Morgunblaðið - 30.07.2015, Síða 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. JÚLÍ 2015
SVIÐSLJÓS
Atli Vigfússon
laxam@simnet.is
„Kirkjunni hefur verið afar vel við-
haldið og um hana hefur verið
hugsað af mikilli natni. Það er
samhugur um það hér í sveitinni
og hér er gott fólk,“ segir sr. Þor-
grímur G. Daníelsson, sókn-
arprestur á Grenjaðarstað, en á
dögunum var haldið upp á 150 ára
afmæli kirkjunnar með hátíð-
armessu þar sem margt fólk var
samankomið.
Það var víglubiskupinn á Hólum,
sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir,
sem hélt hátíðarræðuna en sr.
Þorgrímur þjónaði fyrir altari.
Margir prestar voru þarna sam-
ankomnir og að messu lokinni var
kaffisamsæti í félagsheimilinu
Ýdölum þar sem voru haldnar
ræður. Þar var fyrrverandi for-
maður sóknarnefndar, Guðmundur
Sigurðsson, bóndi í Fagranesi,
heiðraður sérstaklega fyrir störf
sínu í þágu kirkjunnar í meira en
tvo áratugi og fékk hann hátíð-
arútgáfu af Passíusálmunum að
gjöf.
Sr. Þorgrímur segir að það hafi
verið unnið afar farsælt starf hvað
varðar viðhald Grenjaðarstaðar-
kirkju og þar hafi Guðmundur Sig-
urðsson, ásamt sóknarnefndar-
mönnum, unnið af miklum áhuga
og skynsemi.
Löng byggingarsaga
Árið 1865 var torfkirkjan á
Grenjaðarstað komin að falli og
farið var í að efna í nýja timb-
urkirkju. Yfirsmiður kirkjunnar
var Árni Hallgrímsson frá Garðsá í
Eyjafirði, en hann hafði áður smíð-
að Einarsstaðakirkju í Reykjadal
árið 1862. Árni vann að byggingu
kirkjunnar í 193 daga ásamt fleiri
mönnum og var heildarkostnaður
við smíði hennar 1.686 ríkisdalir.
Undirstöður kirkjunnar voru
hlaðnar úr grjóti en utan með
sökklinum og jafnhátt honum var
hlaðið upp torfi og það nefnt torf-
stétt sem var ætlað að draga úr
vindsúg undir kirkjuna. Bárujárn
kom á þakið 1892 og 1895 var
steypt stétt milli sáluhliðs og
kirkjudyra. Þá var kirkjan máluð
árið 1925.
Fyrir aldarafmæli kirkjunnar
var hún stækkuð og bætt var við
hana kór, forkirkju og turni á
vesturstafni. Árið 1964 var samið
við Stefán Óskarsson, trésmíða-
meistara á Rein í Reykjahverfi, og
m.a. skipt um alla glugga og um-
búnað þeirra. Gólfið var endurnýj-
að og þakviðir eftir því sem þörf
var á. Stefán hefur alla tíð síðan
sinnt viðhaldi Grenjaðarstaðar-
kirkju og 1992 var allt þak kirkj-
unnar einangrað með steinull.
Hitaveita kom árið 1990, en það
var árið 1912 sem settur var kola-
ofn í hana til hitunar.
Altaristaflan á Grenjaðarstað er
frá 1865 og var fengin til kirkj-
unnar þegar hún var byggð. Í pró-
fastsvisitasíu frá 1885 er hún sögð
gjöf sóknarprestsins sem þá var.
Hún er talin danskt olíumálverk
og er eftirlíking þekktrar alt-
aristöflu eftir danska listmálarann
Carl Bloch. Kaleikur er frá 1870
og patína gullslegin er með lat-
neskri áletrun og mun vera úr
kaþólskum sið. Þá eru í kirkjunni
tveir koparstjakar fornir og fagrir,
líklega úr Múlakirkju sem var af-
lögð 1889. Prédikunarstóllinn er
með ártalinu 1797 og fangamarki
sr. Tómasar Skúlasonar sem var
prestur á Grenjaðarstað 1785-1808.
