Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 98
96
MÚLAÞING
á eynni, en það gerðu þeir alltaf, og var gömul venja, þegar þeir vildu
hafa samband við land af einhverjum ástæðum. Fylgdust menn í landi
vel með Papeyingum, hvort þar var flaggað eða ekki, og kom það sér
vel þegar mikið var í húfi, svo sem í þetta sinn. Sem betur fór var
bjart veður þennan dag, norðanstormur og hreinviðri, og þá þurfti
ekki að kvarta undan Austfjarðaþokunni alkunnu, sem oft er dimm á
þessum slóðum.
Við héldum okkur um stund út af voginum, sem er vestan á eyjunni,
og sem næst vogmynninu. Við gátum þó ekkert samband haft við
Papeyinga. Þegar við vorum þarna, var ennþá hvass norðvestanstorm-
ur, og því ekki hægt að kallast á við menn í eynni.
Við sigldum síðan suður af eynni, þegar öll von var úti um að geta
náð sambandi við Papeyinga. Þessi sigling okkar varð til þess að það
sást til Ægis úr landi. Var þá komið undir kvöld.
Annars var öllum í landi þá kunnugt um að Ægi vantaði, en bjuggust
víst ekki við því að hann sæist framar. En þá þegar hafði Papeyjarflagg-
ið sést, og settu þeir það í samband við bátinn, þegar til hans sást.
Papeyjarmenn brugðust fljótt við, og strax þá á sunnudagskvöldinu
15. febrúar kom vélbáturinn Síðu-Hallur til okkar og dró Ægi inn á
Djúpavog. Þar með var okkur borgið og þessi háskalega hrakningsferð
á enda. Voru þá liðnir nær 2 sólarhringar frá því að við lögðum af stað
frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar og rúmir 8 sólarhringar frá því að
við lögðum af stað að heiman. Læt ég hér fylgja með fáein orð um
bjargvættinn okkar Síðu-Hall.
Síðu-Hallur var byggður í Reykjavík á árinu 1917, en hann var
kantsettur eikarbátur með bogið hekk tvímastraður. Stærðin 14,86 br.
tonn. Eigandi var Elís Jónsson og kannski fleiri. Síðari eigendur, næst
á eftir Elísi, Valdimar Sigurðsson Eskifirði 1920, síðar á árinu, því
næst Útgerðarfélag Síðu-Halls 1921, Breiðdalsvík, næst Gísli Tómas-
son 1923. Á Djúpavogi mun hann hafa fyrst átt heima árið 1917 og
verið þar fram á árið 1920. Einkennisstafir Síðu-Halls voru SU 385.
Formaður á Síðu-Halli, þegar þetta var, hét Karl Steingrímsson Djúpa-
vogi, og með honum var þá Lúðvík Hansson skipstjóri og fleiri menn,
sem ég man ekki hverjir voru, enda við á Ægi ókunnugir þeim öllum.
Mig minnir Síðu-Hallur vera seldur síðar til Vestmannaeyja og héti
þá Skallagrímur. Svo enn seldur til Eskifjarðar, kannski undir nýju
nafni, og kann ég ekki sögu hans lengri. Síðu-Hallur hverfur af skipa-
skrá 1925. Þegar Síðu-Hallur kom með Ægi að landi, var mikill mann-
fjöldi þar saman kominn á bryggjunni á Djúpavogi.