Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Side 185
MÚLAÞING
183
var eg staddur þar, en úrslitin urðu þau að hrússi skyldi tekinn undan
aftur. Við áttum upprekstur á Húseynni, og þangað var hrússi reiddur
með bundið fyrir augum. Um Gimblu var ekki hirt að sinni og henni
sleppt.
Ekki kom hún heim næsta dag og var hennar þá leitað, og fannst
hún niður við stekk með stórt hrútlamb sem hún hafði tekið til fósturs.
Enn var þingað og úrskurðað að fært skyldi frá henni.
Þann úrskurð hef eg aldrei skilið. Hjá okkur var aldrei farið illa með
skepnur, ásetningur góður og fé ekki vanfóðrað. Faðir minn var þó
ekki fjármaður af öðru en skyldurækni og flestir kaldir fyrir tilfinningum
húsdýra.
Gimbla hafði oft orðið pabba þung í skauti. Þegar hún var í húsi
með fé héldu henni engin garðabönd, stundum var hún bundin, en
aldrei svo stutt að henni tækist ekki að komast upp í garðann og gera
þar öll sín stykki. Væri hún laus gekk hún í kumblinu og frágangur
hennar ekki til fyrirmyndar. Ekki held eg samt að þetta hafi ráðið hjá
pabba, heldur hitt að láta ekki eina rollu ráða yfir sér. En hvað um
það, fósturlambið var tekið frá henni og reitt á sama stað og hitt. Um
nóttina hvarf Gimbla og kom ekki heim daginn eftir. Þá var farið að
leita en árangurslaust, hvað margar ferðir sem farnar voru.
Seinna um sumarið varð einhverjum gengið um á beitarhúsunum og
litið þar inn. Sér hann þá innst í kró fast við garðann ræfil að kind,
sem var ein maðkaveita. Við könnun reyndist þetta Gimbla. Hún mun
hafa fengið júgurbólgu þar sem hún gat ekki losnað við mjólkina.
Þegar hún hefur svo fundið hvað að fór, hefur hún leitað á staðinn
þar sem hún var síðast með son sinn og fósturson. Þarna hafði hún
valið sér legstað. Annað athvarf hafði hún ekki, traust hennar á
mönnunum þorrið og þetta síðasti áfanginn.
☆
Þá snúum við aftur að hinum litlu munaðarleysingjum sem skildir
voru eftir í beitarhúsunum. Að morgni var þeim hleypt út. Þau virtust
vart átta sig á tilverunni, og fyrst hlupu þau í kringum húsið í von um
að mamma hlyti að vera á beit skammt frá. Þegar sú von brást upphófst
jarmur, sem er eins konar kallhljóð sem þessi tegund notar. Þetta
kallhljóð var blandið harmi sem ekki varð vart þótt lamb missti af
móður sinni í svip. Þau leituðu allt um kring og gripu vart í jörð - og
leik höfðu þau gleymt í svip. Mikil varð breytingin á svip þessara litlu
sakleysingja, sem áður höfðu ljómað af því að vera til og geta neytt
mjólkur og leiks.