Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 120
118
MÚLAÞING
og Brekku átti að koma. Mjófirðingar lögðu síðan til verkamenn og
mótorbát til að annast það verk.
Allt kemur þetta fram á reikningunum. Til dæmis er greitt fyrir
mótorbátinn 55 krónur. A hinn bóginn er neitað að borga 5 krónur
fyrir smábát, sem hafður var með til þess að ferja menn á milli mótor-
báts og lands. - Oddviti hefur augsýnilega ekki látið vaða ofaní sig!
Hér voru margir menn að verki. Á „reikningi til hreppsnefndar-
oddvita Mjóafjarðarhrepps yfir flutning á staurum frá Asknesi og yfir
á Norðurbyggðina 9. apríl 1907“ er þessi færsla: „24 menn í 14 klukku-
stundir = 336 klst., 0/25 pr. tíma, kr. 85.00.“
Allt hefur þetta verið tiltölulega auðvelt með sjónum fram, ládeyða
þar inni á firði og yfirleitt örstutt úr flæðarmáli á línustæðið.
Með harðneskjunni höfðu þeir það
Erfiðasti flutningurinn var vitanlega að koma staurum og öðru efni
á línustæðið yfir Króardalsskarð. Sagði faðir minn að það verk hefði
verið unnið að vetrarlagi þegar snjór var í giljum, og þá væntanlega
einnig töluverður snjór uppi á Króardalnum. Telur hann að færi hafi
verið eins og best gat orðið.
Mjög bratt er upp að fara frá sjónum, melar og klettaklutrur allt
upp á svokallaðar Brúnir. Þá er einnig í fangið upp Fjallið, en svo er
svæðið kallað þar fyrir ofan að tindum og dalskjöftum og upp allan
Króardal, og úr honum snarbrattar brekkur upp á sjálft Króardals-
skarðið, sem er nálega níu hundruð metra yfir sjávarmál. Ég hygg að
vegalengdin neðan frá sjó upp á skarð sé ekki minna en fimm kílómetr-
ar.
Hér varð engu við komið nema mannsaflinu. Vonlaust var að beita
hestum nema þá á smáköflum uppi á Fjalli, enda var um þær mundir
nær óþekkt að nota hesta til dráttar í Mjóafirði.
Á reikningi frá oddvitanum og sóknarprestinum, séra Þorsteini, sem
greiddur var haustið eftir, er þessi færsla: „Kaðall til að draga með
staura til Króardalsskarðs kr. 16.00.“ Aðrar voru nú ekki tilfæringarnar
við þessa erfiðu stauraflutninga!
Veður var allgott þá daga sem staurarnir voru dregnir upp. Þó urðu
menn frá að hverfa einn daginn vegna norðvestan hvassviðris. Var þá
og frost mikið og urðu menn að gá vel að sér að fá ekki kalbletti í
andlitið. Margir menn voru í þessum stauraflutningum, sennilega í
kringum tuttugu.