Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 91
MÚLAÞING
89
stjórar eða kokkar á svona koppa, þetta 8-10 tonna, heldur var það
venjan að formaðurinn væri einnig stýrimaður og vélstjóri, og það var
Þórarinn bróðir minn í þessari ferð. Kokkur var enginn, þeir þekktust
heldur ekki á þessum fleytum.
Ægir var smíðaður á Seyðisfirði 1906, hann var með eina siglu
(mastur), súðbyrtur tvístefnungur, eins og flestir bátar voru á fyrstu
árum vélbátanna, a. m. k. á Seyðisfirði. Byggður var hann úr eik,
stærðin var 9-10 tonn (segir J. Þ.). Vélin 12 hestöfl, tvöföld fjórgeng-
isvél af Alpha gerð, ganghraði 7 mílur í logni. Þótti góður bátur.1)
Ferðinni var fyrst heitið til Norðfjarðar. Við ætluðum að verða sam-
skipa báti þaðan, sem hét Gnoðin SF 47 og gerð var út frá Hornafirði.
Gnoðin var um 10 tonn að stærð brúttó og 10,3 m á lengd eða um 35'
(samkv. skipaskrá 1930), smíðastaður var Danmörk 1911, byggð úr
eik og súðbyrt. Vélin af Alpha gerð 14 hestöfl frá 1915. Eigandi mun
hafa verið Bjarni Guðmundsson o. fl. Útgerðarstjórinn Bjarni Guð-
mundsson. Gnoðin var keypt sumarið áður frá Vestmannaeyjum og
átti hana þá Sigurður Ingimundarson frá Skjaldbreið í Eyjum, þekktur
útgerðarmaður og sægarpur.
Tóti bróðir minn, formaður Ægis, var búinn að tala um það við
Sigurð Jónsson, formanninn á Gnoðinni, að þeir yrðu samferða til
Hornafjarðar. Þeir voru góðir kunningjar og ákváðu samferðina.
Við á Ægi vorum allir ókunnugir syðri hluta leiðarinnar á milli Seyð-
isfjarðar og Hornafjarðar, en Sigurður Jónsson var henni þaulkunnug-
ur, hafði verið í ferðum með flutningabátnum Drífu SU 13, frá Norð-
firði sumarið áður á þessari leið og þó sérstaklega um haustið.
Það er best að minnast Drífu ofurlítið nánar því að hún átti eftir að
koma hér við sögu. Hún var smíðuð í Færeyjum 1917, og kom til
Norðfjarðar seinnipart þess sumars, stærðin 29,46 brúttó tonn byggð
úr eik kantsett, tvímöstruð með hekk skutbjúgt eða sporöskjulagað.
Vélartegund man ég ekki eða stærð hennar.
') Á skipaskrá dags. 18/8 1906 segir svo: Ægir NS 196 - stærö 7,68 brúttólestir. Aðalmál
34,0' lengd, 8,9' breidd og 4,5' dýpt. Byggður á Seyðisfirði 1906 úr eik, súðbyrtur,
tvístefnungur. Reiði 1 mastur, stórsegl og fokka. Venjuleg áhöfn 4 menn. Venjuleg
fiskiaðferð, lóðir. Formaður Olaf Olsen Aalesund Norge. Eigandi Þorsteinn Jónsson
kaupmaður Borgarfirði N.-Múl. Skráður á Seyðisfirði. Þótt hér beri smávegis á milli,
með stærð Ægis, hjá sögumanni mínum og skráningunni frá 1906, þá mun þar aðeins
um aðra mælingu að ræða, og hefur talan því breyst á þessum 14 árum, sem þar liðu á
milli, af einhverjum ástæðum. Minni Jóns Þorsteinssonar er óhætt að treysta í þessu
sem öðru. Ég man vel eftir Ægi, og heyrði þessa stærð, 9-10 tonn nefnda, enda þótti
hann mikill bátur á þeim árum. - S. M.