Skagfirðingabók - 01.01.1984, Síða 70
SKAGFIRÐINGABOK
öllu timburhús með hliðarhlíf af hnaus og grastorfi, er lýtur í
einu og öllu lögmálum timbursmíðar, hefur e. t. v. verið
timburhús í upphafi, eins og íað var að hér að framan. Til þess
að átta okkur betur á þessum vanda, skulum við snúa okkur frá
Noregi til Færeyja.
Arið 1975 birti danski arkitektinn og fornleifafræðingurinn
Knud J. Krogh niðurstöður af uppgrefti, sem hann hafði gjört í
grunni Sandakirkju í Færeyjum árin 1969—70. Hann var svo
heppinn að finna menjar um allar þær fimm kirkjur, er þar
höfðu staðið frá upphafi kristni. Og hvað var það, sem hann sá?
Fyrsta kirkjan var altimburhús af hinni rómönsku einskipagerð
með niðurgröfnum hornstöfum og gæti verið frá 11. öld. Næsta
kirkja er einnig með rómönsku lagi, en frábrugðin þeirri fyrstu í
þremur veigamiklum atriðum. Hún er stærri, hornstafir eru
ekki niðurgrafnir, og um hana lykja torfveggir. Þessa kirkju
telur Knud J. Krogh vera reista á 12. öld og standa fram á
seinnihluta 16. aldar. Þriðja kirkjan hefur svo verið af þeirri
gerð, sem við Islendingar könnumst vel við. Kór og kirkja eru
undir sama þaki með timburstöfnum, torfveggjum og -þaki.
Hún er tekin niður 1711 og fjórða kirkja reist svipaðrar gerðar,
nema ívið breiðari og með forkirkju. Sú fjórða verður að víkja
fyrir þeirri fimmtu eftir aðeins hálfa öld, og 1839 er risin
timburkirkja á Sandi, stærri en allir fyrirrennarar hennar. Eg
spái því, að þarna í Sandey hafi Knud J. Krogh fundið spegil-
mynd af þróuninni á Islandi. Svipaða sögu segir hann okkur frá
Grænlandi, sem endar af skiljanlegum ástæðum fyrr.4 Því miður
hefur enginn slíkur gröftur farið fram í kirkjugrunni hérlendis.
Onnur ráð eru þó til, einmitt þau, sem hér á undan hefur verið
beitt: að kanna skrifleg gögn. Eitt merkasta vitni, sem við
getum fram borið, Islendingar, til staðfestingar á niðurstöðum
Kroghs, eru þær heimildir ritaðar, sem hér hefur verið leitazt
við að vinna úr. Hvað styður reyndar annað.
Gera má ráð fyrir, að þróunin, eins og hún birtist okkur á
Sandi, hafi verið mishröð í Færeyjum, á Grænlandi og Islandi.
68