Skagfirðingabók - 01.01.1984, Page 110
SKAGFIRÐINGABÓK
einn af þeim. Jóhann er mörgum kunnur. Hann hefur búið í
Sólheimum í Sæmundarhlíð um áratugi. Pegar kom fram yfir
hádegi, hvessti allmikið á suðvestan og reif skarann, en skóf
ekki.
Enginn veit nú með vissu, hvar náttstaður þessara útilegu-
manna hefur verið, en fullvíst má telja, að hann hafi verið
nálægt Bláfellshólum, því morguninn eftir fóru þeir yfir Foss-
brekkukvísl, en hún kemur úr Hofsjökli milli Sátu og Eyfirð-
ingahóla og fellur norður að Bláfelli og síðan til suðvesturs í
Ströngukvísl. Hún fellur í fossi niður af Fossbrekku, og sést
fossinn langar leiðir í burtu, meðal annars vestan af Hvera-
völlum.
Nú víkur sögunni til þeirra vestflokksmanna, er sendir voru
frá Skiptabakka og upp í Jökulkrók. Nýlega talaði eg við Stefán
Erlendsson og spurði, hvort hann myndi eftir þessu, og hann
kvaðst muna það vel. Þeir munu hafa verið heldur á undan
gangnaröðinni, því þegar þeir komu upp undir Krókahæð, sást
hún vel, og veðrið var þá ekki skollið á. Þeir fóru allir inn í
Vestari-Krók. Einn varð þar eftir með hestana, en tveir gengu
yfir í Austari-Krók. Syðst á Krókahæð er dálítil lægð, og þar
liggur jökullinn fram á hæðina. Þar er stutt yfir, og þar munu
þeir hafa farið. En þegar þeir komu aftur, var blindhríð skollin
á. Svo héldu þeir vestur eftir, að Miðkvísl, og þá tók Stefán þá
ákvörðun að fara ofan, því hann taldi vonlítið að finna Eyfirð-
ingahóla, sem eru alllangt þar frá. Hinir voru tregir til að fara
ofan, einkum Svavar, en Stefán var stífur á sinni skoðun og
sagði, að leiðir skildu þá. En það varð ekki. Þeir héldu ofan og
alla leið heim til sín um kvöldið eða nóttina. Þeir voru með einn
hest hver, og eg spurði Stefán, hvort hestarnir hefðu ekki verið
uppgefnir, því það er löng leið að fara frá Hraunlæk upp í
Jökulkrók og ofan aftur lengst út í Tungusveit. Hann sagðist
hafa verið með hest, sem var góður í tauminn og hlaupið við
hlið hans ofan að kofa á Goðdaladal, en þá var hinum orðið æði
kalt.
108