Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 182
HALLDÓR PJETURSSON
Fráfærur
Eg á fáar minningar frá æskuárum ógeðfelldari en þær sem standa
í sambandi við fráfærur. Frá því að eg man eftir og þar til eg var milli
fermingar og tvítugs var fært frá á hverju sumri þar sem eg átti heima,
og þannig var það annars staðar þar sem eg þekkti til. Reglan var að
fært var frá öllum ám sem hægt var vegna aldurs lambanna, en sjaldan
voru lömb tekin undan yngri en mánaðargömul. Þó voru undantekning-
ar frá þessu, einkum ef það voru gamlar ær sem lengi höfðu verið í
kvíum, þá voru lömbin tekin undan hálfs mánaðar til þriggja vikna
gömul. Þetta lá í því að gömlu ærnar mjólkuðu miklu betur og voru
vanar öllum kringumstæðum í þessu sambandi og búnar að laga sig
eftir þeim.
Eg kveið alltaf fyrir fráfærnadeginum, jafnvel þó haldið væri til hans
að einhverju leyti, en yfirleitt hlökkuðu menn í sveitum til slíkra daga
og ekki síst börn. Á þeim tíma var víðast farið að skerðast um allt
góðmeti, en þó man eg að mamma geymdi alltaf eitthvað til þessa
dags. Þetta tilhlakk hefur eflaust átt rætur að rekja til þess, að með
fráfærunum hófst nýr þáttur í mataræðinu, mjólk, smjör, ostar o. s. frv.
Ekkert af þessu gat þó vegið upp á móti þeim öðrum óhugnaði sem
í mínum augum fylgdi deginum, og þar á ofan hjáseta og smala-
mennska.
Dagurinn byrjaði með því að allir voru vaktir eldsnemma, hver sem
vettlingi gat valdið drifinn af stað, því ekki veitti af að vel væri smalað,
síðan var að koma lömbunum inn og reka ærnar frá stekknum.
Mér fannst eg oft verða þess var í þessum smalamennskum að gömlu
ærnar reyndu að fela sig hvar sem þær komu því við. Þær vissu áreið-
anlega hvað að fór, enda var þetta alltaf um líkt leyti. Mig langaði
kannski stundum að ganga í lið með þeim, en slíkt dugði lítt, allt
mundi komast upp og leitað á ný ef eitthvað vantaði.
Fráfærurnar hjá okkur fóru fram á beitarhúsum um hálftíma gang