Hann var endurmálaður af Grétu
Björnsson 1965. Margir aðrir
merkilegir munir eru í kirkjunni
og þess má geta að klukkur kirkj-
unnar í klukknaportinu eru mjög
gamlar því stærri klukkan er með
ártalinu 1663 og hin 1740. Þá hefur
kirkjan endurheimt sitt fyrsta org-
el sem var keypt fyrir 300 kr. árið
1883. Það gaf Sigurður Jóelsson í
Kópavogi nýlega, sem ættaður er
frá Arndísarstöðum í Bárðardal og
nú er búið að gera það upp.
Grenjaðarstaður hefur
breytt um svip
Sr. Þorgrímur segir að stað-
urinn hafi breytt mikið um svip á
síðustu áratugum. Stór hlaða norð-
an við gamla bæinn fékk nýtt hlut-
verk og varð þjónustuhús og ný
bílastæði komu sunnan við kirkj-
una. Hleðslur voru lagaðar og
bæjarmyndin breyttist. Þetta var
gert með samkomulagi Prestsetra-
sjóðs, Safnahúss Þingeyinga og
sóknarnefndar með dyggri aðstoð
og ráðgjöf Guðmundar Rafns Sig-
urðssonar arkitekts sem er um-
sjónarmaður kirkjugarða.
Í dag er ekkert sérstakt sem
bíður þess að verða lagað í kirkj-
unni. Sr. Þorgrímur segir þó að
talað sé um að skipta þurfi um
áklæði á kirkjubekkjunum og
fleira smávegis. Enginn fúi er í
kirkjunni og þar sem menn hafa
alltaf verið að laga þá sé ástandið
frekar gott. Ekki er langt síðan
kirkjan var máluð og hún er mikil
prýði á staðnum. Aðeins er farið
að tala um að stækka kirkjugarð-
inn sem er heima við kirkju en það
er ennþá á umræðustigi.
Gott að vera á Grenjaðarstað
Kirkjunni bárust góðar gjafir í
tilefni afmælisins og gaf Stefán
Óskarsson trésmíðameistari og
hans fjölskylda kirkjunni útidyra-
hurðir sem hann hafði smíðað. Þá
fékk kirkjan nýjan hökul frá af-
komendum Friðfinns Sigurðs-
sonar, bónda í Rauðuskriðu, en
hann var fæddur 16. júlí 1865 og
því jafngamall kirkjunni. Honum
hafði alltaf verið hlýtt til kirkj-
unnar og borið hana fyrir brjósti.
Sr. Þorgrímur og hans fjöl-
skylda komu á Grenjaðarstað 1999
og hefur líkað vel og hann segir
gott að vera á Grenjaðarstað.
Þorgrímur þjónar einnig Einars-
staðakirkju í Reykjadal, Neskirkju
í Aðaldal, Þóroddsstaðarkirkju í
Kinn og Þverárkirkju í Laxárdal.
Allt merkileg hús sem vel er hugs-
að um. Kirkjurnar eru Þing-
eyingum til mikils sóma því alltaf
er verið að byggja og bæta.
Hugsað um kirkjuna af natni
Hátíðarmessa í tilefni 150 ára afmælis Grenjaðarstaðarkirkju Margar góðar gjafir bárust
Samhugur í sveitinni Kirkjan var stækkuð á 100 ára afmælinu Altaristaflan frá árinu 1865
Ljósmyndir/Atli Vigfússon
Prestar Þau messuðu á Grenjaðarstað, f.v. Jón Ármann Gíslason, Gunnlaugur Garðarsson, Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup emeritus, Þorgrímur
G. Daníelsson, Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup, Sighvatur Karlsson, Örnólfur J. Ólafsson, Guðrún Eggertsdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson.
Kirkjan Grenjaðarstaðarkirkja var byggð árið 1865 og leysti torfkirkju af
hólmi. Fyrir aldarafmælið 1965 var kirkjan síðan stækkuð og endurbætt.
Sóknarpresturinn Þorgrímur G. Daníelsson við altarið í Grenjaðarstaðar-
kirkju en taflan er frá árinu 1865 þegar kirkjan var reist.