Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Qupperneq 212
210
MÚLAÞING
Gjáin norðan í fjallinu heitir að sögn Klukkugjá, og hafa sumir
haldið, að hún hafi verið kölluð sönghof og nafnið dregið af hljóði
því, er klukkurnar framleiddu, þegar þær hringdu þar fram eftir öldum
af stormviðrum og fyrir stórtíðindum.
6. Goðaborgir heita og klettstapar tveir uppi á fjallshnúk, háum og
einkennilegum, ofar frá Hofströnd í Borgarfirði eystra. Fjallið heitir
Svartafell,1) og er klofið að ofan með gjá. Annar stapinn er nokkru
hærri og eigi hættulaust að klifra hann upp. - Hof Borgfirðinga stóð
þar niður frá í túninu, utan við Hofstrandarbæina. Er þar tóft mikil,
ferhyrnd, sem sögð er hofstóftin, þótt hún líkist varla hofstóft að lögun.
- Framan við bæinn rennur lækur úr fjalli ofan í Fjarðará, sem kallaður
er Helgaá. Sagt er að heiðingjar í Borgarfirði hafi spornað fast á móti
kristnitökunni. Sögðu hinir þeim þá stríð á hendur og söfnuðu liði. Þá
tóku heiðingjar hofsklukkurnar og færðu þær upp á Svartafell, og
hengdu á járnslá, er lá yfir gjána. En þá komu kristnir og börðust við
hina framan við lækinn, og lauk því svo, að kristnir sigruðu. En mann-
fall var mikið af hvorum tveggja. Var þar mýrarkrókur, er þeir börðust,
og voru þeir þar allir heygðir. Eru þar haugar eigi færri en 14 - 16,
sem sagðir eru dysjar þeirra, þótt líkari séu þeir yfirgrónum hraun-
hraukum. En vel mætti ske, að kirkjustaður Borgfirðinga væri við
þessa mýri kenndur, því hann er næsti bær. Langt fram eftir öldum
þóttust menn heyra hofsklukkurnar hringja sér fyrir stórviðburðum,
og Árni Gíslason í Höfn kveður svo að orði í Borgfirðingabrag: „Heyra
má og hljóm í bjöllum, er hringir veðrið stinna“ o. s. frv.
7. Goðaborgir heita enn fremur klettadrangar tveir á hjalla þeim,
sem liggur inn frá fjallinu Skælingi í Loðmundarfirði, einu hinu ein-
kennilegasta fjalli, sem útlendingar segjast fyrst sjá úr hafi, og kalla
sumir af lögun „kínverska turninn“. Staparnir eru áberandi. Ofan við
þá gengur flugabrún inn í landið, kölluð Ljómatindur og Ljómatinds-
röð.2) í gegnum hana liggja Tröllaskörð, og neðar frá Stokkshamrar.
En vestur frá Tröllkonubotn, Skúmhöttur og Kækjuskörð, með Orustu-
kampi niður af, sem hér segir annars staðar frá. - Klettar þeir, sem
Goðaborgirnar standa á, heita Hrafnaklettar. Einhverjar sagnir fylgdu
fyrr meir nöfnum þessum, hinum áðurnefndu, frá tíð Loðmundar, sem
nú eru flestar glataðar, einkum um Goðaborgirnar. Karlfell, Kerling-
arfjall, Herfell og Gunnhildur, Hrævadalur og Hofsá eru og gömul
nöfn í þeirri sveit.
') Nú Svartfell. - Á. H.
2) Nú Rjómatindsbrík (sjá kort). - Á. H.