Skagfirðingabók - 01.01.1984, Side 130
SKAGFIRÐINGABÓK
Það er í góðu samræmi við þá skoðun, sem hér hefur verið
sett fram, að í bréfi Innocentíusar er megináherzlan lögð á
tvennt:
1. Asökun um óhlýðni við yfirboðara. Hér eru ekki nefnd
nöfn, en ásökuninni er greinilega stefnt fyrst og fremst gegn
æðstu yfirmönnum íslenzku kirkjunnar. Hér er náttúrulega
ekki öðru til að dreifa en óhlýðni við Eirík erkibiskup.
2. Ásökun um samneyti við Sverri konung. Kaflinn í bréf-
inu, sem hljóðar um þetta, er sem hér segir í íslenzkri þýðingu:
„Hvað eigum vér að segja við yður um manndráp, brennur
og hórdóm og svo það, að þér dirfizt að samneyta bannfærðum
og þá einkum Sverri, sem er bæði bannfærður og trúvillingur,
óvinur Guðs og dýrlinga hans vegna framferðis síns.
Ef vér vildum fara ítarlega í einstök tilfelli, sem oss eru sögð
um drýgðar syndir yðar á meðal, iðkaðar að staðaldri, mundi
bréfið verða óhæfilega langt og mundi vekja lesendum og
heyrendum þess viðbjóð. Vér hörmum því og hryggjumst yfir
því, að þetta skuli hafa átt svo greiðan aðgang hjá yður.“24
I þessu felst fyrst og fremst ásökun og vítur á Pál Jónsson og
förunauta hans í Noregsferðinni, en jafnframt felst í þessu
aðvörun til hinna, sem ekki hafa ennþá komizt í tæri við hinn
bannfærða Noregskonung.
Það hefur löngum verið hlutskipti Islendinga að sækja æðstu
úrskurði í málefnum sínum til fjarlægra borga. Þetta hefur varla
blasað við þeim Islendingum, sem tóku við kristinni trú þúsund
árum eftir burð Krists. Kirkjur á Vesturlöndum voru þá enn
þjóðkirkjur. Breyting á þessu lét ekki lengi standa á sér, en það
var þó ekki fyrr en á dögum Þorláks Þórhallssonar biskups
(1178-1193) að reynt er að framfylgja hinni páfakirkjulegu
stefnu á Islandi. Samkvæmt fyrirmælum erkibiskups reynir
Þorlákur biskup að ná yfirráðum yfir stöðunum úr höndum
kirkjuhaldara í Skálholtsbiskupsdæmi, en mistekst þetta að
mestu leyti. Samtímamaður Þorláks á Hólastóli, Brandur Sæ-
mundsson (1163-1201), hefur hlotið að fá þetta sama verkefni í
128