Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Side 105
MÚLAÞING
103
af gólfinu, ég þóttist vita að hann vissi um hana þar. Hann svaraði þá
mjög rólega eins og angurvært: „Það er sama hvar hún liggur, við erum
bráðum dauðir hvort sem er“. Meira sagði hann ekki að sinni. Þessi
ágæti félagi okkar virtist ætla að mæta dauða sínum með stakri ró. Nú
þegar þessar línur eru ritaðar, 22. febrúar 1980, nákvæmlega 60 árum
síðar en þessi hrakningaferð var farin og á afmælisdegi Þórarins Sigurðs-
sonar, sem minnst var svo fallega á Djúpavogi, þegar við skipsfélagar
á Ægi gistum hjá heiðurshjónunum Elísi Jónssyni og Guðlaugu Eiríks-
dóttur - eru mínir kæru félagar úr þessari eftirminnilegu ferð allir
dánir, komnir yfir skerjagarð þann sem skilur á milli lífs og dauða.
Þökk sé þeim öllum fyrir samferðina. Blessuð sé minning þeirra.
Féin orð um vertíðina
Ekki man ég nú mikið að segja frá vertíðinni 1919 á Hornafirði,
árið áður en við vorum þar með Ægi. Sú vertíð hefur sennilega verið
góð hjá aðkomubátunum sem þar voru. Eitthvað hefur orðið til þess
að hleypa einskonar gullæði í austfirska útgerðarmenn. Það var líka
ekkert smáræði sem hinn mikli skörungur og framkvæmdamaður Þór-
hallur Daníelsson var búinn að gera á þessum stað, byggja þá miklu
verstöð sem hlaut nafnið Mikligarður, og var það vissulega réttnefni.
I því verki mun hafa sameinast hans mikli framkvæmdahugur og bjart-
sýni. Miklagarð átti Þórhallur einn.
Þegar Mikligarður var byggður 1919, áttu heimamenn engan bát, en
það sama ár voru keyptir 4 vélbátar þangað frá Vestmannaeyjum, og
voru í fyrsta sinn gerðir út frá Höfn veturinn 1920. Áður en Mikligarður
var byggður, var talsverð útgerð frá Ægissíðu. Voru það einkum Esk-
firðingar, sem gerðu þaðan út, og þessa fyrstu vertíð, sem Mikligarður
var til, voru nokkrir bátar einnig gerðir út frá Ægissíðu, flestir frá
Eskifirði. Man ég þar eftir Friðþjófi og Heimi frá Eskifirði, annars
voru Austfjarðabátarnir flestir frá Eskifirði og Norðfirði þessa vertíð,
og Fáskrúðsfirðingar gerðu einnig út frá Hornafirði, einkum síðar. Frá
Norðfirði man ég eftir Sleipni, sem Jón Benjamínsson gerði út. Hann
var gerður út frá Miklagarði þessa vertíð, en þeir voru fleiri Norðfjarð-
arbátarnir þessa vertíð á Hornafirði. Við Ægismenn vorum einskipa
frá Seyðisfirði. Þegar Mikligarður var byggður, var ekki margt fólk á
Höfn. Trúlega hafa fáir gert sér grein fyrir því hve miklum erfiðleikum
sá mikli atorku- og framkvæmdamaður, Þórhallur Daníelsson, mátti
mæta strax í byrjun með þessar framkvæmdir sínar, sem virtust að