Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Qupperneq 177
MÚLAÞING
175
ferðalag, þótt þeir ýjuðu ekki að því fyrr en sín á milli. En Guðni
hafði átt að hafa sagt, að einhvern tíma hefði Pjetur á Geirastöðum
séð það svartara í norðanbyljum Hlíðarhrepps en þetta ferðalag, og
aldrei hefði hann heyrt að Pjetri hefði hnekkst á í ferðalögum, og villst
gæti hann ekki á hverju sem gengi. Þetta heyrði eg suma aðra segja,
enda staðfest að sumir séu fæddir með þann eiginleika.
Sama var veðurblíðan, en róðurinn þyngri því bæði var suðurfall á
og farmurinn meiri, en þess gætti ekki mikið svo nærri landi, því ekki
var farið dýpra en svo að ferjan væri á fríum sjó. Dunk höfðu þeir
fengið á Höfðanum með vatni til drykkjar og dreyptu á pelanum til
uppörvunar, en ekki var það meira en til að halda sálinni í horfinu.
Verst voru þrengslin í ferj unni og hve erfitt var að komast að austrinum,
því nú lak ferjan meira, enda hafði sjórinn meira svigrúm til að komast
inn þegar ferjan þyngdist í sjó. Ekkert alvarlegt skeði þó á leiðinni,
en mikið kapp lagt á flýti. Allt var talið unnið ef þeir næðu þangað
sem Brúnn beið. Þegar þar að kom, að Brúnn sá ferjuna, rak hann
upp fegins hnegg, og allir víst ánægðir.
Brúnn vænti þess áreiðanlega að pabbi losaði hann úr ástandi þar
sem hvorki var vatn né gróður. En þá var nú að landa ferjunni og
brýna henni, bara að stefnið þyldi þessi átök. Aktygin voru nú sett á
Brún og böndum slegið fyrir stefnið og aftur fyrir skut og strekkt eins
og föng voru á. Að því loknu tók pabbi tauminn á Brún, skipaði sér
við hlið hans og hottaði á. Brúnn sparn í sandinn og lagðist í taugarnar,
en varla varð sagt að ferjan bifaðist. „Skipið ykkur á hvora hlið,“
kallaði pabbi til mannanna, „þetta lagast þegar við komum ofurlítið
ofar.“ Nú hallaði pabbi sér upp að Brún og sagði eitthvað sem Brúnn
virtist skilja. Hann setti sig í stellingar, hnyklaði vöðvana og rann af
stað. Ferjan varð eins og vélknúin og hélt áfram á sömu ferð þar til
komið var upp úr hallanum í flæðarmálinu - þá stöðvaði pabbi hann.
„Þetta gekk ágætlega," sögðu hinir, en pabbi fór ofan í vasa sinn og
stakk síðan einhverju að Brún. Ekki blés Brúnn að ráði, en svitinn
lak af honum og finna mátti skjálfta í vöðvum. Aftur var af stað haldið,
og nú var það leikur einn inn að Fljóti. Þar var ferjan sett á flot,
aktygin tekin af Brún og hann hafður á eftir yfir Fljótið.
Svo var matast og var Brúnn áleitinn með að verða ekki útundan.
Þótt veðrið væri gott varð ekki snúið á tímann, og hafa varð hraðar
hendur og hugarflýti. Björn og pabbi tóku við ferjunni, en Hannes og
Brúnn skyldu halda inn á móts við Hól og bíða þar. Hannes sló samt