Skagfirðingabók - 01.01.1984, Síða 126
III
Bréf Innocentíusar þriðja 30. júlí 1198
MERKAST þeirra fáu bréfa, sem Rómapáfar sendu á miðöldum
norður í Skagafjörð til biskupa sinna á Hólum, er áðurnefnt
bréf Innocentíusar III., dags. 30. júlí 1198. Þetta bréf hefur líka
verið sent Skálholtsbiskupi og samkvæmt yfirskrift þess í bréfa-
bók Innocentíusar hefur það einnig verið stílað á klerkdóminn í
heild, enda ber inntak bréfsins því vitni. Hér er því komið hið
eina bréf, sem hægt er að segja, að páfi hafi nokkru sinni skrifað
til presta í Skagafirði, þótt vissulega eigi þeir og Hólabiskup
ekki einir þetta bréf. I þessari ritsmíð er hins vegar verið að
draga út úr voð atburðanna þræðina milli Skagafjarðar og
Rómar, en þeir höfðu náttúrulega oft einnig gildi fyrir allt
Hólastifti. Hólabiskup var ekki síður biskup Eyfirðinga, Þing-
eyinga og Húnvetninga en Skagfirðinga.
Þetta bréf Innocentíusar hefur valdið mönnum töluverðum
heilabrotum. I bréfinu er nefndur Erlendur ábóti, íslenzkur
sendimaður, sem hafi komið á fund páfa og flutt honum
frásagnir af siðferðisástandi Islendinga. Þessa manns verður
ekki vart í íslenzkum heimildum en ekkert sannar það til eða
frá. Samkvæmt bréfi Innocentíusar hefur Erlendur haft með sér
innsiglað bréf frá biskupum á Islandi en misst það í sjávarháska.
Hvað staðið hefur í þessu bréfi, er erfitt að gizka á, en fullvíst
verður að telja, að sendimaðurinn, Erlendur ábóti, hafi vitað
það, og hann hlýtur að hafa greint páfa frá því.
Það kemur helzt til greina, að þetta bréf hafi varðað ágreining
milli Eiríks Ivarssonar erkibiskups og íslenzku biskupanna,
Páls Jónssonar í Skálholti og Brands Sæmundssonar á Hólum,
en slíkur ágreiningur hefur vafalaust verið fyrir hendi.
Þegar Páll Jónsson, sem hafði verið kjörinn biskup til Skál-
holtsstóls eftir dauða Þorláks Þórhallssonar, fór til Noregs að
sækja vígslu, ríkti nánast styrjaldarástand í Noregi vegna deilna
Sverris konungs Sigurðssonar við kirkjuyfirvöld. Páfi hafði
124