Skagfirðingabók - 01.01.2001, Blaðsíða 86
SKAGFIRÐINGABÓK
„Drottinn leiðir þig inn í landið,
sem hann sór feðrum sínum, að gefa þér“.
Út frá þessum inngangsorðum lagði séra Jón með nokkrum
orðum.
Guðrún, móðir mín, var nú orðin ekkja. Farsælu 44 ára
hjónabandi var lokið. Maðurinn með ljáinn hafði lengi látið
hana í friði, eða eftir að hún missti unga dóttur sína 1917,
Kristínu Rósu (f. 5. mars 1915, d. 25. desember 1917). Hann
hafði þó komið við hjá fjölskyldunni réttum tveim mánuðum
fyrir fráfall eiginmannsins, er sonarsonur þeirra, Frank (sonur
Franchs) dó rúmlega tveggja ára (f. 29- febrúar 1952, d. 16.
maí 1954).
Móðir mín var ávallt heilsuhraust og sterk kona og náði
háum aldri. Hún bjó áfram á Hverfisgötu 108, ásamt Pálu,
Karenu og dóttur hennar, Önnu Lísu Michelsen (f. 5. janúar
1943). Anna var alin upp hjá afa sínum og ömmu frá fæðingu.
Mamma varð bráðkvödd á heimili sínu, 31. maí 1967, tæplega
81 árs að aldri.
Eins og áður segir hafði verið ákveðið áður en pabbi dó, að
þau yrðu jarðsett á Sauðárkróki og í sömu kistunni í grafreit
þeim er Kristín Rósa hefir hvílt í. Jarðneskar leifar pabba
höfðu verið geymdar í Fossvogskapellu og voru nú lagðar í
kistu eiginkonu hans. I kistuna var og lögð aska elstu dóttur
þeirra, Karenar (d. 20. febrúar 1965). Mamma var kvödd frá
Fossvogskapellu 1. júní að viðstöddu fjölmenni. Prestur var séra
Ólafur Skúlason, síðar biskup.
Öll börn þeirra Guðrúnar og Jörgens Franks, er enn voru á
lífi, ásamt mökum, fóru með kistuna norður í Skagafjörð 9.
maí, og fór jarðarförin fram frá þeirra gömlu sóknarkirkju á
Sauðárkróki, laugardaginn 10. júní 1967. En sá dagur var líka
brúðkaupsdagur þeirra. Síðar var Hulda jarðsett í sama graf-
reit, d. 29. ágúst 1985. Sóknarpresturinn á Sauðárkróki, séra
Þórir Stephensen jarðsöng.
84