Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 140
138
MÚLAÞING
og það hafði kólnað. Snemma um morguninn kom ég að akveginum,
sem liggur norður yfir Héraðið og náði þá norður undir Jökulsá. Ég
átti von á vörubílnum, sem ekið var daglega hér um veginn, en það
gat dregist að hann kæmi. Blautur var ég og óttaðist kuldann og
svefninn, ef ég settist að og biði hér á bersvæði og kaus því að halda
áfram austur brautina, en það nefndist þessi vegur þá. Hestinum sleppti
ég þarna. Hann átti að sjá um sig heim.
Löng varð gangan þangað til ég mætti bílnum, en hann var þá fastur
í snjódrift og Jóhann mokaði. Þá hafði ég gengið að minnsta kosti 25
km leið að heiman. Engin ráð kunni ég, sem dugðu til að hagga þeirri
sannfæringu Jóhanns, að skipið væri farið fyrir löngu. Ástæðulaust væri
því að æðrast og engin þörf á að flýta sér.
Hann hélt áfram norður á brautarenda, tók þar farangurinn af bílnum
og fór að engu óðslega. Efalaust var hann traustur og vandvirkur, en
rósemin lá þung á persónuleika hans eins og regnvot torfa á heystakki.
Á austurleiðinni stansaði hann í Bót í Tungu og þar fékk hann
skilaboð frá oddvitanum, sem bað hann að bíða eftir sér og Jóhann
beið. Kannski var það þá sem ég varð þess fyrst áskynja að stundum
þarfnast maður mikilla vitsmuna til að geta stjórnað skapi sínu og
tilfinningum.
Það var áliðið kvölds, þegar við komum til Reyðarfjarðar og fréttum
að Esjan væri farin fyrir skömmu, að hún hefði átt að stansa á Eskifirði
og mundi hún vera þar ennþá. Nýlagður vegur var þangað og ég bað
Jóhann að aka mér úteftir. Því neitaði hann og kvað veginn vera
næstum ófæran. Hann sagði mér að nú skyldi ég fá mér einhvers staðar
gistingu og svo gæti ég setið í hjá sér heimleiðis í fyrramálið.
Ég hafði hugmynd um að Þorsteinn Pálsson frá Tungu greiddi götu
ferðamanna og leitaði ég til hans og sagði af högum mínum. Hann
virti þennan örþreytta og guðsvolaða ferðamann fyrir sér og spurði,
hvort ég vildi komast. Ég hélt nú það og hann sagði mér að setjast við
eldhúsborðið og fá mat, hann ætlaði að athuga málið. Eftir stutta stund
kom hann og hafði útvegað mótorbát, sem var ferðbúinn. Hann fylgdi
mér með föggurnar að bátnum og ég vona að ég hafi haft rænu á að
þakka þessum sómamanni vel fyrir mikinn greiða.
Báturinn var keyrður í loftköstum og ég var skíthræddur, enda hafði
ég ekki komið á sjó áður. Þegar við nálguðumst skipið var það komið
frá bryggju og lónaði. Stýrimaður stóð við borðstokk og dró mig um
borð, þegar ég hafði borgað 20 kr. fyrir bátinn. Hann sagði mér að
bíða á meðan hann útvegaði mér koju. Skipið var samstundis komið