Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Síða 183
MÚLAÞING
181
frá bænum. Þetta var við Lagarfljótið, og á tanga sem gekk út í það
var rekið saman og þar teknar úr þær ær sem áttu að ganga með dilk.
Þetta var mjög tafsamt, því að allt varð að athuga vandlega. Hamingja
litlu lambanna lá í því að vera ekki stærri. Þetta skildu þau auðvitað
ekki og öfunduðu stóru lömbin sem hlupu hnakkakert við hlið rnæðra
sinna og ljómuðu af öryggi og lífsgleði.
Og hvernig áttu líka litlu lömbin að vita það, að hlutskipti þeirra
stærri var að vera innan stundar tekin undan mömmum sínum og
hlaupa örvilnuð kringum stekkinn. Þegar búið var að skilja úr, var það
talið sem eftir var og átti að færast frá. Þætti talan lág voru á ný valin
úr minni hópnum stærstu lömbin og þau hlutu versta hlutskiptið.
Lömb undan góðum mjólkurám gátu verið orðin stór hálfs mánaðar
og þriggja vikna, en viðbrigðin urðu svo mikil að þau kvoðnuðu upp,
og hörmungarsvipur og rýrð setti innsigli sitt á þau, svo þau voru
hvarvetna auðþekkt.
Þegar búið var að bræða frá hverju skyldi fært, var sá hópur rekinn
inn. Það tók nú oft sinn tíma, vegna þess að lömbin voru ekkert hrifin
af slíku, þótti frjálsara að leika sér úti. Fólkið umkringdi hópinn, æpti
og veifaði öllu sem til féllst, karlmennirnir húfum og hempum, en
kvenfólkið svuntum og klútum.
Þrátt fyrir alls konar bægslagang hoppuðu sprækustu lömbin yfir
mannhringinn og léku lausum hala. En alltaf tókst þó á endanum að
lokka lömbin inn með því að setja út einhverjar ær - og helst mæður
þeirra ef menn þekktu þær.
Næst voru ærnar tíndar út, lömbin skilin eftir í húsinu, en ærnar
reknar heim. Á heimleiðinni sýndu gömlu ærnar lítinn mótþróa, vissu
af gamalli reynslu að slíkt þýddi ekki neitt. Þær ráku upp jarm á stangli
og oft mátti sjá vatn renna úr augum þeirra. Hinar yngri, sem ekki
hafði verið fært frá áður, reyndu að brjótast til baka, en menn og
hundar hindruðu slíkt.
Um aldir hafa húsdýrin verið svo kúguð að þau hafa misst baráttuþrek
sitt gagnvart manninum, og það treystir hann á og má treysta, annars
færi kannski stundum á annan veg. Hvað ætli gerðist ef húsdýrin yrðu
sér allt í einu meðvitandi um styrk sinn og hræddust ekki húsbændur
sína, heldur létu hart mæta hörðu? Hér á eftir verður minnst á atriði
sem eins og styður þetta.
Fyrsta daginn sem setið var yfir ánum mátti ekki af þeim líta. Ekki
munu þær hafa gleymt lömbunum strax, því fyrir kom að lömb hlupu
undir eftir hálfan mánuð. Eg stráklingur sat yfir þennan fyrsta dag