Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Side 215
MÚLAÞING
213
17. Goðaborg er ein enn, klettstapi uppi á Reyðarártindi í Lóni,
sem sumir nefna Rauða-aurártind. Hann er svo fráskilinn fjöllunum í
kring, að ríða má allt í kringum hann; er þó fjallið vel mikið. Sagt er,
að Goðaborg þessi sé hof. Er það því til sönnunar, að stúlka ein villtist
úr smalaför upp á tindinn, og kom þar að húsi, er hún taldi vera veglegt
hof. Stóð lykill í skrá, og koparhringur mikill var í hurðinni. Grípur
hún nú fyrst um lykilinn og vill lúka upp, en fékk eigi orkað því. Greip
hún þá í hringinn og hnykkti svo fast, að hann losnaði úr hurðinni.
Varð hún þá hrædd og hljóp af stað, og ætlaði heim, en vissi eigi fyrr
af en hún kom aftur að húsinu. Fór svo þrívegis. Þá vann hún það heit
að gefa Stafafellskirkju hringinn. Þá rataði hún heim. Var sá hringur
þar lengi síðan í kirkjuhurð, en nú er hann á Þjóðminjasafninu í
Reykjavík.
18. Goðaborg heitir enn einn mikill klettur, húslagaður, luktur jökli,
langt uppi í Hoffellsfjöllum í Nesjum. Þessi klettur gnæfir við bláloft,
yfir flest, sem nærri er, og sést afar víða að. Þessi Goðaborg er hof,
og verja það landvættir og halda yfir því huldu. Verður hér sagt dæmi
um það. - Smali nokkur frá Hoffelli elti forðum eina hvítasunnunótt
ljónstygga sauði upp í Hoffellsfjöll og framhjá Goðaborginni, og sá
hann þá, að hún var hús mikið og hof. Stóðu dyr opnar og lá feiknar-
mikið naut í þeim og varði innganginn. Það svaf og hraut hátt, og þótti
honum jörð ganga skykkjum. Þar kafaði í sandi, er fyllti skó hans. Þar
voru og, honum til undrunar, lauf nokkur. Tróð hann nokkru í vasa
sína og elti svo sauðina enn lengra og sigraði þá loks. Þá hellti hann
sandinum úr skóm sínum og sá, að hann var gullsandur. Þá hugaði
hann í vasa sína og sá, að laufin öll voru peningar. Hann varð auðugur
maður.
BERGÞÓRA PÁLSDÓTTIR FRÁ VETURHÚSUM SKRÁSETTI
Þættir úr lífi Einars Sigurðssonar
verkamanns frá Eskifirði
Einar Sigurðsson segir frá
Þegar eg var tveggja ára gamall, man eg fyrst eftir mér, segir Einar
Sigurðsson og brosir sínu góðlátlega en glettna brosi. Við vorum þá
úti að leika okkur börnin að Hálsi í Geithellnahreppi, þar sem eg er