Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 59
MÚLAÞING
57
1907 gengu í gildi lög um fræðslu barna, samkvæmt þeim lögum sáu
sveitarfélög ásamt heimilunum um fræðslu barna til 14 ára aldurs. Þá
komu til sögunnar farskólar í sveitum. Áður voru börn ekki skólaskyld,
og áttu prestar að sjá um að þau lærðu að lesa, skrifa og reikna, ásamt
kristnum fræðum. Hafði sýslunefnd þá oft afskipti af skólahaldi og að
kennarar fengju laun sín greidd úr landssjóði að hluta til eins og vera
átti.
Árið 1881 fær Seyðisfjarðarhreppur leyfi sýslunefndar til að byggja
barnaskóla á Seyðisfjarðaröldu, og árið 1892 fær sami hreppur leyfi til
að byggja barnaskóla á Vestdalseyri. Seyðisfjörður fékk kaupstaðar-
réttindi árið 1894. Utan kaupstaðarins starfaði Seyðisfjarðarhreppur,
hann fékk leyfi til að kaupa svokallað Patersonshús á Hánefsstaðaeyri,
til að hafa þar barnaskóla. Árið 1891 biðja tveir sveitakennarar á
Héraði um meðmæli sýslunefndar til að fá styrk úr landssjóði vegna
kennslustarfa.
Árið 1903 samþykkti sýslunefnd að Borgarfjarðarhreppur fengi að
láni kr. 3.000,00 - 4.000,00 til að fullgera bindindis- og barnaskólahús
á Bakkagerði og 1905 er veitt heimild til að stækka þetta hús. Húsið
brann 1906, en var endurbyggt. Þar starfaði Unglingaskóli Borgarfjarð-
ar á árunum 1910 - 1920. Þorsteinn M. Jónsson alþingismaður beitti
sér fyrir stofnun og rekstri skólans. Þorsteinn var þá búsettur á Borg-
arfirði. Sýslunefnd samþykkti að styrkja skóla þennan árlega með fjár-
framlagi. Árin 1909 - 1911 fékk Hákon Finnsson fjárstyrk til unglinga-
skólahalds á Breiðavaði og í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði. Unglinga-
skóla á Vopnafirði var veittur fjárstyrkur árlega frá 1911 - 1917.
Kvennaskóli
Það kemur fram á sýslunefndarfundi 1895, að starfandi er nefnd til
að athuga um stofnun kvennaskóla á Austurlandi. Nefnd þessi skilar
áliti sínu á þeim fundi. Bendir nefndin á Eiða sem stað fyrir skólann.
Þessu erindi var vísað til alþingismanna. Á fundi sýslunefndar 1898
var kvennaskólamálið til umræðu. Þá samþykkt að koma á sameigin-
legum fundi sýslunefnda Múlasýslna til að ræða þetta mál frekar. Á
sameiginlegum fundi sem haldinn var 1906 eru þessi mál rædd og skipuð
nefnd í málið. Á næstu fundum er þetta mál til umræðu. Komu fram
tillögur um ýmsa skólastaði, svo sem Dvergastein í Seyðisfirði, Kolla-
leiru í Reyðarfirði, einnig að stofna húsmæðradeild við Eiðaskóla.