Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 47
MÚLAÞING
45
Árið 1943 staðfesti sýslunefndin lögreglusamþykkt fyrir Norður-
Múlasýslu. Árið 1984 hefst samstarf milli Norður- og Suður-Múlasýslu
um löggæslu á Héraði og í Borgarfirði og lögreglustöð staðsett á Egils-
stöðum. Þar starfa tveir löggæslumenn, er annar þeirra búsettur í Fella-
bæ og sinnir hreppunum í Norður-Múlasýslu. Á árunum 1956 - 1957
leggur sýslan fé til fangahúss á Egilsstöðum.
Á sýslufundi 1949 var kosin þriggja manna nefnd til að semja tillögu
um byggingasamþykkt fyrir Norður-Múlasýslu. Tillaga þessi var lögð
fyrir sýslufund 1950 til umræðu og samþykktar. Það ár var einnig
staðfest samþykkt um sameiginlegan byggingafulltrúa fyrir Múlasýslur
báðar og Austur-Skaftafellssýslu. Þessu byggingafulltrúastarfi gegndi
fyrst og lengi vel Einar byggingameistari Stefánsson frá Mýrum í
Skriðdal, búsettur á Egilsstöðum. Síðustu árin sinna þessu starfi Guð-
mundur Jónsson og Baldur Einarsson frá Ekkjufellsseli. Ekki er getið
byggingafulltrúa í sýslufundargerðum eftir 1980.
Árið 1947 beindi sýslunefnd þeirri áskorun til ríkisstjórnar og Alþing-
is, að breytt verði markalínu milli Norður- og Suður-Múlasýslu á þann
veg að hún liggi um fjallgarðinn sunnan Fljótsdalshéraðs og fram á
Dalatanga. Af þessu leiðir að Eiðahreppur, Vallahreppur og Skriðdals-
hreppur yrðu innan Norður-Múlasýslu. Með þessu móti yrðu sýslu-
mörkin eðlilegri, bæði landfræðilega og félagslega séð, þar sem Fljóts-
dalshérað yrði þá ekki klofið milli tveggja sýslufélaga. Engan árangur
bar þessi beiðni, eins og allir vita.
Mikið stóð til hér austanlands og víðar þjóðhátíðarárið 1974. Á
fundi sýslunefndar, sem haldinn var í apríl þetta ár, var samþykkt
eftirgreind tillaga: „Sýslunefnd samþykkir að sýslusjóður Norður-
Múlasýslu beri fyrir sitt leyti kostnað af samkomuhaldi þjóðhátíðar að
Eiðum, enda verði greiðsluskylda Suður-Múlasýslna, Seyðisfjarðar og
Neskaupstaðar hlutfallslega jöfn miðað við íbúatölu. Jafnframt felur
sýslunefnd oddvita sínum að veita þjóðhátíðarnefnd þann stuðning
sem þarf og fært þykir".
Þjóðhátíðarnefnd sem kosin var 1971 sá um samkomuhaldið að Eið-
um 6. júlí 1974, var þar margt manna saman komið, enda dagskrá
fjölbreytt. Nefndin hafði fest kaup á mjög stóru tjaldi, sem reist var
við samkomusvæðið. Þar voru veitingar fram bornar, þar var dansleikur
um kvöldið og fram eftir nóttu. Þetta tjald var síðar oft notað á útisam-
komum á Héraði og víðar, alltaf kallað sýslutjaldið. Þetta tjald var
síðar afhent sem gjöf sýslnanna til Ungmenna- og íþróttasambands
Austurlands (UÍA) sem stofnað var að Eiðum 1941. Sýslu- og bæjar-