Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Qupperneq 107
MÚLAÞING
105
síld. Það má líka segja að útgerð okkar hafi verið léleg. Við rerum út
með 8-10 fimmstrengja bjóð, um 300 önglar voru á hverju bjóði,
eða mest um 3 þúsund önglar í sjó í róðri. Handfæraveiði var þá ekki
stunduð af þessum vertíðarbátum. Fiskurinn hélt sig mest í sílinu, svo
að það var þá heldur ekki mikils að vænta. Þetta voru heldur engir
bátar til vetrarsjósóknar, flestir þeirra voru af stærðinni 5 til 9 tonn.
Menn væntu þess að fiskurinn gengi upp á leirinn, og það hefur hann
efalítið gert, en þá á eftir síli, sem var meira lostæti en léleg síld, og
því nær vonlaust um afla rneðan svo var. Leiðin inn að Miklagarði var
framan af vertíðinni svo grunn, að þangað komust ekki þessir litlu
bátar, þótt léttir væru, þegar fjara var, en það var eins og leiðin smá-
dýpkaði þegar út á leið vertíðina. Bátarnir hömuðust þarna í leireðjunni
og rótuðu henni smám saman upp, og það var eins og við þetta rót
myndaðist rás eða renna í leirbotninn þegar út á leið, svo að þeir
komust þá fremur inn að bryggjunni þótt lágsjávað væri. Við héldum
heim um eða eftir miðjan apríl eftir lélega en áfallalausa vertíð á
Hornafirði. Við urðum þarna reynslunni ríkari, kynntumst þessum
fiskislóðum, sem okkur voru áður ókunnar, og bættum í sjóð minning-
anna ógleymanlegri ferð á leið til verstöðvarinnar, sem hér hefur verið
greint frá, ferð sem færði okkur sönnur á því, að „það er eins og hulin
hönd / hjálpi er mest á reynir“.
Að lokum
Það hafði víst engum seyðfirskum útgerðarmanni dottið í hug að
fara á vetrarvertíð til Hornafjarðar áður en við Ægismenn fórurn
þangað. Það mun hafa verið gyllt fyrir mönnum öll aðstaða þarna til
aflafanga. Sagt var m. a. að ekki þyrfti að róa nema rétt út fyrir ósinn,
þar væru miðin og aflavon góð. Svo var hægt, að sagt var, að róa með
hvaða fúaspotta sem væri, því að þarna væri eingöngu leirbotn. En
við áttum nú eftir að kynnast þessu öllu betur og sjá bæði kostina og
gallana á þessari veiðistöð. Fleiri urðu ekki vertíðarúthöld á Ægi gamla
hjá okkur á Hornafirði.
Drífa var ein tvö sumur í beinaflutningum á milli Norðfjarðar og
Seyðisfjarðar, flutti fiskabein, hausa og hryggi frá Seyðisfirði til Norð-
fjarðar í beinamjölsverksmiðju þar. Á þeim árum, fyrir og um 1930,
var engin slík verksmiðja til á Seyðisfirði. Fór Drífa 1-2 ferðir í viku
hverri með beinin þessa leið. Þótt stutt sé á milli Seyðisfjarðar og
Norðfjarðar, þá hafa löngum verið strjálar samgöngur á milli þessara