Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 132
130
MÚLAÞING
ara að spenna yfir verstu snjóflóðarásirnar þó aldrei verði alveg fram
hjá þeim komist. - Mun þetta hafa orðið ofan á.
Kaupsamningur um einkalínu
Þrátt fyrir þessi áföll kemur ekki fram, að þess sé farið á leit að
Landsíminn yfirtaki línuna milli Fjarðar og Brekku. En það varð að
ráði fáum árum seinna eins og eftirfarandi kaupsamningur, dagsettur
í Reykjavík 18. desember 1917, ber með sér:
„Milli landsímastjóra Forberg f. h. Landssímans og herra Sveins
Ólafssonar f. h. Mjóafjarðarhrepps, samkvæmt skriflegu umboði, er
gjörður eftirfarandi samningur viðvíkjandi kaupum á einkalínunni milli
Fjarðar og Brekku í Mjóafirði ásamt starfrækslu landssímastöðvanna
Fjarðar í Mjóafirði og Brekku:
Landssíminn kaupir símalínuna milli Brekku og Fjarðar í Mjóafirði
með öllu er henni tilheyrir að efni, áhöldum og verkfærum, fyrir 1.200
- tólf hundruð krónur og tekur við línunni í nothæfu standi 1. janúar
1918.
Mjóifjörður ábyrgist þriðja flokks landssímastöð á Brekku í Mjóa-
firði um næstu tíu ár frá 1. janúar 1918 að telja eftir gildandi reglum,
þó án nokkurs tillags frá Landssímanum nema fimmtán aura gjaldsins.
Hreppurinn ábyrgist líka landssímastöð í Firði í Mjóafirði um jafnlangt
tímabil samkvæmt síðustu lögum þessum viðvíkjandi og gildandi
reglum, þannig að Landssíminn og hreppurinn borgi sinn helminginn
hvor af launum stöðvarstjóra þar, með 125 kr. árlega, og fellur þá
burtu fimm aura gjaldið fyrir stöð þessa.
Talsímagjald milli Brekku og Fjarðar í Mjóafirði sé fimmtán aurar,
en að öðru leyti venjulegt talsímagjald.
Verðupphæðin 1.200 kr. greiðist hreppnum eða umboðsmanni hans
eftir að Landssíminn hefur tekið við línunni og jafnskjótt og hrepps-
nefnd Mjóafjarðarhrepps hefur tilkynnt landssímastjóra að samningur
þessi sé samþykktur.
Samningur þessi er innritaður í tveimur einshljóðandi eintökum,
annað fyrir Landssímann en hitt fyrir Mjóafjarðarhrepp.“
Með þessu lýkur rekstri einkasíma í Mjóafirði þótt hreppurinn hefði
enn um sinn dálítinn kostnað af rekstri símstöðvanna.
Norðfjarðarlína um Drangaskarð
Lína Ellefsens frá Firði að Asknesi lá lítt eða ekki undir snjóflóðum,