Skagfirðingabók - 01.01.2001, Blaðsíða 71
DANSKI ÚRSMIÐURINN SEM VARÐ SKAGFIRÐINGUR
þátttakenda, er ég hef hitt, haft orð á því við mig og undrast
yfir þeim einstaka höfðingsskap, er foreldrar mínir og fleiri
skátaforeldrar á Króknum sýndu við þetta tækifæri.
Er pabbi kom til Sauðárkróks, var áfengisnotkun veruleg.
Menn fóru um þorpið mjög drukknir og fyrirferðarmiklir og
fóru ekki leynt með áfengið. En um það leyti er áfengisbann-
lögin tóku gildi, í janúar 1912, hafði dregið verulega úr áfeng-
isnotkun og menn voru farnir að fara afsíðis til að súpa á svo að
minna bæri á. En eftir að bannlögin tóku gildi, versnaði um-
gengni manna við Bakkus. Menn voru orðnir montnir af að eiga
„lögg“ á flösku og voru ekki að leyna því. Pabbi lýsti áfengis-
málunum á Sauðárkróki af eigin sjón. Hann var á móti algeru
banni á áfengi. Taldi bannlögin hafa gert illt verra. Eg held, að
pabbi hafi yfirleitt átt vín, en hvar hann fékk það eftir að bann-
lögin tóku gildi veit ég ekki, hafði heldur ekki áhuga á því.
Þrátt fyrir innflutningsbann á áfengi ætluðu Skagfirðingar
ekki að verða þurrbrjósta næstu árin. Selja mátti það áfengi er
til var í landinu er bannið gekk í gildi, til 1. janúar 1915. Þeir
birgðu sig því vel upp 1911 og fluttu inn 233 lítra af rauðvíni,
741 lítra af rommi, viskíi og koníaki, 1.940 lítra af vínanda,
12.941 lítra af bjór og 15.911 lítra af brennivíni. Þetta gera
nær því 32 þúsund lítra!!
Það kom stundum fyrir, er sveitamenn komu með ýmsa hluti
til viðgerðar sem þeir gátu beðið eftir, að pabbi bað mömmu að
gefa þeim heitt kaffi. Er kaffið kom inn á vinnustofuna, hellti
pabbi sterkum spíra út í bollann. Á þessu dreypti viðskiptavin-
urinn og rabbaði við pabba um landsins gagn og nauðsynjar.
Þetta þótti gott, og man ég, að síðustu droparnir voru sognir
úr yfirvararskegginu. Þetta er ekki víndrykkja, heldur „gleði-
tár“ og vottur vináttu. Ekki smakkaði pabbi á þessu. Hann
smakkaði yfirleitt ekki vín við vinnu. Er hann smakkaði vín,
fór hann vel með það. Eg minnist aðeins að hafa séð hann einu
sinni allþéttan, og var hann þá að koma úr ferðalagi með
nokkrum vinum sínum.
69