Skagfirðingabók - 01.01.1968, Blaðsíða 80
skagfirðingabok
Fékk kvæðamaður ætíð frían næturgreiða og stundum að sitja nálægt
heimasætunni, ef hún annars var nokkur! en svo fékk hann heldur
ekki meira.
Á þessu ferðalagi kostaði næturgreiðinn vanalega 1 krónu, en það
var nóg til þess, að stappaði nálægt sjóðþurrð, þegar til Reykjavíkur
kom. Þar átti ég gamlan leikbróður (áflogabróður), Einar Þórðarson
frá Vigfúsarkoti, sem ég kynntist fyrir 3-4 árum, þegar ég var í
Glasgow hjá Gunnlaugi Briem, sem nú var fluttur til Hafnarfjarðar.1
Einar þessi hjálpaði mér prýðilega til að skola ferðarykið úr vélindinu,
enda höfðum við oft í gamla daga hjálpað hvor öðrum á svipaðan hátt.
Þessi hugulsemi Einars fannst mér órækur vottur þess, að hann væri
minn sannur vinur og bjargföst hjálparhella, en ekki sá maður, er ég
seinna áleit hann vera, og verður þess síðar getið.
Eftir að við félagar voru búnir að jafna okkur í Reykjavík og
spyrjast fyrir með skiprúm, sem hvergi var hægt að fá, því að afla-
laust var, héldum við til Hafnarfjarðar, og fór ég rakleitt til Gunn-
laugs Briems, sem búinn var að vera húsbóndi minn eða jafnvel eins
og bróðir síðan ég var 7 ára gamall til 18 ára aldurs. Hann sagði már,
að sjómenn, sem á undan okkur komu og fóru suður með sjó, væru
margir komnir afmr og sumir alfarnir heim. Var hann því vondaufur
með góðan árangur af þessu ferðalagi mínu. Sagði hann mér samt, að
ég skyldi tala við sig, áður en ég legði land undir fót aftur. Skildist
mér á honum, að hann myndi geta látið mig hafa eitthvað að starfa
hjá sér til vorsins.
Þó nú útlitið væri ekki sem glæsilegast, héldum við norsarnir (hér
syðra voru norðlenzkir sjómenn oft kallaðir norsar) suður með sjó.
Á Vatnsleysuströndinni föluðum við skiprúm, en alls staðar var sama
svarið: „Fiskilaust." Þegar í Vogana kom, var dagur þrotinn, dimmt
til jarðar og allir ókunnugir. Var því farið að kynna sér gestrisni
1 Stefán ólst að nokkru upp á Reynistað í skjóli föður síns, er fluttist þangað
ekkjumaður vorið 1874. Þá stóð Gunnlaugur Briem fyrir búi föður síns,
Eggerts sýslumanns, en þegar Gunnlaugur gerðist verzlunarmaður í Glasgow,
slóst Stefán í för með honum suður og vann þar eitt ár. Hélt að því búnu
aftur norður að Reynistað, settist síðan i Hólaskóla og lauk þaðan prófi árið
1886.
78