Skagfirðingabók - 01.01.1968, Blaðsíða 25
NOKKRAR ÆSKUMINNINGAR
ég hrossabrest, sem smíðaður var handa mér. Gafst mér hann vel.
Þannig gekk þetta daglega fram að háttatíma, en þá tók við stúlka,
sem leysti mig af hólmi og vakti yfir vellinum til næsta morguns. Það
var ekki fyrr en um aldamót, að farið var að girða með gaddavír. Var
faðir minn einn af þeim allra fyrstu, er það gerðu. Og þar með lagðist
þessi varzla niður.
Eftir fráfærur, þegar kominn var nægur gróður, fénaður kominn á
fjall og orðið rúmt í högum, varð starfið við vörzluna hverfandi, enda
var þá komið að slætti. En þá tók við næsta verkefnið, hjásetan. Heima
var það fremur létt verk, því hægðarleikur var að fylgjast með ferðum
ánna heiman frá bænum. Ærnar voru hafðar ausrar í mýrunum, milli
Héraðsvatna að austan og Slýsins að vestan, en svo nefndust illfærir
foræðiskíiar, sem skildu í gamla daga milli mýranna og Reynistaðar-
engja. Ærnar voru reknar yfir Slýið á upphækkaðri torfbrú, sem ti!
þess var ætluð. Hlutverk mitt var að líta eftir, að ærnar færu ekki upp
í engjarnar, reka þær í hagann á morgnana og sækja þær á kvöldin,
reka þær heim á kvíabólið og kvía þær þar.
Af því hve auðvelt var að sjá til ánna, var oft gripið til mín, þar tn
ærnar voru sóttar, og ég látinn fara með, þ. e. teyma heybandslestinr.,
þegar heyið var bundið, og fékk þá hest til reiðar. En því fylgdi, að
þá varð ég að standa undir sem kallað var, þ. e. setja öxlina eða bakið
undir fyrri sátuna, sem bindingsmaðurinn lét til klakks, svo ekki
snaraðist um hrygg á hestinum, meðan bindingsmaðurinn var að koma
upp hinni sátunni á móti. Á sama hátt varð ég að standa undir öðrum
bagganum á hverjum hesti, ef einn maður tók ofan af hestinum, er
komið var heim að tóft eða hlöðu. Meðan ég var lítill, hvíldu sáturnar
oft svo þungt á mér, að ég varð að neyta allrar orku til að kikna
ekki, var líka aðeins sex ára, er ég fór fyrst að fara með. En úr þessu
rættist fljótlega með vaxandi reynslu og kröftum. Um sama leyti Iém
foreldrar mínir smíða handa mér lítinn og léttan hnakk, sem þau gáfu
mér, svo ekki vantaði mig reiðverið. Var hnakkurinn mikið notaður og
entist hann mér þó nokkuð fram á fullorðinsár. Var þetta mjög kær-
komin gjöf, sem kom í góðar þarfir.
Af túninu var oftast bundið á 4-5 hestum og þeir hafðir í lest,
þannig að taumurinn á hverjum hesti var bundinn í klyfberann á næsta
23