. Slíkt eru eðlileg
viðbrögð. Annars munu mörg áföllin hafa verið af manna völdum með einum
eða öðrum hætti. Sóttkví hefði t. d. vafalaust reist mannfellinum af völdum
Stóru bólu miklar skorður. Skyldi áhrifamáttur sóttkvíar hafa verið með öllu
óþekktur um 1700?
Rúmlega þriðjungur bókarinnar (166 bls. af 442 bls. alls) geymir heimildir
um Skaftárelda og Móðuharðindi, blaðafregnir, fyrstu lýsingar, skýrslur em-
bættismanna og þingsvitni. Prentun þessara heimilda var þarft verk. Enginn
skyldi þó ætla, að hér væri að finna allar heimildir um þessa atburði, aðstoðar-
beiðnir einstaklinga eru t. d. ekki birtar. Þar kemur neyðin þó hvað best fram,
t. d. í styrkbeiðni Ragnheiðar Böðvarsdóttur.
Nokkurt misræmi er í tilvísunum til heimilda. Þetta getur þó tæplega talist
mikill ókostur. Höfundar eru fulltrúar margra fræðigreina, og kerfin henta