Skagfirðingabók - 01.01.2001, Blaðsíða 102
SKAGFIRÐINGABÓK
V
Kirkjuhóll liggur hátt í sveit. Á björtum degi er útsýn frá bæj-
arstæðinu mjög víð og fögur. Tind Mælifellshnjúks ber við loft
ofar melunum sunnan túns, síðan fjallaröðina frá Efribyggð út
til hafs. Drangey blasir við, Málmey er að vísu í hvarfi bak við
Hegranes, en Þórðarhöfði sést ofan Nessins. I norðaustri rís
„hyrna Höfðafjalls", eins og Stephan tók til orða í lofkvæði
sínu um Skagafjörð (1899), og þaðan í suður fylkja sér austur-
fjöllin, tíguleg; einnig sér til fjalla framan Norðurárdals. Allt
þetta og undirlendið rómaða bar á góðviðrisdegi fyrir augu frá
hlaðinu á Kirkjuhóli. Þar ekki síður en meðan Stephan átti
heima í Víðimýrarseli gat honum birzt sú sýn sem hann felldi
áratugum síðar í Illugadrápu (1895): „sólheimur ljómandi,
varðaður bláfjöllum“.
Bæjarhóllinn er allmikill um sig og liggur suður-norður,
austast í því túni sem nú er á Kirkjuhóli. Hann er allbrattur að
austanverðu. Lækur fellur í bakkagrónum farvegi utanvert við
hann, í grasi vöfðu gili - eða skorningi - og kliðar dátt, því
hallinn er töluverður. Sá lækur kemur við sögu í minningu
Stephans um „Skóshaug", sem var yzt á hólnum ofan gilsins.
Fjárhúsin stóðu fyrrum suður og upp frá bænum — þar nefndist
„gerði" í úttekt - og lengra í þá átt nær túnið ekki nú á dög-
um.
Tóftir bæjarins á Kirkjuhóli eru horfnar gjörsamlega, eins og
fyrr segir. Gamla túnið var allt þýft, illa fallið til heyskapar á
véltækjatímum og var því sléttað upp úr 1960. Þá stóðu enn
uppi veggir, en þak fallið. Sumarið 1987, þegar ég innti jarðar-
eiganda, Hall Jónasson, eftir aðstæðum á Kirkjuhóli (þangað
hafði ég þá aldrei komið), kvaðst hann hafa jafnað yfir rústirnar
í því skyni að gera túnið að sem greiðfærustum heyjavelli, en lét
í ljósi að hann sæi eftir því að hafa ekki þyrmt þeim, þær hefðu
mátt vallgróa svo að menn vissu, enn um sinn að minnsta
kosti, hvar bærinn stóð.
100