Skagfirðingabók - 01.01.1984, Page 52
SKAGFIRÐINGABOK
Munurinn er sá, að 1810 hefur verið sett sérstakt sæti, markað
tveimur bríkum, sunnanvert við altari, og aðeins er einn gluggi
að kórbaki með fjórum rúðum, settur á bjórinn, mjög líklega á
sama stað og fjögurrarúðuglugginn er á kirkjunni, sem nú er á
Víðimýri. I fyrri kirkjunni var einungis gráða fyrir altari. I
þessari kirkju er komið „grindverk með tveimur uppistönd-
urum, hvar á eru 2 knappar og ljósapípur, allt af tré. Grindverk-
inu er upplokið að framan með hjörum, krók og keng.“ Þetta er
í samræmi við tízku og tíðaranda. Gamla altarið er á sínum stað
með sinni vængjabrík. I rjáfri kórs er skarsúð, en veggir með
óstokkuðu standþili „frá efri syllu undir lausholti ofan á
aursyllu." Ostokkað mun þýða, að þiljur eru ekki í gróp settar,
heldur festar með nöglum og listum á grind. Ekki er hægt að
segja til um þetta með fullri vissu, en tilvist lausholtsnafnsins í
vísitazíunni bendir eindregið til, að hér sé um nýja gerð þilja að
ræða og þá af ætt bindingsverks. Komin er grind, að því bezt
verður séð, sem er falin bak við þil. Kórstafninn er sagður
hálffóðraður innan. Að minni hyggju ber þetta vitni um, að
innra þilið nái aðeins upp að bita. A kórgaflinum er bindings-
verkið örugglega allsráðandi.
Kórskilunum svipar mjög til þeirra, er við sjáum nú í kirkj-
unni. Pílárar eru í kóropinu kvennamegin, en hafa þó ekki lagt
undir sig þilið sunnanmegin. Þar er lokað með grafskriftarfjöl
og standfjölum báðum megin predikunarstóls. I kórdyrum eru
útsniðnar dróttir. Ekki er nú lengur minnzt á bjórþil yfir kór-
skilabita.
Framkirkjan er með reisifjöl í stað súðar áður, en veggir með
listuðu standþili „frá lausholti ofan í gróp á aursyllu með
slaglista langsetis yfir efri endum þess.“ Hér er um einhverja
aðra þilgerð að ræða en í kór, en af ætt bindingsverks engu að
síður. Ekki er minnzt á innra þil á útstafni. I framkirkjunni
kvennamegin næst kór er stúka, líkt og sjá má í kirkjunni nú,
nema hún nær aðeins yfir eitt sæti ásamt forbekk við kórþilið.
50