Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1968, Blaðsíða 136
134
M Ú L A Þ I N G
neðri. I neðri Mávarák eru Langasig og Þórðarsig; niður af
því 'við sjó er Jónsskot, en Sandbás er út við Sauðakamb.
Norðan í eynni er hellisskot sem Stighellir heitir skammt frá
sjó. Þar verpir fugl, en ekki verður í hann komizt nema í
stiga.
Tvö sker eru við Skrúð, Arfaklettur norðan en Þursasker
utan við eyna.
Við höfum nú litið yfir það helzta af Skrúðnum, en þó mun
hver sem þar kemur finna eitthvað sem gleður augað og ekki
er hér nefnt.
Oftast var veðrið gott meðan verið var úti í Skrúð, en
stundum breyttist það meðan verið var úti. Við skulum rifja
upp eina slíka ferð: )
Þriðja júní 1908 fóru Vattarnesingar í eggjaferð í Skrúð.
Þeir sem fóru voru Þorkell og Jón Eiríkssynir, Einar og
Kjartan Indriðasynir, Þorsteinn Hálfdánarson og Ögmundur
Ögmundsson.
Veður var gott um morguninn, norðan gola, en lygnandi. 1
þetta sinn var báturinn ekki settur, heldur var honum lagt
á Blundsgjárvoginn og vogbundinn. Byrjað var að síga eftir
eggjum á venjulegum stað og tíma, og gekk allt vel í fyrstu.
Klukkan tvö um daginn gerði skyndilega austan snjóbyl, og
var þá hætt að síga. Allir tóku eggjafötur og lögðu af stað
niður. Einar varð fyrstur það langt að sjá bátinn sem þá
haffði losnað frá öðrum megin og flaut fullur af sjó, en allt
flotið úr honum. Einari varð svo mikið um að hann fleygði
frá sér eggjafötunum sem hann var með og hljóp niður að
bát. Hinir komu honum fljótt til hjálpar, og tókst þeim að
ná bátnum og ausa hann, og komust þeir með hann suður á
Hellisvík og gátu sett hann þar.
Vistin gerðist nú köld hjá þeim Vattarnesingum því veðrið
var mjög vont, en þó tókst þeim að kveikja eld í Blundsgjár-
skúta og höfðust þar við. Klukkan tvö um nóttina lægði veðr-
ið nokkuð, og lögðu þeir þá af stað í land, en náðu ekki Vatt-
arnesi, heldur hröktust þeir inn í Hafnarnes í Vattarneslandi,
og þar var báturinn settur og gengið þaðan. Heim komu þeir